Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
73 Asafs-sálmur. Vissulega er Guð góður við Ísrael, við þá sem hjartahreinir eru.
2 Nærri lá, að fætur mínir hrösuðu, lítið vantaði á, að ég skriðnaði í skrefi,
3 því að ég fylltist gremju út af hinum hrokafullu, þegar ég sá gengi hinna guðlausu.
4 Þeir hafa engar hörmungar að bera, líkami þeirra er heill og hraustur.
5 Þeim mætir engin mæða sem öðrum mönnum, og þeir verða eigi fyrir neinum áföllum eins og aðrir menn.
6 Fyrir því er hrokinn hálsfesti þeirra, þeir eru sveipaðir ofríki eins og yfirhöfn.
7 Frá mörhjarta kemur misgjörð þeirra, girndir þeirra ganga fram úr öllu hófi.
8 Þeir spotta og tala af illsku, mæla kúgunarorð í mikilmennsku sinni.
9 Með munni sínum snerta þeir himininn, en tunga þeirra er tíðförul um jörðina.
10 Fyrir því aðhyllist lýðurinn þá og teygar gnóttir vatns.
11 Þeir segja: "Hvernig ætti Guð að vita og Hinn hæsti að hafa nokkra þekkingu?"
12 Sjá, þessir menn eru guðlausir, og þó lifa þeir ætíð áhyggjulausir og auka efni sín.
13 Vissulega hefi ég til ónýtis haldið hjarta mínu hreinu og þvegið hendur mínar í sakleysi,
14 ég þjáist allan daginn, og á hverjum morgni bíður mín hirting.
15 Ef ég hefði haft í hyggju að tala þannig, sjá, þá hefði ég brugðið trúnaði við kyn barna þinna.
16 En ég hugsaði um, hvernig ég ætti að skilja það, það var erfitt í augum mínum,
17 uns ég kom inn í helgidóma Guðs og skildi afdrif þeirra:
18 Vissulega setur þú þá á sleipa jörð, þú lætur þá falla í rústir.
19 Sviplega verða þeir að auðn, líða undir lok, tortímdir af skelfingum.
20 Eins og draum er maður vaknar, þannig fyrirlítur þú, Drottinn, mynd þeirra, er þú ríst á fætur.
32 Og nú, þér yngismenn, hlýðið mér, því að sælir eru þeir, sem varðveita vegu mína.
33 Hlýðið á aga, svo að þér verðið vitrir, og látið hann eigi sem vind um eyrun þjóta.
34 Sæll er sá maður, sem hlýðir mér, sem vakir daglega við dyr mínar og geymir dyrastafa minna.
35 Því að sá sem mig finnur, finnur lífið og hlýtur blessun af Drottni.
36 En sá sem missir mín, skaðar sjálfan sig. Allir þeir, sem hata mig, elska dauðann.
9 Spekin hefir reist sér hús, höggvið til sjö stólpa sína.
2 Hún hefir slátrað sláturfé sínu, byrlað vín sitt, já, hún hefir þegar búið borð sitt.
3 Hún hefir sent út þernur sínar, hún kallar á háum stöðum í borginni:
4 "Hver, sem óreyndur er, komi hingað!" Við þann, sem óvitur er, segir hún:
5 "Komið, etið mat minn og drekkið vínið, sem ég hefi byrlað.
6 Látið af heimskunni, þá munuð þér lifa, og fetið veg hyggindanna."
29 Fyrir trú gengu þeir gegnum Rauðahafið sem um þurrt land, og er Egyptar freistuðu þess, drukknuðu þeir.
30 Fyrir trú hrundu múrar Jeríkóborgar, er menn höfðu gengið í kringum þá í sjö daga.
31 Fyrir trú var það, að skækjan Rahab fórst ekki ásamt hinum óhlýðnu, þar sem hún hafði tekið vinsamlega móti njósnarmönnunum.
32 Hvað á ég að orðlengja framar um þetta? Mig mundi skorta tíma, ef ég færi að segja frá Gídeon, Barak, Samson og Jefta, og af Davíð, Samúel og spámönnunum.
33 Fyrir trú unnu þeir sigur á konungsríkjum, iðkuðu réttlæti, öðluðust fyrirheit. Þeir byrgðu gin ljóna,
34 slökktu eldsbál, komust undan sverðseggjum. Þeir urðu styrkir, þótt áður væru þeir veikir, gjörðust öflugir í stríði og stökktu fylkingum óvina á flótta.
35 Konur heimtu aftur sína framliðnu upprisna. Aðrir voru pyndaðir og þágu ekki lausn til þess að þeir öðluðust betri upprisu.
36 Aðrir urðu að sæta háðsyrðum og húðstrokum og þar á ofan fjötrum og fangelsi.
37 Þeir voru grýttir, sagaðir í sundur, höggnir með sverði. Þeir ráfuðu í gærum og geitskinnum, alls vana, aðþrengdir og illa haldnir.
38 Og ekki átti heimurinn slíka menn skilið. Þeir reikuðu um óbyggðir og fjöll og héldust við í hellum og gjótum.
39 En þó að allir þessir menn fengju góðan vitnisburð fyrir trú sína, hlutu þeir þó eigi fyrirheitið.
40 Guð hafði séð oss fyrir því sem betra var: Án vor skyldu þeir ekki fullkomnir verða.
12 Fyrst vér erum umkringdir slíkum fjölda votta, léttum þá af oss allri byrði og viðloðandi synd og þreytum þolgóðir skeið það, sem vér eigum framundan.
2 Beinum sjónum vorum til Jesú, höfundar og fullkomnara trúarinnar. Vegna gleði þeirrar, er beið hans, leið hann þolinmóðlega á krossi, mat smán einskis og hefur nú setst til hægri handar hásæti Guðs.
by Icelandic Bible Society