Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 144:9-15

Guð, ég vil syngja þér nýjan söng, ég vil leika fyrir þér á tístrengjaða hörpu.

10 Þú veitir konungunum sigur, hrífur Davíð þjón þinn undan hinu illa sverði.

11 Hríf mig burt og bjarga mér af hendi útlendinganna. Munnur þeirra mælir tál, og hægri hönd þeirra er lyginnar hönd.

12 Synir vorir eru sem þroskaðir teinungar í æsku sinni, dætur vorar sem hornsúlur, úthöggnar í hallarstíl.

13 Hlöður vorar eru fullar og veita afurðir af hverri tegund, fénaður vor getur af sér þúsundir, verður tíþúsundfaldur á haglendum vorum,

14 uxar vorir klyfjaðir, ekkert skarð og engir hernumdir og ekkert óp á torgum vorum.

15 Sæl er sú þjóð, sem svo er ástatt fyrir, sæl er sú þjóð, sem á Drottin að Guði.

Ljóðaljóðin 5:2-6:3

Ég sef, en hjarta mitt vakir, heyr, unnusti minn drepur á dyr! "Ljúk upp fyrir mér, systir mín, vina mín, dúfan mín, ljúfan mín! Því að höfuð mitt er alvott af dögg, hárlokkar mínir af dropum næturinnar."

"Ég er komin úr kyrtlinum, hvernig ætti ég að fara í hann aftur? Ég hefi laugað fæturna, hvernig ætti ég að óhreinka þá aftur?"

Unnusti minn rétti höndina inn um gluggann, og hjarta mitt svall honum á móti.

Ég reis á fætur til þess að ljúka upp fyrir unnusta mínum, og myrra draup af höndum mínum og fljótandi myrra af fingrum mínum á handfang slárinnar.

Ég lauk upp fyrir unnusta mínum, en unnusti minn var farinn, horfinn. Ég stóð á öndinni meðan hann talaði. Ég leitaði hans, en fann hann ekki, ég kallaði á hann, en hann svaraði ekki.

Verðirnir sem ganga um borgina, hittu mig, þeir slógu mig, þeir særðu mig, verðir múranna sviptu slæðunum af mér.

Ég særi yður, Jerúsalemdætur: Þegar þér finnið unnusta minn, hvað ætlið þér þá að segja honum? Að ég sé sjúk af ást!

Hvað hefir unnusti þinn fram yfir aðra unnusta, þú hin fegursta meðal kvenna? Hvað hefir unnusti þinn fram yfir aðra unnusta, úr því þú særir oss svo?

10 Unnusti minn er mjallahvítur og rauður, hann ber af tíu þúsundum.

11 Höfuð hans er skíragull, hinir hrynjandi hárlokkar hans hrafnsvartir,

12 augu hans eins og dúfur við vatnslæki, baðandi sig í mjólk, sett í umgjörð,

13 kinnar hans eins og balsambeð, er í vaxa kryddjurtir. Varir hans eru liljur, drjúpandi af fljótandi myrru.

14 Hendur hans eru gullkefli, sett krýsolítsteinum, kviður hans listaverk af fílabeini, lagt safírum.

15 Fótleggir hans eru marmarasúlur, sem hvíla á undirstöðum úr skíragulli, ásýndar er hann sem Líbanon, frábær eins og sedrustré.

16 Gómur hans er sætleikur, og allur er hann yndislegur. Þetta er unnusti minn og þetta er vinur minn, þér Jerúsalemdætur.

Hvert er unnusti þinn genginn, þú hin fegursta meðal kvenna? Hvert hefir unnusti þinn farið, að vér megum leita hans með þér?

Unnusti minn gekk ofan í garð sinn, að balsambeðunum, til þess að skemmta sér í görðunum og til að tína liljur.

Ég heyri unnusta mínum, og unnusti minn heyrir mér, hann sem skemmtir sér meðal liljanna.

Fyrra almenna bréf Péturs 2:19-25

19 Ef einhver þolir móðganir og líður saklaus vegna meðvitundar um Guð, þá er það þakkar vert.

20 Því að hvaða verðleiki er það, að þér sýnið þolgæði, er þér verðið fyrir höggum vegna misgjörða? En ef þér sýnið þolgæði, er þér líðið illt, þótt þér hafið breytt vel, það aflar velþóknunar hjá Guði.

21 Til þessa eruð þér kallaðir. Því að Kristur leið einnig fyrir yður og lét yður eftir fyrirmynd, til þess að þér skylduð feta í hans fótspor.

22 "Hann drýgði ekki synd, og svik voru ekki fundin í munni hans."

23 Hann illmælti eigi aftur, er honum var illmælt, og hótaði eigi, er hann leið, heldur gaf það í hans vald, sem réttvíslega dæmir.

24 Hann bar sjálfur syndir vorar á líkama sínum upp á tréð, til þess að vér skyldum deyja frá syndunum og lifa réttlætinu. Fyrir hans benjar eruð þér læknaðir.

25 Þér voruð sem villuráfandi sauðir, en nú hafið þér snúið yður til hans, sem er hirðir og biskup sálna yðar.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society