Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
8 Þá safnaði Salómon saman öldungum Ísraels og öllum foringjum kynþáttanna, ætthöfðingjum Ísraelsmanna, til sín í Jerúsalem til þess að flytja sáttmálsörk Drottins upp eftir frá Davíðsborg, það er Síon.
6 Og prestarnir fluttu sáttmálsörk Drottins á sinn stað, í innhús musterisins, inn í Hið allrahelgasta, inn undir vængi kerúbanna.
10 En er prestarnir gengu út úr helgidóminum, fyllti ský hús Drottins,
11 og máttu prestarnir eigi inn ganga fyrir skýinu til þess að gegna þjónustu, því að dýrð Drottins fyllti hús Drottins.
22 Og Salómon gekk fyrir altari Drottins í viðurvist alls Ísraelssafnaðar, fórnaði höndum til himins
23 og mælti: "Drottinn, Guð Ísraels, enginn guð er sem þú á himnum uppi eða á jörðu niðri, þú sem heldur sáttmálann og miskunnsemina við þjóna þína, þá er ganga fyrir augliti þínu af öllu hjarta sínu,
24 þú sem hefir haldið það við þjón þinn, Davíð föður minn, er þú hést honum. Þú talaðir það með munni þínum og efndir það með hendi þinni, eins og nú er fram komið.
25 Efn nú, Drottinn, Ísraels Guð, við þjón þinn Davíð föður minn, það er þú hést honum, þá er þú sagðir: ,Eigi skal þig vanta eftirmann frammi fyrir mér, er sitji í hásæti Ísraels, ef synir þínir aðeins varðveita vegu mína með því að ganga fyrir augliti mínu, eins og þú hefir gengið fyrir augliti mínu.`
26 Lát nú, Ísraels Guð, rætast orð þín, þau er þú talaðir við þjón þinn, Davíð föður minn.
27 En mun Guð í sannleika búa á jörðu? Sjá, himinninn og himnanna himnar taka þig ekki, hve miklu síður þá þetta hús, sem ég hefi reist.
28 En snú þér, Drottinn Guð minn, að bæn þjóns þíns og grátbeiðni hans, að þú heyrir ákall það og bæn, er þjónn þinn ber fram fyrir þig í dag:
29 að augu þín séu opin yfir þessu húsi dag og nótt, yfir þeim stað, er þú hefir um sagt: ,Þar skal nafn mitt búa` _ að þú heyrir bæn þá, er þjónn þinn biður á þessum stað.
30 Og heyr þú grátbeiðni þjóns þíns og lýðs þíns Ísraels, er þeir fram bera á þessum stað, já heyr þú hana þar er þú býr á himnum, og fyrirgef, er þú heyrir.
41 Ef útlendingur, sem eigi er af lýð þínum Ísrael, en kemur úr fjarlægu landi vegna nafns þíns _
42 því að þeir munu heyra getið um þitt mikla nafn, þína sterku hönd og útréttan armlegg þinn _ ef hann kemur hingað og biður frammi fyrir þessu húsi,
43 þá heyr þú það á himnum, aðseturstað þínum, og gjör allt það, sem útlendingurinn biður þig um, til þess að öllum þjóðum jarðarinnar verði kunnugt nafn þitt og þær óttist þig, eins og lýður þinn Ísrael, og til þess að þær megi vita, að hús þetta, sem ég hefi byggt, er kennt við þig.
84 Til söngstjórans. Á gittít. Kóraíta-sálmur.
2 Hversu yndislegir eru bústaðir þínir, Drottinn hersveitanna.
3 Sálu mína langaði til, já, hún þráði forgarða Drottins, nú fagnar hjarta mitt og hold fyrir hinum lifanda Guði.
4 Jafnvel fuglinn hefir fundið hús, og svalan á sér hreiður, þar sem hún leggur unga sína: ölturu þín, Drottinn hersveitanna, konungur minn og Guð minn!
5 Sælir eru þeir, sem búa í húsi þínu, þeir munu ætíð lofa þig. [Sela]
6 Sælir eru þeir menn, sem finna styrk hjá þér, er þeir hugsa til helgigöngu.
7 Er þeir fara gegnum táradalinn, umbreyta þeir honum í vatnsríka vin, og haustregnið færir honum blessun.
8 Þeim eykst æ kraftur á göngunni og fá að líta Guð á Síon.
