Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
10 Væna konu, hver hlýtur hana? hún er miklu meira virði en perlur.
11 Hjarta manns hennar treystir henni, og ekki vantar að honum fénist.
12 Hún gjörir honum gott og ekkert illt alla ævidaga sína.
13 Hún sér um ull og hör og vinnur fúslega með höndum sínum.
14 Hún er eins og kaupförin, sækir björgina langt að.
15 Hún fer á fætur fyrir dag, skammtar heimilisfólki sínu og segir þernum sínum fyrir verkum.
16 Hún hefir augastað á akri og kaupir hann, af ávexti handa sinna plantar hún víngarð.
17 Hún gyrðir lendar sínar krafti og tekur sterklega til armleggjunum.
18 Hún finnur, að atvinna hennar er arðsöm, á lampa hennar slokknar eigi um nætur.
19 Hún réttir út hendurnar eftir rokknum, og fingur hennar grípa snælduna.
20 Hún breiðir út lófann móti hinum bágstadda og réttir út hendurnar móti hinum snauða.
21 Hún er ekki hrædd um heimilisfólk sitt, þótt snjói, því að allt heimilisfólk hennar er klætt skarlati.
22 Hún býr sér til ábreiður, klæðnaður hennar er úr baðmull og purpura.
23 Maður hennar er mikils metinn í borgarhliðunum, þá er hann situr með öldungum landsins.
24 Hún býr til skyrtur og selur þær, og kaupmanninum fær hún belti.
25 Kraftur og tign er klæðnaður hennar, og hún hlær að komandi degi.
26 Hún opnar munninn með speki, og ástúðleg fræðsla er á tungu hennar.
27 Hún vakir yfir því, sem fram fer á heimili hennar, og etur ekki letinnar brauð.
28 Synir hennar ganga fram og segja hana sæla, maður hennar gengur fram og hrósar henni:
29 "Margar konur hafa sýnt dugnað, en þú tekur þeim öllum fram!"
30 Yndisþokkinn er svikull og fríðleikinn hverfull, en sú kona, sem óttast Drottin, á hrós skilið.
1 Sæll er sá maður, er eigi fer að ráðum óguðlegra, eigi gengur á vegi syndaranna og eigi situr í hópi þeirra, er hafa Guð að háði,
2 heldur hefir yndi af lögmáli Drottins og hugleiðir lögmál hans dag og nótt.
3 Hann er sem tré, gróðursett hjá rennandi lækjum, er ber ávöxt sinn á réttum tíma, og blöð þess visna ekki. Allt er hann gjörir lánast honum.
4 Svo fer eigi hinum óguðlega, heldur sem sáðum, er vindur feykir.
5 Þess vegna munu hinir óguðlegu eigi standast í dóminum og syndugir eigi í söfnuði réttlátra.
6 Því að Drottinn þekkir veg réttlátra, en vegur óguðlegra endar í vegleysu.
13 Hver er vitur og skynsamur yðar á meðal? Hann láti með góðri hegðun verk sín lýsa hóglátri speki.
14 En ef þér hafið beiskan ofsa og eigingirni í hjarta yðar, þá stærið yður ekki og ljúgið ekki gegn sannleikanum.
15 Sú speki kemur ekki að ofan, heldur er hún jarðnesk, andlaus, djöfulleg.
16 Því hvar sem ofsi og eigingirni er, þar er óstjórn og hvers kyns böl.
17 En sú speki, sem að ofan er, hún er í fyrsta lagi hrein, því næst friðsöm, ljúfleg, sáttgjörn, full miskunnar og góðra ávaxta, óhlutdræg, hræsnislaus.
18 En ávexti réttlætisins verður sáð í friði þeim til handa, er frið semja.
4 Af hverju koma stríð og af hverju sennur meðal yðar? Af hverju öðru en girndum yðar, sem heyja stríð í limum yðar?
2 Þér girnist og fáið ekki, þér drepið og öfundið og getið þó ekki öðlast. Þér berjist og stríðið. Þér eigið ekki, af því að þér biðjið ekki.
3 Þér biðjið og öðlist ekki af því að þér biðjið illa, þér viljið sóa því í munaði!
7 Gefið yður því Guði á vald, standið gegn djöflinum, og þá mun hann flýja yður.
8 Nálægið yður Guði, og þá mun hann nálgast yður. Hreinsið hendur yðar, þér syndarar, og gjörið hjörtun flekklaus, þér tvílyndu.
30 Þeir héldu nú brott þaðan og fóru um Galíleu, en hann vildi ekki, að neinn vissi það,
31 því að hann var að kenna lærisveinum sínum. Hann sagði þeim: "Mannssonurinn verður framseldur í manna hendur, og þeir munu lífláta hann, en þá er hann hefur líflátinn verið, mun hann upp rísa eftir þrjá daga."
32 En þeir skildu ekki það sem hann sagði og þorðu ekki að spyrja hann.
33 Þeir komu til Kapernaum. Þegar hann var kominn inn, spurði hann þá: "Hvað voruð þér að ræða á leiðinni?"
34 En þeir þögðu. Þeir höfðu verið að ræða það sín á milli á leiðinni, hver væri mestur.
35 Hann settist niður, kallaði á þá tólf og sagði við þá: "Hver sem vill vera fremstur, sé síðastur allra og þjónn allra."
36 Og hann tók lítið barn, setti það meðal þeirra, tók það sér í faðm og sagði við þá:
37 "Hver sem tekur við einu slíku barni í mínu nafni, tekur við mér, og hver sem tekur við mér, tekur ekki aðeins við mér, heldur og við þeim er sendi mig."
by Icelandic Bible Society