Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 19

19 Til söngstjórans. Davíðssálmur.

Himnarnir segja frá Guðs dýrð, og festingin kunngjörir verkin hans handa.

Hver dagurinn kennir öðrum, hver nóttin boðar annarri speki.

Engin ræða, engin orð, ekki heyrist raust þeirra.

Og þó fer hljómur þeirra um alla jörðina, og orð þeirra ná til endimarka heims. Þar reisti hann röðlinum tjald.

Hann er sem brúðguminn, er gengur út úr svefnhúsi sínu, hlakkar sem hetja til að renna skeið sitt.

Við takmörk himins rennur hann upp, og hringferð hans nær til enda himins, og ekkert dylst fyrir geislaglóð hans. _________

Lögmál Drottins er lýtalaust, hressir sálina, vitnisburður Drottins er áreiðanlegur, gjörir hinn fávísa vitran.

Fyrirmæli Drottins eru rétt, gleðja hjartað. Boðorð Drottins eru skír, hýrga augun.

10 Ótti Drottins er hreinn, varir að eilífu. Ákvæði Drottins eru sannleikur, eru öll réttlát.

11 Þau eru dýrmætari heldur en gull, já, gnóttir af skíru gulli, og sætari en hunang, já, hunangsseimur.

12 Þjónn þinn varðveitir þau kostgæfilega, að halda þau hefir mikil laun í för með sér.

13 En hver verður var við yfirsjónirnar? Sýkna mig af leyndum brotum!

14 Og varðveit þjón þinn fyrir ofstopamönnum, lát þá eigi drottna yfir mér. Þá verð ég lýtalaus og sýknaður af miklu afbroti.

15 Ó að orðin af munni mínum yrðu þér þóknanleg og hugsanir hjarta míns kæmu fram fyrir auglit þitt, þú Drottinn, hellubjarg mitt og frelsari!

Orðskviðirnir 19:24-29

24 Latur maður dýfir hendinni ofan í skálina, en ekki nennir hann að bera hana aftur upp að munninum.

25 Sláir þú spottarann, verður hinn einfaldi hygginn, og sé vandað um við skynsaman mann, lærir hann hyggindi.

26 Sá sem misþyrmir föður sínum og rekur burt móður sína, slíkur sonur fremur smán og svívirðing.

27 Hættu, son minn, að hlýða á umvöndun, ef það er til þess eins, að þú brjótir á móti skynsamlegum orðum.

28 Samviskulaus vottur gjörir gys að réttinum, og munnur óguðlegra gleypir rangindi.

29 Refsidómar eru búnir spotturunum og högg baki heimskingjanna.

Hið almenna bréf Jakobs 2:17-26

17 Eins er líka trúin dauð í sjálfri sér, vanti hana verkin.

18 En nú segir einhver: "Einn hefur trú, annar verk." Sýn mér þá trú þína án verkanna, og ég skal sýna þér trúna af verkum mínum.

19 Þú trúir, að Guð sé einn. Þú gjörir vel. En illu andarnir trúa því líka og skelfast.

20 Fávísi maður! Vilt þú láta þér skiljast, að trúin er ónýt án verkanna?

21 Réttlættist ekki Abraham faðir vor af verkum, er hann lagði son sinn Ísak á altarið?

22 Þú sérð, að trúin var samtaka verkum hans og að trúin fullkomnaðist með verkunum.

23 Og ritningin rættist, sem segir: "Abraham trúði Guði, og það var honum til réttlætis reiknað," og hann var kallaður Guðs vinur.

24 Þér sjáið, að maðurinn réttlætist af verkum og ekki af trú einni saman.

25 Svo var og um skækjuna Rahab. Réttlættist hún ekki af verkum, er hún tók við sendimönnunum og lét þá fara burt aðra leið?

26 Eins og líkaminn er dauður án anda, eins er og trúin dauð án verka.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society