Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
21 Þegar beiskja var í hjarta mínu og kvölin nísti hug minn,
22 þá var ég fáráðlingur og vissi ekkert, var sem skynlaus skepna gagnvart þér.
23 En ég er ætíð hjá þér, þú heldur í hægri hönd mína.
24 Þú munt leiða mig eftir ályktun þinni, og síðan munt þú taka við mér í dýrð.
25 Hvern á ég annars að á himnum? Og hafi ég þig, hirði ég eigi um neitt á jörðu.
26 Þótt hold mitt og hjarta tærist, er Guð bjarg hjarta míns og hlutskipti mitt um eilífð.
27 Því sjá, þeir sem fjarlægjast þig, farast, þú afmáir alla þá, sem eru þér ótrúir.
28 En mín gæði eru það að vera nálægt Guði, ég hefi gjört Drottin að athvarfi mínu og segi frá öllum verkum þínum.
22 Gott mannorð er dýrmætara en mikill auður, vinsæld er betri en silfur og gull.
2 Ríkur og fátækur hittast, Drottinn skóp þá alla saman.
3 Vitur maður sér ógæfuna og felur sig, en einfeldningarnir halda áfram og fá að kenna á því.
4 Laun auðmýktar, ótta Drottins, eru auður, heiður og líf.
5 Þyrnar, snörur, eru á vegi hins undirförula, sá sem varðveitir líf sitt, kemur ekki nærri þeim.
6 Fræð þú sveininn um veginn, sem hann á að halda, og á gamals aldri mun hann ekki af honum víkja.
7 Ríkur maður drottnar yfir fátækum, og lánþeginn verður þræll lánsalans.
8 Sá sem ranglæti sáir, uppsker óhamingju, og sproti heiftar hans verður að engu.
9 Sá sem er góðgjarn, verður blessaður, því að hann gefur hinum fátæka af brauði sínu.
10 Rek þú spottarann burt, þá fer deilan burt, og þá linnir þrætu og smán.
11 Drottinn elskar hjartahreinan, konungurinn er vinur þess, sem hefir yndisþokka á vörum sér.
12 Augu Drottins varðveita þekkinguna, en orðum svikarans kollvarpar hann.
13 Letinginn segir: "Ljón er úti fyrir, ég kynni að verða drepinn úti á götunni."
14 Djúp gröf er munnur léttúðarkvenna, sá sem verður fyrir reiði Drottins, fellur í hana.
15 Ef fíflska situr föst í hjarta sveinsins, þá mun vöndur agans koma henni burt þaðan.
16 Að kúga fátækan eykur efni hans, að gefa ríkum manni verður til þess eins að gjöra hann snauðan.
17 Hneig eyra þitt og heyr orð hinna vitru, og snú athygli þinni að kenning minni,
18 því að það er fagurt, ef þú geymir þau í brjósti þér, ef þau eru öll til taks á vörum þínum.
19 Til þess að traust þitt sé á Drottni, fræði ég þig í dag, já þig.
20 Vissulega skrifa ég kjarnyrði handa þér, með heilræðum og fræðslu,
21 til þess að ég kunngjöri þér sannleika, áreiðanleg orð, svo að þú flytjir þeim áreiðanleg orð, er senda þig.
9 Hvað þá? Höfum vér þá nokkuð fram yfir? Nei, alls ekki. Vér höfum áður gefið bæði Gyðingum og Grikkjum að sök, að þeir væru allir undir synd.
10 Eins og ritað er: Ekki er neinn réttlátur, ekki einn.
11 Ekki er neinn vitur, ekki neinn sem leitar Guðs.
12 Allir eru þeir fallnir frá, allir saman ófærir orðnir. Ekki er neinn sem auðsýnir gæsku, ekki einn einasti.
13 Opin gröf er barki þeirra, með tungum sínum draga þeir á tálar. Höggorma eitur er innan vara þeirra,
14 munnur þeirra er fullur bölvunar og beiskju.
15 Hvatir eru þeir í spori að úthella blóði.
16 Tortíming og eymd er í slóð þeirra,
17 og veg friðarins þekkja þeir ekki.
18 Fyrir augum þeirra er enginn guðsótti.
19 Vér vitum, að allt sem lögmálið segir, það talar það til þeirra sem eru undir lögmálinu, til þess að sérhver munnur þagni og allur heimurinn verði sekur fyrir Guði,
20 með því að enginn lifandi maður réttlætist fyrir honum af lögmálsverkum. En fyrir lögmál kemur þekking syndar.
by Icelandic Bible Society