Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
140 Til söngstjórans. Davíðssálmur.
2 Frelsa mig, Drottinn, frá illmennum, vernda mig fyrir ofríkismönnum,
3 þeim er hyggja á illt í hjarta sínu og vekja ófrið á degi hverjum.
4 Þeir gjöra tungur sínar hvassar sem höggormar, nöðrueitur er undir vörum þeirra. [Sela]
5 Varðveit mig, Drottinn, fyrir hendi óguðlegra, vernda mig fyrir ofríkismönnum, er hyggja á að bregða fæti fyrir mig.
6 Ofstopamenn hafa lagt gildrur í leyni fyrir mig og þanið út snörur eins og net, hjá vegarbrúninni hafa þeir lagt möskva fyrir mig. [Sela]
7 Ég sagði við Drottin: Þú ert Guð minn, ljá eyra, Drottinn, grátbeiðni minni.
8 Drottinn Guð, mín máttuga hjálp, þú hlífir höfði mínu á orustudeginum.
9 Uppfyll eigi, Drottinn, óskir hins óguðlega, lát vélar hans eigi heppnast. [Sela]
10 Þeir skulu eigi hefja höfuðið umhverfis mig, ranglæti vara þeirra skal hylja sjálfa þá.
11 Lát rigna á þá eldsglóðum, hrind þeim í gryfjur, svo að þeir fái eigi upp staðið.
12 Illmáll maður skal eigi fá staðist í landinu, ofríkismanninn skal ógæfan elta með sífelldum höggum.
13 Ég veit, að Drottinn flytur mál hrjáðra, rekur réttar snauðra.
14 Vissulega skulu hinir réttlátu lofa nafn þitt, hinir hreinskilnu búa fyrir augliti þínu.
4 En er Mordekai varð alls þessa áskynja, er gjörst hafði, þá reif hann klæði sín, klæddist sekk og ösku, gekk út í miðja borgina og kveinaði hástöfum og beisklega.
2 Síðan gekk hann fast að konungshliðinu, því að enginn mátti inn ganga í konungshliðið klæddur hærusekk.
3 Og í öllum þeim skattlöndum, þar sem skipun konungs og lagaboð hans kom, varð mikill harmur meðal Gyðinga og fasta, grátur og kveinan. Flestir breiddu undir sig sekk og ösku.
4 Þá komu þjónustumeyjar Esterar og geldingar hennar og sögðu henni frá þessu. Varð drottning þá mjög óttaslegin. Og hún sendi klæði, er Mordekai skyldi færður í og hann fara úr sekknum, en hann vildi ekki taka við þeim.
5 Þá kallaði Ester Hatak til sín, einn af geldingum konungs, er hann hafði sett til að þjóna henni, og bauð honum að fara til Mordekai og fá að vita, hvað þetta ætti að þýða og hverju það sætti.
6 Þá gekk Hatak til Mordekai út á bæjartorgið, er var fyrir utan konungshliðið.
7 En Mordekai sagði honum allt, sem fyrir hann hafði komið, og upphæð fjárins, er Haman hafði heitið að vega í féhirslur konungs fyrir Gyðinga, til þess að fá þeim eytt.
8 Auk þess fékk hann honum eftirrit af konungsbréfi því, er út hafði verið gefið í Súsa, um að eyða þeim. Skyldi hann sýna Ester það og segja henni frá og bjóða henni að ganga fyrir konung og biðja hann miskunnar og leita vægðar hjá honum þjóð sinni til handa.
9 Og Hatak kom og flutti Ester orð Mordekai.
10 En Ester sagði við Hatak og bauð honum að flytja Mordekai það:
11 ,Öllum þjónum konungs og fólkinu í skattlöndum konungs er kunnugt, að um hvern þann mann eða konu, sem gengur fyrir konung inn í hinn innri forgarð og er eigi kallaður, gilda ein lög, að hann skal af lífi taka, nema konungur rétti út í móti honum gullsprotann sem merki þess, að hann megi lífi halda. En ég hefi eigi verið kölluð inn fyrir konung nú í þrjátíu daga.`
12 Og Mordekai voru flutt orð Esterar.
13 Þá lét Mordekai skila aftur til Esterar: ,Ekki skalt þú ímynda þér, að þú ein af öllum Gyðingum komist undan, af því að þú ert í höll konungs.
14 Því þótt svo færi, að þú þegðir nú, þá mun Gyðingum samt koma frelsun og hjálp úr einhverjum öðrum stað, en þú og ættfólk þitt munuð farast. Hver veit nema þú sért til ríkis komin einmitt vegna þessara tíma!`
15 Þá lét Ester skila aftur til Mordekai:
16 ,Far þú og kalla saman alla Gyðinga, sem nú eru í Súsa, og fastið mín vegna, etið hvorki né drekkið í þrjá daga, hvorki nótt né dag. Ég og þjónustumeyjar mínar munum og fasta á sama hátt. Síðan mun ég ganga inn fyrir konung, þótt það sé í móti lögunum, og ef ég þá á að farast, þá ferst ég.`
17 Gekk Mordekai þá burt og fór með öllu svo sem Ester hafði boðið honum.
3 Lofaður sé Guð og faðir Drottins vors Jesú Krists, sem eftir mikilli miskunn sinni hefur endurfætt oss til lifandi vonar fyrir upprisu Jesú Krists frá dauðum,
4 til óforgengilegrar, flekklausrar og ófölnandi arfleifðar, sem yður er geymd á himnum.
5 Kraftur Guðs varðveitir yður fyrir trúna til þess að þér getið öðlast hjálpræðið, sem er þess albúið að opinberast á síðasta tíma.
6 Fagnið því, þótt þér nú um skamma stund hafið orðið að hryggjast í margs konar raunum.
7 Það er til þess að trúarstaðfesta yðar, langtum dýrmætari en forgengilegt gull, sem þó stenst eldraunina, geti orðið yður til lofs og dýrðar og heiðurs við opinberun Jesú Krists.
8 Þér hafið ekki séð hann, en elskið hann þó. Þér hafið hann ekki nú fyrir augum yðar, en trúið samt á hann og fagnið með óumræðilegri og dýrlegri gleði,
9 þegar þér eruð að ná takmarki trúar yðar, frelsun sálna yðar.
by Icelandic Bible Society