Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Esterarbók 7:1-6

Þá er þeir konungur og Haman voru komnir til þess að drekka hjá Ester drottningu,

þá sagði konungur við Ester einnig þennan hinn annan dag, þá er þau voru setst að víndrykkjunni: "Hver er bón þín, Ester drottning? Hún mun veitast þér. Og hvers beiðist þú? Þótt það væri helmingur ríkisins, þá skal það í té látið."

Þá svaraði Ester drottning og sagði: "Hafi ég fundið náð í augum þínum, konungur, og þóknist konunginum svo, þá sé mér gefið líf mitt vegna bænar minnar og þjóð minni vegna beiðni minnar.

Því að vér erum seldir, ég og þjóð mín, til eyðingar, deyðingar og tortímingar. Og ef vér hefðum aðeins verið seldir að þrælum og ambáttum, þá mundi ég hafa þagað, þótt mótstöðumaðurinn hefði eigi verið fær um að bæta konungi skaðann."

Þá mælti Ahasverus konungur og sagði við Ester drottningu: "Hver er sá og hvar er sá, er dirfðist að gjöra slíkt?"

Ester mælti: "Mótstöðumaðurinn og óvinurinn er þessi vondi Haman!" En Haman varð hræddur við konung og drottningu.

Esterarbók 7:9-10

Og Harbóna, einn af geldingum þeim, er þjónuðu konungi, mælti: "Sjá, gálginn, sem Haman lét gjöra handa Mordekai, sem þó hafði talað það, er konungi varð til heilla, stendur búinn í húsagarði Hamans, fimmtíu álna hár." Þá mælti konungur: "Festið hann á hann!"

10 Og þeir festu Haman á gálgann, sem hann hafði reisa látið handa Mordekai. Þá rann konungi reiðin.

Esterarbók 9:20-22

20 Mordekai skrásetti þessa viðburði og sendi bréf til allra Gyðinga í öllum skattlöndum Ahasverusar konungs, bæði nær og fjær,

21 til þess að gjöra þeim að skyldu að halda árlega helgan fjórtánda og fimmtánda dag adarmánaðar _

22 eins og dagana, sem Gyðingar fengu hvíld frá óvinum sínum, og mánuðinn, er hörmung þeirra snerist í fögnuð og hryggð þeirra í hátíðisdag _ með því að gjöra þá að veisludögum og fagnaðar og senda þá hver öðrum matgjafir og fátækum ölmusu.

Sálmarnir 124

124 Hefði það ekki verið Drottinn sem var með oss, _ skal Ísrael segja _

hefði það ekki verið Drottinn sem var með oss, þegar menn risu í móti oss,

þá hefðu þeir gleypt oss lifandi, þegar reiði þeirra bálaðist upp í móti oss.

Þá hefðu vötnin streymt yfir oss, elfur gengið yfir oss,

þá hefðu gengið yfir oss hin beljandi vötn.

Lofaður sé Drottinn, er ekki gaf oss tönnum þeirra að bráð.

Sál vor slapp burt eins og fugl úr snöru fuglarans. Brast snaran, burt sluppum vér.

Hjálp vor er í nafni Drottins, skapara himins og jarðar.

Hið almenna bréf Jakobs 5:13-19

13 Líði nokkrum illa yðar á meðal, þá biðji hann. Liggi vel á einhverjum, þá syngi hann lofsöng.

14 Sé einhver sjúkur yðar á meðal, þá kalli hann til sín öldunga safnaðarins og þeir skulu smyrja hann með olíu í nafni Drottins og biðjast fyrir yfir honum.

15 Trúarbænin mun gjöra hinn sjúka heilan, og Drottinn mun reisa hann á fætur. Þær syndir, sem hann kann að hafa drýgt, munu honum verða fyrirgefnar.

16 Játið því hver fyrir öðrum syndir yðar og biðjið hver fyrir öðrum, til þess að þér verðið heilbrigðir. Kröftug bæn réttláts manns megnar mikið.

17 Elía var maður sama eðlis og vér, og hann bað þess heitt, að ekki skyldi rigna, og það rigndi ekki yfir landið í þrjú ár og sex mánuði.

18 Og hann bað aftur, og himinninn gaf regn og jörðin bar sinn ávöxt.

19 Bræður mínir, ef einhver meðal yðar villist frá sannleikanum og einhver snýr honum aftur,

Markúsarguðspjall 9:38-50

38 Jóhannes sagði við hann: "Meistari, vér sáum mann reka út illa anda í þínu nafni, og vildum vér varna honum þess, af því að hann fylgdi oss ekki."

39 Jesús sagði: "Varnið honum þess ekki, því að enginn er sá, að hann gjöri kraftaverk í mínu nafni og geti þegar á eftir talað illa um mig.

40 Sá sem er ekki á móti oss, er með oss.

41 Hver sem gefur yður bikar vatns að drekka, vegna þess að þér eruð Krists, sannlega segi ég yður, hann mun alls ekki missa af launum sínum.

42 Hverjum þeim, sem tælir til falls einn af þessum smælingjum, sem trúa, væri betra að vera varpað í hafið með mylnustein um hálsinn.

43 Ef hönd þín tælir þig til falls, þá sníð hana af. Betra er þér handarvana inn að ganga til lífsins en hafa báðar hendur og fara til helvítis, í hinn óslökkvanda eld. [

44 Þar sem ormarnir deyja ekki og eldurinn slokknar ekki.]

45 Ef fótur þinn tælir þig til falls, þá sníð hann af. Betra er þér höltum inn að ganga til lífsins en hafa báða fætur og verða kastað í helvíti. [

46 Þar sem ormarnir deyja ekki og eldurinn slokknar ekki.]

47 Og ef auga þitt tælir þig til falls, þá ríf það úr. Betra er þér eineygðum inn að ganga í Guðs ríki en hafa bæði augu og verða kastað í helvíti,

48 þar sem ormarnir deyja ekki og eldurinn slokknar ekki.

49 Sérhver mun eldi saltast.

50 Saltið er gott, en ef saltið missir seltuna, með hverju viljið þér þá krydda það? Hafið salt í sjálfum yður, og haldið frið yðar á milli."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society