Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
1 Sæll er sá maður, er eigi fer að ráðum óguðlegra, eigi gengur á vegi syndaranna og eigi situr í hópi þeirra, er hafa Guð að háði,
2 heldur hefir yndi af lögmáli Drottins og hugleiðir lögmál hans dag og nótt.
3 Hann er sem tré, gróðursett hjá rennandi lækjum, er ber ávöxt sinn á réttum tíma, og blöð þess visna ekki. Allt er hann gjörir lánast honum.
4 Svo fer eigi hinum óguðlega, heldur sem sáðum, er vindur feykir.
5 Þess vegna munu hinir óguðlegu eigi standast í dóminum og syndugir eigi í söfnuði réttlátra.
6 Því að Drottinn þekkir veg réttlátra, en vegur óguðlegra endar í vegleysu.
30 Orð Agúrs Jakesonar. Guðmælið. Maðurinn segir: Ég hefi streitst, ó Guð, ég hefi streitst, ó Guð, og er að þrotum kominn.
2 Því að ég er of heimskur til að geta talist maður, og ég hefi eigi mannsvit,
3 ég hefi eigi lært speki, svo að ég hafi þekking á Hinum heilaga.
4 Hver hefir stigið upp til himna og komið niður? Hver hefir safnað vindinum í greipar sínar? Hver hefir bundið vatnið í skikkju sína? Hver hefir reist öll endimörk jarðar? Hvað heitir hann og hvað heitir sonur hans _ fyrst þú veist það?
5 Sérhvert orð Guðs er hreint, hann er skjöldur þeim, er leita hælis hjá honum.
6 Bæt engu við orð hans, til þess að hann ávíti þig eigi og þú standir sem lygari.
7 Um tvennt bið ég þig, synja mér þess eigi, áður en ég dey:
8 Lát fals og lygaorð vera fjarri mér, gef mér hvorki fátækt né auðæfi, en veit mér minn deildan verð.
9 Ég kynni annars að verða of saddur og afneita og segja: "Hver er Drottinn?" eða ef ég yrði fátækur, kynni ég að stela og misbjóða nafni Guðs míns.
10 Ræg eigi þjóninn við húsbónda hans, svo að hann biðji þér ekki óbæna og þú verðir að gjalda.
2 Er ég kom til yðar, bræður, og boðaði yður leyndardóm Guðs, kom ég ekki með frábærri mælskusnilld eða speki.
2 Ég ásetti mér að vita ekkert á meðal yðar, nema Jesú Krist og hann krossfestan.
3 Og ég dvaldist á meðal yðar í veikleika, ótta og mikilli angist.
4 Orðræða mín og prédikun studdist ekki við sannfærandi vísdómsorð, heldur við sönnun anda og kraftar,
5 til þess að trú yðar væri eigi byggð á vísdómi manna, heldur á krafti Guðs.
by Icelandic Bible Society