9 Drottinn, Guð hersveitanna, heyr bæn mína, hlýð til, þú Jakobs Guð. [Sela]
10 Guð, skjöldur vor, sjá og lít á auglit þíns smurða!
11 Því að einn dagur í forgörðum þínum er betri en þúsund aðrir, heldur vil ég standa við þröskuldinn í húsi Guðs míns en dvelja í tjöldum óguðlegra.
12 Því að Drottinn Guð er sól og skjöldur, náð og vegsemd veitir Drottinn. Hann synjar þeim engra gæða, er ganga í grandvarleik.
13 Drottinn hersveitanna, sæll er sá maður, sem treystir þér.
10 Að lokum: Styrkist nú í Drottni og í krafti máttar hans.
11 Klæðist alvæpni Guðs, til þess að þér getið staðist vélabrögð djöfulsins.
12 Því að baráttan, sem vér eigum í, er ekki við menn af holdi og blóði, heldur við tignirnar og völdin, við heimsdrottna þessa myrkurs, við andaverur vonskunnar í himingeimnum.
13 Takið því alvæpni Guðs, til þess að þér getið veitt mótstöðu á hinum vonda degi og haldið velli, þegar þér hafið sigrað allt.
14 Standið því gyrtir sannleika um lendar yðar og klæddir brynju réttlætisins
15 og skóaðir á fótunum með fúsleik til að flytja fagnaðarboðskap friðarins.
16 Takið umfram allt skjöld trúarinnar, sem þér getið slökkt með öll hin eldlegu skeyti hins vonda.
17 Takið við hjálmi hjálpræðisins og sverði andans, sem er Guðs orð.
18 Gjörið það með bæn og beiðni og biðjið á hverri tíð í anda. Verið því árvakrir og staðfastir í bæn fyrir öllum heilögum.
19 Biðjið fyrir mér, að mér verði gefin orð að mæla, þá er ég lýk upp munni mínum, til þess að ég kunngjöri með djörfung leyndardóm fagnaðarerindisins.
20 Þess boðberi er ég í fjötrum mínum. Biðjið, að ég geti flutt það með djörfung, eins og mér ber að tala.
56 Sá sem etur hold mitt og drekkur blóð mitt, er í mér og ég í honum.
57 Eins og hinn lifandi faðir sendi mig og ég lifi fyrir föðurinn, svo mun sá lifa fyrir mig, sem mig etur.
58 Þetta er það brauð, sem niður steig af himni. Það er ekki eins og brauðið, sem feðurnir átu og dóu. Sá sem etur þetta brauð, mun lifa að eilífu."
59 Þetta sagði hann, þegar hann var að kenna í samkundunni í Kapernaum.
60 Margir af lærisveinum hans, er á hlýddu, sögðu: "Þung er þessi ræða. Hver getur hlustað á hana?"
61 Jesús vissi með sjálfum sér, að kurr var með lærisveinum hans út af þessu, og sagði við þá: "Hneykslar þetta yður?
62 En ef þér sæjuð Mannssoninn stíga upp þangað, sem hann áður var?
63 Það er andinn, sem lífgar, holdið megnar ekkert. Orðin, sem ég hef talað til yðar, þau eru andi og þau eru líf.
64 En meðal yðar eru nokkrir, sem ekki trúa." Jesús vissi frá upphafi, hverjir þeir voru, sem trúðu ekki, og hver sá var, sem mundi svíkja hann.
65 Og hann bætti við: "Vegna þess sagði ég við yður: Enginn getur komið til mín, nema faðirinn veiti honum það."
66 Upp úr þessu hurfu margir af lærisveinum hans frá og voru ekki framar með honum.
67 Þá sagði Jesús við þá tólf: "Ætlið þér að fara líka?"
68 Símon Pétur svaraði honum: "Herra, til hvers ættum vér að fara? Þú hefur orð eilífs lífs,
69 og vér trúum og vitum, að þú ert hinn heilagi Guðs."
by Icelandic Bible Society