Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
1 Sæll er sá maður, er eigi fer að ráðum óguðlegra, eigi gengur á vegi syndaranna og eigi situr í hópi þeirra, er hafa Guð að háði,
2 heldur hefir yndi af lögmáli Drottins og hugleiðir lögmál hans dag og nótt.
3 Hann er sem tré, gróðursett hjá rennandi lækjum, er ber ávöxt sinn á réttum tíma, og blöð þess visna ekki. Allt er hann gjörir lánast honum.
4 Svo fer eigi hinum óguðlega, heldur sem sáðum, er vindur feykir.
5 Þess vegna munu hinir óguðlegu eigi standast í dóminum og syndugir eigi í söfnuði réttlátra.
6 Því að Drottinn þekkir veg réttlátra, en vegur óguðlegra endar í vegleysu.
1 Orð prédikarans, sonar Davíðs, konungs í Jerúsalem.
2 Aumasti hégómi, segir prédikarinn, aumasti hégómi, allt er hégómi!
3 Hvaða ávinning hefir maðurinn af öllu striti sínu, er hann streitist við undir sólinni?
4 Ein kynslóðin fer og önnur kemur, en jörðin stendur að eilífu.
5 Og sólin rennur upp, og sólin gengur undir og hraðar sér til samastaðar síns, þar sem hún rennur upp.
6 Vindurinn gengur til suðurs og snýr sér til norðurs, hann snýr sér og snýr sér og fer aftur að hringsnúast á nýjan leik.
7 Allar ár renna í sjóinn, en sjórinn verður aldrei fullur, þangað sem árnar renna, þangað halda þær ávallt áfram að renna.
8 Allt er sístritandi, enginn maður fær því með orðum lýst, augað verður aldrei satt af að sjá, og eyrað verður aldrei mett af að heyra.
9 Það sem hefir verið, það mun verða, og það sem gjörst hefir, það mun gjörast, og ekkert er nýtt undir sólinni.
10 Sé nokkuð til, er um verði sagt: sjá, þetta er nýtt _ þá hefir það orðið fyrir löngu, á tímum sem á undan oss voru.
11 Forfeðranna minnast menn eigi, og ekki verður heldur eftirkomendanna, sem síðar verða uppi, minnst meðal þeirra, sem síðar verða.
12 Ég, prédikarinn, var konungur yfir Ísrael í Jerúsalem.
13 Ég lagði allan hug á að rannsaka og kynna mér með hyggni allt það, er gjörist undir himninum: Það er leiða þrautin, sem Guð hefir fengið mönnunum að þreyta sig á.
14 Ég hefi séð öll verk, sem gjörast undir sólinni, og sjá: Allt var hégómi og eftirsókn eftir vindi.
15 Hið bogna getur ekki orðið beint, og það sem skortir verður eigi talið.
16 Ég hugsaði með sjálfum mér: Sjá, ég hefi aflað mér meiri og víðtækari speki en allir þeir, er ríkt hafa yfir Jerúsalem á undan mér, og hjarta mitt hefir litið speki og þekkingu í ríkum mæli.
17 Og er ég lagði allan hug á að þekkja speki og að þekkja flónsku og heimsku, þá komst ég að raun um, að einnig það var að sækjast eftir vindi.
18 Því að mikilli speki er samfara mikil gremja, og sá sem eykur þekking sína, eykur kvöl sína.
29 Vei yður, fræðimenn og farísear, hræsnarar! Þér hlaðið upp grafir spámannanna og skreytið leiði hinna réttlátu
30 og segið: Ef vér hefðum lifað á dögum feðra vorra, hefðum vér ekki átt hlut með þeim í lífláti spámannanna.
31 Þannig vitnið þér sjálfir um yður, að þér eruð synir þeirra, sem myrtu spámennina.
32 Nú skuluð þér fylla mæli feðra yðar.
33 Höggormar og nöðru kyn, hvernig fáið þér umflúið helvítisdóm?
34 Þess vegna sendi ég til yðar spámenn, spekinga og fræðimenn. Suma þeirra munuð þér lífláta og krossfesta, aðra húðstrýkja í samkundum yðar og ofsækja borg úr borg.
35 Þannig kemur yfir yður allt saklaust blóð, sem úthellt hefur verið á jörðinni, frá blóði Abels hins réttláta til blóðs Sakaría Barakíasonar, sem þér drápuð milli musterisins og altarisins.
36 Sannlega segi ég yður: Allt mun þetta koma yfir þessa kynslóð.
37 Jerúsalem, Jerúsalem! Þú sem líflætur spámennina og grýtir þá, sem sendir eru til þín! Hversu oft vildi ég safna börnum þínum, eins og hænan safnar ungum sínum undir vængi sér, og þér vilduð eigi.
38 Hús yðar verður í eyði látið.
39 Ég segi yður: Héðan af munuð þér eigi sjá mig, fyrr en þér segið: ,Blessaður sé sá sem kemur, í nafni Drottins."`
by Icelandic Bible Society