Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
1 Einu sinni var maður í Ús-landi. Hann hét Job. Hann var maður ráðvandur og réttlátur, guðhræddur og grandvar.
2 Nú bar svo til einn dag, að synir Guðs komu til þess að ganga fyrir Drottin, og kom Satan og meðal þeirra.
2 Mælti þá Drottinn til Satans: "Hvaðan kemur þú?" Og Satan svaraði Drottni og sagði: "Ég hefi verið að reika um jörðina og arka fram og aftur um hana."
3 Og Drottinn mælti til Satans: "Veittir þú athygli þjóni mínum Job? því að enginn er hans líki á jörðu, maður ráðvandur og réttlátur, guðhræddur og grandvar. Og enn þá er hann staðfastur í ráðvendni sinni, og þó hefir þú egnt mig gegn honum til að vinna honum tjón án saka."
4 Og Satan svaraði Drottni og sagði: "Nær er skinnið en skyrtan, og fyrir líf sitt gefur maðurinn allt sem hann á.
5 En rétt þú út hönd þína og snert þú bein hans og hold, og þá mun hann formæla þér upp í opið geðið."
6 Þá mælti Drottinn til Satans: "Sjá, veri hann á þínu valdi, en þyrma skalt þú lífi hans."
7 Þá gekk Satan burt frá augliti Drottins og sló Job illkynjuðum kaunum frá hvirfli til ilja.
8 Og Job tók sér leirbrot til að skafa sig með, þar sem hann sat í öskunni.
9 Þá sagði kona hans við hann: "Heldur þú enn fast við ráðvendni þína? Formæltu Guði og farðu að deyja!"
10 En hann sagði við hana: "Þú talar svo sem heimskar konur tala. Fyrst vér höfum þegið hið góða af Guði, ættum vér þá ekki einnig að taka hinu vonda?" Í öllu þessu syndgaði Job ekki með vörum sínum.
26 Davíðssálmur. Lát mig ná rétti mínum, Drottinn, því að ég geng fram í grandvarleik og þér treysti ég óbifanlega.
2 Rannsaka mig, Drottinn, og reyn mig, prófa hug minn og hjarta.
3 Því að ég hefi elsku þína fyrir augum, og ég geng í sannleika þínum.
4 Ég tek mér eigi sæti hjá lygurum og hefi eigi umgengni við fláráða menn.
5 Ég hata söfnuð illvirkjanna, sit eigi meðal óguðlegra.
6 Ég þvæ hendur mínar í sakleysi og geng í kringum altari þitt, Drottinn,
7 til þess að láta lofsönginn hljóma og segja frá öllum þínum dásemdarverkum.
8 Drottinn, ég elska bústað húss þíns og staðinn þar sem dýrð þín býr.
9 Hríf eigi sál mína burt með syndurum né líf mitt með morðingjum,
10 þeim er hafa svívirðing í höndum sér og hægri höndina fulla af mútugjöfum.
11 En ég geng fram í grandvarleik, frelsa mig og líkna mér.
12 Fótur minn stendur á sléttri grund, í söfnuðunum vil ég lofa Drottin.
1 Guð talaði fyrrum oftsinnis og með mörgu móti til feðranna fyrir munn spámannanna.
2 En nú í lok þessara daga hefur hann til vor talað í syni sínum, sem hann setti erfingja allra hluta. Fyrir hann hefur hann líka heimana gjört.
3 Hann, sem er ljómi dýrðar hans og ímynd veru hans og ber allt með orði máttar síns, hreinsaði oss af syndum vorum og settist til hægri handar hátigninni á hæðum.
4 Hann er orðinn englunum þeim mun meiri sem hann hefur að erfðum tekið ágætara nafn en þeir.
5 Því ekki lagði hann undir engla hinn komandi heim, sem vér tölum um.
6 Einhvers staðar er vitnað: Hvað er maður, að þú minnist hans? Eða mannssonur, að þú vitjir hans?
7 Skamma stund gjörðir þú hann englunum lægri. Þú hefur krýnt hann vegsemd og heiðri. Og þú hefur skipað hann yfir verk handa þinna.
8 Allt hefur þú lagt undir fætur hans. Með því að leggja allt undir hann, þá hefur hann ekkert það eftir skilið, er ekki sé undir hann lagt. Ennþá sjáum vér ekki, að allir hlutir séu undir hann lagðir.
9 En vér sjáum, að Jesús, sem "skamma stund var gjörður englunum lægri," er "krýndur vegsemd og heiðri" vegna dauðans sem hann þoldi. Af Guðs náð skyldi hann deyja fyrir alla.
10 Allt er til vegna Guðs og fyrir Guð. Því varð hann, er hann leiðir marga syni til dýrðar, að fullkomna með þjáningum þann, er leiðir þá til hjálpræðis.
11 Því að sá sem helgar og þeir sem helgaðir verða eru allir frá einum komnir. Þess vegna telur hann sér eigi vanvirðu að kalla þá bræður,
12 er hann segir: Ég mun kunnugt gjöra nafn þitt bræðrum mínum, ég mun syngja þér lof mitt í söfnuðinum.
2 Farísear komu og spurðu hann, hvort maður mætti skilja við konu sína. Þeir vildu freista hans.
3 Hann svaraði þeim: "Hvað hefur Móse boðið yður?"
4 Þeir sögðu: "Móse leyfði að ,rita skilnaðarbréf og skilja við hana."`
5 Jesús mælti þá til þeirra: "Vegna harðúðar hjartna yðar ritaði hann yður þetta boðorð,
6 en frá upphafi sköpunar ,gjörði Guð þau karl og konu.
7 Fyrir því skal maður yfirgefa föður sinn og móður og bindast konu sinni,
8 og þau tvö skulu verða einn maður.` Þannig eru þau ekki framar tvö, heldur einn maður.
9 Það sem Guð hefur tengt saman, má maður eigi sundur skilja."
10 Þegar lærisveinarnir voru komnir inn, spurðu þeir hann aftur um þetta.
11 En hann sagði við þá: "Sá sem skilur við konu sína og kvænist annarri, drýgir hór gegn henni.
12 Og ef kona skilur við mann sinn og giftist öðrum, drýgir hún hór."
13 Menn færðu börn til hans, að hann snerti þau, en lærisveinarnir átöldu þá.
14 Þegar Jesús sá það, sárnaði honum, og hann mælti við þá: "Leyfið börnunum að koma til mín, varnið þeim eigi, því að slíkra er Guðs ríki.
15 Sannlega segi ég yður: Hver sem tekur ekki við Guðs ríki eins og barn, mun aldrei inn í það koma."
16 Og hann tók þau sér í faðm, lagði hendur yfir þau og blessaði þau.
by Icelandic Bible Society