Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
73 Asafs-sálmur. Vissulega er Guð góður við Ísrael, við þá sem hjartahreinir eru.
2 Nærri lá, að fætur mínir hrösuðu, lítið vantaði á, að ég skriðnaði í skrefi,
3 því að ég fylltist gremju út af hinum hrokafullu, þegar ég sá gengi hinna guðlausu.
4 Þeir hafa engar hörmungar að bera, líkami þeirra er heill og hraustur.
5 Þeim mætir engin mæða sem öðrum mönnum, og þeir verða eigi fyrir neinum áföllum eins og aðrir menn.
6 Fyrir því er hrokinn hálsfesti þeirra, þeir eru sveipaðir ofríki eins og yfirhöfn.
7 Frá mörhjarta kemur misgjörð þeirra, girndir þeirra ganga fram úr öllu hófi.
8 Þeir spotta og tala af illsku, mæla kúgunarorð í mikilmennsku sinni.
9 Með munni sínum snerta þeir himininn, en tunga þeirra er tíðförul um jörðina.
10 Fyrir því aðhyllist lýðurinn þá og teygar gnóttir vatns.
11 Þeir segja: "Hvernig ætti Guð að vita og Hinn hæsti að hafa nokkra þekkingu?"
12 Sjá, þessir menn eru guðlausir, og þó lifa þeir ætíð áhyggjulausir og auka efni sín.
13 Vissulega hefi ég til ónýtis haldið hjarta mínu hreinu og þvegið hendur mínar í sakleysi,
14 ég þjáist allan daginn, og á hverjum morgni bíður mín hirting.
15 Ef ég hefði haft í hyggju að tala þannig, sjá, þá hefði ég brugðið trúnaði við kyn barna þinna.
16 En ég hugsaði um, hvernig ég ætti að skilja það, það var erfitt í augum mínum,
17 uns ég kom inn í helgidóma Guðs og skildi afdrif þeirra:
18 Vissulega setur þú þá á sleipa jörð, þú lætur þá falla í rústir.
19 Sviplega verða þeir að auðn, líða undir lok, tortímdir af skelfingum.
20 Eins og draum er maður vaknar, þannig fyrirlítur þú, Drottinn, mynd þeirra, er þú ríst á fætur.
14 Viska kvennanna reisir húsið, en fíflskan rífur það niður með höndum sínum.
2 Sá sem framgengur í hreinskilni sinni, óttast Drottin, en sá sem fer krókaleiðir, fyrirlítur hann.
3 Í munni afglapans er vöndur á hroka hans, en varir hinna vitru varðveita þá.
4 Þar sem engin naut eru, þar er jatan tóm, en fyrir kraft uxans fæst mikill ágóði.
5 Sannorður vottur lýgur ekki, en falsvottur fer með lygar.
6 Spottarinn leitar visku, en finnur ekki, en hyggnum manni er þekkingin auðfengin.
7 Gakk þú burt frá heimskum manni, og þú hefir ekki kynnst þekkingar-vörum.
8 Viska hins kæna er í því fólgin, að hann skilur veg sinn, en fíflska heimskingjanna er svik.
9 Afglaparnir gjöra gys að sektarfórnum, en meðal hreinskilinna er velþóknun.
14 Þegar þeir komu til fólksins, gekk til hans maður, féll á kné fyrir honum
15 og sagði: "Herra, miskunna þú syni mínum. Hann er tunglsjúkur og illa haldinn. Oft fellur hann á eld og oft í vatn.
16 Ég fór með hann til lærisveina þinna, en þeir gátu ekki læknað hann."
17 Jesús svaraði: "Ó, þú vantrúa og rangsnúna kynslóð, hversu lengi á ég að vera hjá yður? Hversu lengi á ég að umbera yður? Færið hann hingað til mín."
18 Og Jesús hastaði á hann og illi andinn fór úr honum. Og sveinninn varð heill frá þeirri stundu.
19 Þá komu lærisveinarnir til Jesú og spurðu hann einslega: "Hvers vegna gátum vér ekki rekið hann út?"
20 Hann svaraði þeim: "Vegna þess að yður skortir trú. Sannlega segi ég yður: Ef þér hafið trú eins og mustarðskorn, getið þér sagt við fjall þetta: Flyt þig héðan og þangað, og það mun flytja sig. Ekkert verður yður um megn. [
21 En þetta kyn verður eigi út rekið nema með bæn og föstu.]"
by Icelandic Bible Society