Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 140

140 Til söngstjórans. Davíðssálmur.

Frelsa mig, Drottinn, frá illmennum, vernda mig fyrir ofríkismönnum,

þeim er hyggja á illt í hjarta sínu og vekja ófrið á degi hverjum.

Þeir gjöra tungur sínar hvassar sem höggormar, nöðrueitur er undir vörum þeirra. [Sela]

Varðveit mig, Drottinn, fyrir hendi óguðlegra, vernda mig fyrir ofríkismönnum, er hyggja á að bregða fæti fyrir mig.

Ofstopamenn hafa lagt gildrur í leyni fyrir mig og þanið út snörur eins og net, hjá vegarbrúninni hafa þeir lagt möskva fyrir mig. [Sela]

Ég sagði við Drottin: Þú ert Guð minn, ljá eyra, Drottinn, grátbeiðni minni.

Drottinn Guð, mín máttuga hjálp, þú hlífir höfði mínu á orustudeginum.

Uppfyll eigi, Drottinn, óskir hins óguðlega, lát vélar hans eigi heppnast. [Sela]

10 Þeir skulu eigi hefja höfuðið umhverfis mig, ranglæti vara þeirra skal hylja sjálfa þá.

11 Lát rigna á þá eldsglóðum, hrind þeim í gryfjur, svo að þeir fái eigi upp staðið.

12 Illmáll maður skal eigi fá staðist í landinu, ofríkismanninn skal ógæfan elta með sífelldum höggum.

13 Ég veit, að Drottinn flytur mál hrjáðra, rekur réttar snauðra.

14 Vissulega skulu hinir réttlátu lofa nafn þitt, hinir hreinskilnu búa fyrir augliti þínu.

Esterarbók 5

En á þriðja degi skrýddist Ester konunglegum skrúða og gekk inn í hinn innri forgarð konungshallarinnar, gegnt konungshöllinni, en konungur sat í konungshásæti sínu í konungshöllinni gegnt dyrum hallarinnar.

En er konungur leit Ester drottningu standa í forgarðinum, fann hún náð í augum hans, og konungur rétti út í móti Ester gullsprotann, er hann hafði í hendi sér. Þá gekk Ester nær og snart oddinn á sprotanum.

Og konungur sagði við hana: "Hvað er þér á höndum, Ester drottning, og hvers beiðist þú? Þótt það væri helmingur ríkisins, þá skal þér það veita."

Þá mælti Ester: "Ef konunginum þóknast svo, þá komi konungurinn, ásamt Haman, í dag til veislu þeirrar, er ég hefi búið honum."

Þá sagði konungur: "Sækið Haman í skyndi, svo að vér megum gjöra það, sem Ester hefir um beðið." Þegar nú konungur, ásamt Haman, var kominn til veislunnar, er Ester hafði búið,

sagði konungur við Ester, þá er þau voru sest að víndrykkjunni: "Hver er bæn þín? Hún skal veitast þér. Og hvers beiðist þú? Þótt það væri helmingur ríkisins, þá skal það í té látið."

Þá svaraði Ester og sagði: "Bæn mín og beiðni er þessi:

Hafi ég fundið náð í augum konungsins og þóknist konunginum að veita mér bæn mína og gjöra það, er ég beiðist, þá komi konungurinn og Haman til veislu þeirrar, er ég mun búa þeim. Mun ég þá á morgun gjöra það, sem konungurinn hefir óskað."

Þann dag gekk Haman burt glaður og í góðu skapi. En er Haman sá Mordekai í konungshliðinu og að hann hvorki stóð upp fyrir honum né hrærði sig, þá fylltist Haman reiði gegn Mordekai.

10 Þó stillti Haman sig. En er hann kom heim til sín, sendi hann og lét sækja vini sína og Seres konu sína.

11 Sagði Haman þeim frá hinum miklu auðæfum sínum og fjölda sona sinna og frá öllum þeim frama, sem konungur hafði veitt honum, og hversu konungur hefði hafið hann til vegs framar öðrum höfðingjum sínum og þjónum.

12 Og Haman mælti: "Já, Ester drottning lét engan koma með konungi til veislu þeirrar, er hún gjörði, nema mig. Hún hefir og boðið mér á morgun með konunginum.

13 En allt þetta er mér ekki nóg, meðan ég sé Mordekai Gyðing sitja í konungshliði."

14 Þá sagði Seres kona hans við hann og allir vinir hans: "Lát reisa fimmtíu álna háan gálga, og talaðu á morgun um það við konung, að Mordekai verði festur á hann. Far síðan glaður með konungi til veislunnar." Þetta ráð líkaði Haman vel og lét hann reisa gálgann.

Fyrsta bréf Jóhannesar 2:18-25

18 Börn mín, það er hin síðasta stund. Þér hafið heyrt að andkristur kemur, og nú eru líka margir andkristar komnir fram. Af því vitum vér, að það er hin síðasta stund.

19 Þeir komu úr vorum hópi, en heyrðu oss ekki til. Ef þeir hefðu heyrt oss til, þá hefðu þeir áfram verið með oss. En þetta varð til þess að augljóst yrði, að enginn þeirra heyrði oss til.

20 En þér hafið smurning frá hinum heilaga og vitið þetta allir.

21 Ég hef ekki skrifað yður vegna þess, að þér þekkið ekki sannleikann, heldur af því að þér þekkið hann og af því að engin lygi getur komið frá sannleikanum.

22 Hver er lygari, ef ekki sá sem neitar, að Jesús sé Kristur? Sá er andkristurinn, sem afneitar föðurnum og syninum.

23 Hver sem afneitar syninum hefur ekki heldur fundið föðurinn. Sá sem játar soninn hefur og fundið föðurinn.

24 En þér, látið það vera stöðugt í yður, sem þér hafið heyrt frá upphafi. Ef það er stöðugt í yður, sem þér frá upphafi hafið heyrt, þá munuð þér einnig vera stöðugir í syninum og í föðurnum.

25 Og þetta er fyrirheitið, sem hann gaf oss: Hið eilífa líf.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society