Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 11

11 Til söngstjórans. Davíðssálmur. Hjá Drottni leita ég hælis. Hvernig getið þér sagt við mig: "Fljúg sem fugl til fjallanna!"

Því að nú benda hinir óguðlegu bogann, leggja örvar sínar á streng til þess að skjóta í myrkrinu á hina hjartahreinu.

Þegar stoðirnar eru rifnar niður, hvað megna þá hinir réttlátu?

Drottinn er í sínu heilaga musteri, hásæti Drottins er á himnum, augu hans sjá, sjónir hans rannsaka mennina.

Drottinn rannsakar hinn réttláta og hinn óguðlega, og þann er elskar ofríki, hatar hann.

Á óguðlega lætur hann rigna glóandi kolum, eldur og brennisteinn og brennheitur vindur er þeirra mældi bikar.

Því að Drottinn er réttlátur og hefir mætur á réttlætisverkum. Hinir hreinskilnu fá að líta auglit hans.

Fyrri bók konunganna 6:15-38

15 Salómon þiljaði musterisveggina að innan með sedrusviði. Frá gólfi hússins upp að loftbjálkum þiljaði hann það að innan með viði og lagði gólf í húsið úr kýpresviðarborðum.

16 Og hann þiljaði tuttugu álnir aftan af húsinu neðan frá gólfi og upp undir bjálka með sedrusviði. Gjörði hann þannig úr því að innan innhús, það er Hið allrahelgasta.

17 Húsið var fjörutíu álnir, það er aðalhúsið fyrir framan innhúsið.

18 Innan á musterinu var sedrusviður, útskorinn með hnöppum og blómstrum. Var það allt af sedrusviði, og sá hvergi í stein.

19 Hann bjó út innhús, Hið allrahelgasta, inni í musterinu, til þess að þangað mætti flytja sáttmálsörk Drottins.

20 Og fyrir framan innhúsið _ en það var tuttugu álnir á lengd, tuttugu álnir á breidd og tuttugu álnir á hæð, og hann lagði það skíru gulli _ gjörði hann altari af sedrusviði.

21 Salómon lagði musterið með skíru gulli að innan, og dró gullfestar fyrir kórinn og lagði hann gulli.

22 Og allt húsið lagði hann gulli _ algjörlega allt húsið. Einnig lagði hann gulli allt altarið, sem tilheyrði innhúsinu.

23 Hann gjörði í innhúsinu tvo kerúba af olíuviði, tíu álna háa.

24 Hvor vængur annars kerúbsins var fimm álnir, og hvor vængur hins kerúbsins fimm álnir, svo að tíu álnir voru frá enda annars vængsins til enda hins vængsins.

25 Báðir kerúbarnir voru tíu álnir, báðir voru þeir jafnstórir og eins að gerð.

26 Annar kerúbinn var tíu álnir á hæð, svo og hinn kerúbinn.

27 Og hann setti kerúbana upp inni í Hinu allrahelgasta, og breiddu þeir út vængina, svo að annar vængur annars nam við vegginn og hinn vængur hins kerúbsins nam við hinn vegginn, en í miðju húsinu námu vængir þeirra hvor við annan.

28 Og hann lagði kerúbana gulli.

29 Hann lét skera út á veggina hringinn í kring kerúba, pálma og blómfléttur, inni og fyrir utan.

30 Gólf hússins lagði hann og gulli, inni og fyrir utan.

31 Fyrir dyr innhússins lét hann gjöra vængjahurð úr olíuviði. Umgjörðin yfir dyrunum og dyrastafirnir mynduðu fimmhyrning.

32 Á báðar vængjahurðirnar, sem voru úr olíuviði, lét hann skera kerúba, pálma og blómfléttur og leggja gulli, en kerúbana og pálmana lagði hann slegnu gulli.

33 Og fyrir dyr aðalhússins lét hann sömuleiðis gjöra ferstrenda dyrastafi af olíuviði

34 og tvær vængjahurðir af kýpresviði. Var hvor vængurinn um sig gjörður af tveimur hlerum, er léku á hjörum.

35 Og hann lét skera kerúba, pálma og blómfléttur á þá og lagði það gulli, sem út var skorið.

36 Hann gjörði vegginn um innri forgarðinn úr þrem lögum af höggnum steini og einu lagi af sedrusbjálkum.

37 Á fjórða ári var grundvöllurinn lagður að húsi Drottins, í sívmánuði.

38 Og á ellefta ári, í búlmánuði _ það er áttunda mánuðinum _ var húsið fullgjört í öllum greinum, með öllu sem því tilheyrði. Í sjö ár var hann að byggja það.

Jóhannesarguðspjall 15:16-25

16 Þér hafið ekki útvalið mig, heldur hef ég útvalið yður. Ég hef ákvarðað yður til að fara og bera ávöxt, ávöxt, sem varir, svo að faðirinn veiti yður sérhvað það sem þér biðjið hann um í mínu nafni.

17 Þetta býð ég yður, að þér elskið hver annan.

18 Ef heimurinn hatar yður, þá vitið, að hann hefur hatað mig fyrr en yður.

19 Væruð þér af heiminum, mundi heimurinn elska sitt eigið. Heimurinn hatar yður af því að þér eruð ekki af heiminum, heldur hef ég útvalið yður úr heiminum.

20 Minnist orðanna, sem ég sagði við yður: Þjónn er ekki meiri en herra hans. Hafi þeir ofsótt mig, þá munu þeir líka ofsækja yður. Hafi þeir varðveitt orð mitt, munu þeir líka varðveita yðar.

21 En allt þetta munu þeir yður gjöra vegna nafns míns, af því að þeir þekkja eigi þann, sem sendi mig.

22 Hefði ég ekki komið og talað til þeirra, væru þeir ekki sekir um synd. En nú hafa þeir ekkert til afsökunar synd sinni.

23 Sá sem hatar mig, hatar og föður minn.

24 Hefði ég ekki unnið meðal þeirra þau verk, sem enginn annar hefur gjört, væru þeir ekki sekir um synd. En nú hafa þeir séð þau og hata þó bæði mig og föður minn.

25 Svo hlaut að rætast orðið, sem ritað er í lögmáli þeirra: ,Þeir hötuðu mig án saka.`

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society