Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
128 Sæll er hver sá, er óttast Drottin, er gengur á hans vegum.
2 Já, afla handa þinna skalt þú njóta, sæll ert þú, vel farnast þér.
3 Kona þín er sem frjósamur vínviður innst í húsi þínu, synir þínir sem teinungar olíutrésins umhverfis borð þitt.
4 Sjá, sannarlega hlýtur slíka blessun sá maður, er óttast Drottin.
5 Drottinn blessi þig frá Síon, þú munt horfa með unun á hamingju Jerúsalem alla ævidaga þína,
6 og sjá sonu sona þinna. Friður sé yfir Ísrael!
9 Betri eru tveir en einn, með því að þeir hafa góð laun fyrir strit sitt.
10 Því að falli annar þeirra, þá getur hinn reist félaga sinn á fætur, en vei einstæðingnum, sem fellur og enginn annar er til að reisa á fætur.
11 Sömuleiðis ef tveir sofa saman, þá er þeim heitt, en sá sem er einn, hvernig getur honum hitnað?
12 Og ef einhver ræðst á þann sem er einn, þá munu tveir geta veitt honum mótstöðu, og þrefaldan þráð er eigi auðvelt að slíta.
13 Betri er fátækur unglingur, sé hann vitur, heldur en gamall konungur, sé hann heimskur og þýðist eigi framar viðvaranir.
14 Því að hann gekk út úr dýflissunni og varð konungur, þótt hann hefði fæðst snauður í ríki annars.
15 Ég sá alla lifandi menn, þá er gengu undir sólinni, vera á bandi unglingsins, hins annars, þess er koma átti í hins stað.
16 Enginn endir var á öllu því fólki, á öllum þeim, er hann var fyrir. Þó glöddust eftirkomendurnir ekki yfir honum. Því að einnig það er hégómi og eftirsókn eftir vindi.
5 Hlustið á, þér auðmenn, grátið og kveinið yfir þeim bágindum, sem yfir yður munu koma.
2 Auður yðar er orðinn fúinn og klæði yðar eru orðin möletin,
3 gull yðar og silfur er orðið ryðbrunnið og ryðið á því mun verða yður til vitnis og eta hold yðar eins og eldur. Þér hafið fjársjóðum safnað á síðustu dögunum.
4 Launin hrópa, þau sem þér hafið haft af verkamönnunum, sem slógu lönd yðar, og köll kornskurðarmannanna eru komin til eyrna Drottins hersveitanna.
5 Þér hafið lifað í sællífi á jörðinni og í óhófi. Þér hafið alið hjörtu yðar á slátrunardegi.
6 Þér hafið sakfellt og drepið hinn réttláta. Hann veitir yður ekki viðnám.
by Icelandic Bible Society