Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
125 Þeir sem treysta Drottni eru sem Síonfjall, er eigi bifast, sem stendur að eilífu.
2 Fjöll eru kringum Jerúsalem, og Drottinn er kringum lýð sinn héðan í frá og að eilífu.
3 Því að veldissproti guðleysisins mun eigi hvíla á landi réttlátra, til þess að hinir réttlátu skuli eigi rétta fram hendur sínar til ranglætis.
4 Gjör þú góðum vel til, Drottinn, og þeim sem hjartahreinir eru.
5 En þá er beygja á krókóttar leiðir mun Drottinn láta hverfa með illgjörðamönnum. Friður sé yfir Ísrael!
8 Heyr, spekin kallar og hyggnin lætur raust sína gjalla.
2 Uppi á hæðunum við veginn, þar sem göturnar kvíslast _ stendur hún.
3 Við hliðin, þar sem gengið er út úr borginni, þar sem gengið er inn um dyrnar, kallar hún hátt:
4 Til yðar, menn, tala ég, og raust mín hljómar til mannanna barna.
5 Þér óreyndu, lærið hyggindi, og þér heimskingjar, lærið skynsemi.
6 Hlýðið á, því að ég tala það sem göfuglegt er, og varir mínar tjá það sem rétt er.
7 Því að sannleika mælir gómur minn og guðleysi er viðbjóður vörum mínum.
8 Einlæg eru öll orð munns míns, í þeim er ekkert fals né fláræði.
9 Öll eru þau einföld þeim sem skilning hefir, og blátt áfram fyrir þann sem hlotið hefir þekkingu.
10 Takið á móti ögun minni fremur en á móti silfri og fræðslu fremur en úrvals gulli.
11 Því að viska er betri en perlur, og engir dýrgripir jafnast á við hana.
12 Ég, spekin, er handgengin hyggindunum og ræð yfir ráðdeildarsamri þekking.
13 Að óttast Drottin er að hata hið illa, drambsemi og ofdramb og illa breytni og fláráðan munn _ það hata ég.
14 Mín er ráðspekin og framkvæmdarsemin, ég er hyggnin, minn er krafturinn.
15 Fyrir mína hjálp ríkja konungarnir og úrskurða höfðingjarnir réttvíslega.
16 Fyrir mína hjálp stjórna stjórnendurnir og tignarmennin _ allir valdsmenn á jörðu.
17 Ég elska þá sem mig elska, og þeir sem leita mín, finna mig.
18 Auður og heiður eru hjá mér, ævagamlir fjármunir og réttlæti.
19 Ávöxtur minn er betri en gull og gimsteinar og eftirtekjan eftir mig betri en úrvals silfur.
20 Ég geng á götu réttlætisins, á stigum réttarins miðjum,
21 til þess að gefa þeim sanna auðlegð, er elska mig, og fylla forðabúr þeirra.
22 Drottinn skóp mig í upphafi vega sinna, á undan öðrum verkum sínum, fyrir alda öðli.
23 Frá eilífð var ég sett til valda, frá upphafi, áður en jörðin var til.
24 Ég fæddist áður en hafdjúpin urðu til, þá er engar vatnsmiklar lindir voru til.
25 Áður en fjöllunum var hleypt niður, á undan hæðunum fæddist ég,
26 áður en hann skapaði völl og vengi og fyrstu moldarkekki jarðríkis.
27 Þegar hann gjörði himininn, þá var ég þar, þegar hann setti hvelfinguna yfir hafdjúpið,
28 þegar hann festi skýin uppi, þegar uppsprettur hafdjúpsins komust í skorður,
29 þegar hann setti hafinu takmörk, til þess að vötnin færu eigi lengra en hann bauð, þegar hann festi undirstöður jarðar.
30 Þá stóð ég honum við hlið sem verkstýra, og ég var yndi hans dag hvern, leikandi mér fyrir augliti hans alla tíma,
31 leikandi mér á jarðarkringlu hans, og hafði yndi mitt af mannanna börnum.
21 Þaðan hélt Jesús til byggða Týrusar og Sídonar.
22 Þá kom kona nokkur kanversk úr þeim héruðum og kallaði: "Miskunna þú mér, herra, sonur Davíðs! Dóttir mín er mjög kvalin af illum anda."
23 En hann svaraði henni engu orði. Lærisveinar hans komu þá og báðu hann: "Láttu hana fara, hún eltir oss með hrópum."
24 Hann mælti: "Ég er ekki sendur nema til týndra sauða af Ísraelsætt."
25 Konan kom, laut honum og sagði: "Herra, hjálpa þú mér!"
26 Hann svaraði: "Ekki sæmir að taka brauð barnanna og kasta því fyrir hundana."
27 Hún sagði: "Satt er það, herra, þó eta hundarnir mola þá, sem falla af borðum húsbænda þeirra."
28 Þá mælti Jesús við hana: "Kona, mikil er trú þín. Verði þér sem þú vilt." Og dóttir hennar varð heil frá þeirri stundu.
29 Þaðan fór Jesús og kom að Galíleuvatni. Og hann gekk upp á fjall og settist þar.
30 Menn komu til hans hópum saman og höfðu með sér halta menn og blinda, fatlaða, mállausa og marga aðra og lögðu þá fyrir fætur hans, og hann læknaði þá.
31 Fólkið undraðist, þegar það sá mállausa mæla, fatlaða heila, halta ganga og blinda sjá. Og þeir lofuðu Guð Ísraels.
by Icelandic Bible Society