Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 19

19 Til söngstjórans. Davíðssálmur.

Himnarnir segja frá Guðs dýrð, og festingin kunngjörir verkin hans handa.

Hver dagurinn kennir öðrum, hver nóttin boðar annarri speki.

Engin ræða, engin orð, ekki heyrist raust þeirra.

Og þó fer hljómur þeirra um alla jörðina, og orð þeirra ná til endimarka heims. Þar reisti hann röðlinum tjald.

Hann er sem brúðguminn, er gengur út úr svefnhúsi sínu, hlakkar sem hetja til að renna skeið sitt.

Við takmörk himins rennur hann upp, og hringferð hans nær til enda himins, og ekkert dylst fyrir geislaglóð hans. _________

Lögmál Drottins er lýtalaust, hressir sálina, vitnisburður Drottins er áreiðanlegur, gjörir hinn fávísa vitran.

Fyrirmæli Drottins eru rétt, gleðja hjartað. Boðorð Drottins eru skír, hýrga augun.

10 Ótti Drottins er hreinn, varir að eilífu. Ákvæði Drottins eru sannleikur, eru öll réttlát.

11 Þau eru dýrmætari heldur en gull, já, gnóttir af skíru gulli, og sætari en hunang, já, hunangsseimur.

12 Þjónn þinn varðveitir þau kostgæfilega, að halda þau hefir mikil laun í för með sér.

13 En hver verður var við yfirsjónirnar? Sýkna mig af leyndum brotum!

14 Og varðveit þjón þinn fyrir ofstopamönnum, lát þá eigi drottna yfir mér. Þá verð ég lýtalaus og sýknaður af miklu afbroti.

15 Ó að orðin af munni mínum yrðu þér þóknanleg og hugsanir hjarta míns kæmu fram fyrir auglit þitt, þú Drottinn, hellubjarg mitt og frelsari!

Orðskviðirnir 21:1-17

21 Hjarta konungsins er eins og vatnslækir í hendi Drottins, hann beygir það til hvers, er honum þóknast.

Manninum þykja allir sínir vegir réttir, en Drottinn vegur hjörtun.

Að iðka réttlæti og rétt er Drottni þóknanlegra en sláturfórn.

Drembileg augu og hrokafullt hjarta eru lampi óguðlegra, _ allt er það synd.

Fyrirætlanir iðjumannsins reynast fésamar vel, en öll flasfærni lendir í fjárskorti.

Fjársjóðir, sem aflað er með lygatungu, eru sem þjótandi vindblær, snörur dauðans.

Ofríki hinna óguðlegu dregur þá á eftir sér, því að þeir færast undan að gjöra það, sem rétt er.

Boginn er vegur þess manns, sem synd er hlaðinn, en verk hins hreina eru ráðvandleg.

Betri er vist í horni á húsþaki en sambúð við þrasgjarna konu.

10 Sál hins óguðlega girnist illt, náungi hans finnur enga miskunn hjá honum.

11 Sé spottaranum refsað, verður hinn einfaldi hygginn, og sé vitur maður fræddur, lærir hann hyggindi.

12 Gætur gefur réttlátur að húsi hins óguðlega, steypir óguðlegum í ógæfu.

13 Sá sem byrgir eyrun fyrir kveini hins fátæka, hann mun sjálfur kalla og eigi fá bænheyrslu.

14 Gjöf á laun sefar reiði og múta í barmi ákafa heift.

15 Réttlátum manni er gleði að gjöra það, sem rétt er, en illgjörðamönnum er það skelfing.

16 Sá maður, sem villist af vegi skynseminnar, mun brátt hvílast í söfnuði framliðinna.

17 Öreigi verður sá, er sólginn er í skemmtanir, sá sem sólginn er í vín og olíu, verður ekki ríkur.

Matteusarguðspjall 21:23-32

23 Hann gekk í helgidóminn. Þá komu æðstu prestarnir og öldungar lýðsins til hans, þar sem hann var að kenna, og spurðu: "Með hvaða valdi gjörir þú þetta? Hver gaf þér þetta vald?"

24 Jesús svaraði þeim: "Ég vil og leggja eina spurningu fyrir yður. Ef þér svarið mér, mun ég segja yður, með hvaða valdi ég gjöri þetta.

25 Hvaðan var skírn Jóhannesar? Frá himni eða frá mönnum?" Þeir ráðguðust hver við annan og sögðu: "Ef vér svörum: ,Frá himni,` spyr hann: ,Hví trúðuð þér honum þá ekki?`

26 Ef vér segjum: ,Frá mönnum,` megum vér óttast lýðinn, því að allir telja Jóhannes spámann."

27 Og þeir svöruðu Jesú: "Vér vitum það ekki." Hann sagði við þá: "Ég segi yður þá ekki heldur, með hvaða valdi ég gjöri þetta.

28 Hvað virðist yður? Maður nokkur átti tvo sonu. Hann gekk til hins fyrra og sagði: ,Sonur minn, far þú og vinn í dag í víngarði mínum.`

29 Hann svaraði: ,Það vil ég ekki.` En eftir á sá hann sig um hönd og fór.

30 Þá gekk hann til hins síðara og mælti á sömu leið. Hann svaraði: ,Já, herra,` en fór hvergi.

31 Hvor þeirra tveggja gjörði vilja föðurins?" Þeir svara: "Sá fyrri." Þá mælti Jesús: "Sannlega segi ég yður: Tollheimtumenn og skækjur verða á undan yður inn í Guðs ríki.

32 Því að Jóhannes kom til yðar og vísaði veg réttlætis, og þér trúðuð honum ekki, en tollheimtumenn og skækjur trúðu honum. Það sáuð þér, en snerust samt ekki síðar og trúðuð honum.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society