Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Orðskviðirnir 22:1-2

22 Gott mannorð er dýrmætara en mikill auður, vinsæld er betri en silfur og gull.

Ríkur og fátækur hittast, Drottinn skóp þá alla saman.

Orðskviðirnir 22:8-9

Sá sem ranglæti sáir, uppsker óhamingju, og sproti heiftar hans verður að engu.

Sá sem er góðgjarn, verður blessaður, því að hann gefur hinum fátæka af brauði sínu.

Orðskviðirnir 22:22-23

22 Ræn eigi hinn lítilmótlega, af því að hann er lítilmótlegur, og knosa eigi hinn volaða í borgarhliðinu,

23 því að Drottinn mun flytja mál þeirra og ræna þá lífinu, er þá ræna.

Sálmarnir 125

125 Þeir sem treysta Drottni eru sem Síonfjall, er eigi bifast, sem stendur að eilífu.

Fjöll eru kringum Jerúsalem, og Drottinn er kringum lýð sinn héðan í frá og að eilífu.

Því að veldissproti guðleysisins mun eigi hvíla á landi réttlátra, til þess að hinir réttlátu skuli eigi rétta fram hendur sínar til ranglætis.

Gjör þú góðum vel til, Drottinn, og þeim sem hjartahreinir eru.

En þá er beygja á krókóttar leiðir mun Drottinn láta hverfa með illgjörðamönnum. Friður sé yfir Ísrael!

Hið almenna bréf Jakobs 2:1-10

Bræður mínir, farið ekki í manngreinarálit, þér sem trúið á dýrðardrottin vorn Jesú Krist.

Nú kemur maður inn í samkundu yðar með gullhring á hendi og í skartlegum klæðum, og jafnframt kemur inn fátækur maður í óhreinum fötum,

ef öll athygli yðar beinist að þeim, sem skartklæðin ber, og þér segið: "Settu þig hérna í gott sæti!" en segið við fátæka manninn: "Stattu þarna, eða settu þig á gólfið við fótskör mína!"

hafið þér þá ekki mismunað mönnum og orðið dómarar með vondum hugsunum?

Heyrið, bræður mínir elskaðir! Hefur Guð ekki útvalið þá, sem fátækir eru í augum heimsins, til þess að þeir verði auðugir í trú og erfingjar þess ríkis, er hann hefur heitið þeim, sem elska hann?

En þér hafið óvirt hinn fátæka. Eru það þó ekki hinir ríku, sem undiroka yður og draga yður fyrir dómstóla?

Eru það ekki þeir, sem lastmæla hinu góða nafni, sem nefnt var yfir yður?

Ef þér uppfyllið hið konunglega boðorð Ritningarinnar: "Þú skalt elska náunga þinn sem sjálfan þig", þá gjörið þér vel.

En ef þér farið í manngreinarálit, þá drýgið þér synd og lögmálið sannar upp á yður að þér séuð brotamenn.

10 Þótt einhver héldi allt lögmálið, en hrasaði í einu atriði, þá er hann orðinn sekur við öll boðorð þess.

Hið almenna bréf Jakobs 2:11-13

11 Því sá sem sagði: "Þú skalt ekki hórdóm drýgja", hann sagði líka: "Þú skalt ekki morð fremja." En þó að þú drýgir ekki hór, en fremur morð, þá ertu búinn að brjóta lögmálið.

12 Talið því og breytið eins og þeir, er dæmast eiga eftir lögmáli frelsisins.

13 Því að dómurinn verður miskunnarlaus þeim, sem ekki auðsýndi miskunn, en miskunnsemin gengur sigri hrósandi að dómi.

Hið almenna bréf Jakobs 2:14-17

14 Hvað stoðar það, bræður mínir, þótt einhver segist hafa trú, en hefur eigi verk? Mun trúin geta frelsað hann?

15 Ef bróðir eða systir eru nakin og vantar daglegt viðurværi

16 og einhver yðar segði við þau: "Farið í friði, vermið yður og mettið!" en þér gefið þeim ekki það, sem líkaminn þarfnast, hvað stoðar það?

17 Eins er líka trúin dauð í sjálfri sér, vanti hana verkin.

Markúsarguðspjall 7:24-37

24 Hann tók sig upp þaðan og hélt til byggða Týrusar. Þar fór hann inn í hús og vildi engan láta vita. En eigi fékk hann dulist.

25 Kona ein frétti þegar af honum og kom og féll honum til fóta, en dóttir hennar hafði óhreinan anda.

26 Konan var heiðin, ættuð úr Fönikíu sýrlensku. Hún bað hann að reka illa andann út af dóttur sinni.

27 Hann sagði við hana: "Lofaðu börnunum að seðjast fyrst, ekki sæmir að taka brauð barnanna og kasta því fyrir hundana."

28 Hún svaraði honum: "Satt er það, herra, þó eta hundarnir undir borðinu af molum barnanna."

29 Og hann sagði við hana: "Vegna þessara orða skaltu heim snúa, illi andinn er farinn úr dóttur þinni."

30 Hún fór heim, fann barnið liggjandi á rúminu, og illi andinn var farinn.

31 Síðan hélt hann úr Týrusarbyggðum, um Sídon og yfir Dekapólisbyggðir miðjar til Galíleuvatns.

32 Þá færa þeir til hans mann, daufan og málhaltan, og biðja hann að leggja hönd sína yfir hann.

33 Jesús leiddi hann afsíðis frá fólkinu, stakk fingrum sínum í eyru honum og vætti tungu hans með munnvatni sínu.

34 Þá leit hann upp til himins, andvarpaði og sagði við hann: "Effaþa," það er: Opnist þú.

35 Og eyru hans opnuðust, og haft tungu hans losnaði, og hann talaði skýrt.

36 Jesús bannaði þeim að segja þetta neinum, en svo mjög sem hann bannaði þeim, því frekar sögðu þeir frá því.

37 Menn undruðust næsta mjög og sögðu: "Allt gjörir hann vel, daufa lætur hann heyra og mállausa mæla."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society