Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 73:1-20

73 Asafs-sálmur. Vissulega er Guð góður við Ísrael, við þá sem hjartahreinir eru.

Nærri lá, að fætur mínir hrösuðu, lítið vantaði á, að ég skriðnaði í skrefi,

því að ég fylltist gremju út af hinum hrokafullu, þegar ég sá gengi hinna guðlausu.

Þeir hafa engar hörmungar að bera, líkami þeirra er heill og hraustur.

Þeim mætir engin mæða sem öðrum mönnum, og þeir verða eigi fyrir neinum áföllum eins og aðrir menn.

Fyrir því er hrokinn hálsfesti þeirra, þeir eru sveipaðir ofríki eins og yfirhöfn.

Frá mörhjarta kemur misgjörð þeirra, girndir þeirra ganga fram úr öllu hófi.

Þeir spotta og tala af illsku, mæla kúgunarorð í mikilmennsku sinni.

Með munni sínum snerta þeir himininn, en tunga þeirra er tíðförul um jörðina.

10 Fyrir því aðhyllist lýðurinn þá og teygar gnóttir vatns.

11 Þeir segja: "Hvernig ætti Guð að vita og Hinn hæsti að hafa nokkra þekkingu?"

12 Sjá, þessir menn eru guðlausir, og þó lifa þeir ætíð áhyggjulausir og auka efni sín.

13 Vissulega hefi ég til ónýtis haldið hjarta mínu hreinu og þvegið hendur mínar í sakleysi,

14 ég þjáist allan daginn, og á hverjum morgni bíður mín hirting.

15 Ef ég hefði haft í hyggju að tala þannig, sjá, þá hefði ég brugðið trúnaði við kyn barna þinna.

16 En ég hugsaði um, hvernig ég ætti að skilja það, það var erfitt í augum mínum,

17 uns ég kom inn í helgidóma Guðs og skildi afdrif þeirra:

18 Vissulega setur þú þá á sleipa jörð, þú lætur þá falla í rústir.

19 Sviplega verða þeir að auðn, líða undir lok, tortímdir af skelfingum.

20 Eins og draum er maður vaknar, þannig fyrirlítur þú, Drottinn, mynd þeirra, er þú ríst á fætur.

Orðskviðirnir 11

11 Svikavog er Drottni andstyggð, en full vog yndi hans.

Komi hroki, kemur smán, en hjá lítillátum er viska.

Ráðvendni hreinskilinna leiðir þá, en undirferli svikulla tortímir þeim.

Auðæfi stoða ekki á degi reiðinnar, en réttlæti frelsar frá dauða.

Réttlæti hins ráðvanda gjörir veg hans sléttan, en hinn óguðlegi fellur um guðleysi sitt.

Réttlæti hinna hreinskilnu frelsar þá, en hinir svikulu ánetjast í eigin græðgi.

Þegar óguðlegur maður deyr, verður von hans að engu, og eftirvænting glæpamannanna er að engu orðin.

Hinn réttláti frelsast úr nauðum, og hinn óguðlegi kemur í hans stað.

Með munninum steypir hinn guðlausi náunga sínum í glötun, en hinir réttlátu frelsast fyrir þekkingu.

10 Borgin fagnar yfir gæfu réttlátra, og þegar óguðlegir farast, gjalla gleðiópin.

11 Borgin hefst fyrir blessun hreinskilinna, en fyrir munn óguðlegra steypist hún.

12 Óvitur maður sýnir náunga sínum fyrirlitningu, en hygginn maður þegir.

13 Sá er gengur um sem rógberi, lýstur upp leyndarmálum, en sá sem er staðfastur í lund, leynir sökinni.

14 Þar sem engin stjórn er, þar fellur þjóðin, en þar sem margir ráðgjafar eru, fer allt vel.

15 Hrapallega fer fyrir þeim, er gengur í ábyrgð fyrir annan mann, en sá sem hatar handsöl, er óhultur.

16 Yndisleg kona hlýtur sæmd, og hinir sterku hljóta auðæfi.

17 Kærleiksríkur maður gjörir sálu sinni gott, en hinn grimmi kvelur sitt eigið hold.

18 Hinn óguðlegi aflar sér svikuls ávinnings, en sá er réttlæti sáir, sannra launa.

19 Iðki einhver réttlæti, þá leiðir það til lífs, en ef hann eltir hið illa, leiðir það hann til dauða.

20 Andstyggð fyrir Drottni eru þeir, sem hafa rangsnúið hjarta, en yndi hans þeir, er breyta ráðvandlega.

21 Hér er höndin upp á það: Hinn vondi sleppur ekki óhegndur! en niðjar réttlátra komast undan.

22 Eins og gullhringur í svínstrýni, svo er fríð kona, sem enga siðprýði kann.

23 Óskir hinna réttlátu leiða aðeins til góðs, en vonir óguðlegra leiða yfir sig reiðidóm.

24 Sumir miðla öðrum mildilega, og eignast æ meira, aðrir halda í meira en rétt er, og verða þó fátækari.

25 Velgjörðasöm sál mettast ríkulega, og sá sem gefur öðrum að drekka, mun og sjálfur drykk hljóta.

26 Fólkið formælir þeim, sem heldur í kornið, en blessun kemur yfir höfuð þess, er selur það.

27 Sá sem leitar góðs, stundar það, sem velþóknanlegt er, en sá sem sækist eftir illu, verður fyrir því.

28 Sá sem treystir á auð sinn, hann fellur, en hinir réttlátu munu grænka eins og laufið.

29 Sá sem kemur ólagi á heimilishag sinn, erfir vind, og afglapinn verður þjónn hins vitra.

30 Ávöxtur hins réttláta er lífstré, og hinn vitri hyllir að sér hjörtun.

31 Sjá, hinn réttláti fær endurgjald hér á jörðu, hvað þá hinn óguðlegi og syndarinn?

Bréfið til Hebrea 12:3-13

Virðið hann fyrir yður, sem þolað hefur slíkan fjandskap gegn sér af syndurum, til þess að þér þreytist ekki og látið hugfallast.

Í baráttu yðar við syndina hafið þér ekki enn þá staðið í gegn, svo að blóð hafi runnið.

Og þér hafið gleymt áminningunni, sem ávarpar yður eins og syni: Sonur minn, lítilsvirð ekki hirtingu Drottins, og lát ekki heldur hugfallast er hann tyftar þig.

Því að Drottinn agar þann, sem hann elskar, og hirtir harðlega hvern þann son, er hann að sér tekur.

Þolið aga. Guð fer með yður eins og syni. Hver er sá sonur, sem faðirinn ekki agar?

En séuð þér án aga, sem allir hafa fyrir orðið, þá eruð þér þrælbornir og ekki synir.

Enn er það, að vér bjuggum við aga jarðneskra feðra og bárum virðingu fyrir þeim. Skyldum vér þá ekki miklu fremur vera undirgefnir föður andanna og lifa?

10 Feður vorir öguðu oss um fáa daga, eftir því sem þeim leist, en oss til gagns agar hann oss, svo að vér fáum hlutdeild í heilagleika hans.

11 Í bili virðist allur agi að vísu ekki vera gleðiefni, heldur hryggðar, en eftir á gefur hann þeim, er við hann hafa tamist, ávöxt friðar og réttlætis.

12 Réttið því úr máttvana höndum og magnþrota knjám.

13 Látið fætur yðar feta beinar brautir, til þess að hið fatlaða vindist ekki úr liði, en verði heilt.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society