Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
101 Davíðssálmur. Ég vil syngja um miskunn og rétt, lofsyngja þér, Drottinn.
2 Ég vil gefa gætur að vegi hins ráðvanda _ hvenær kemur þú til mín? Í grandvarleik hjartans vil ég ganga um í húsi mínu.
3 Ég læt mér eigi til hugar koma neitt níðingsverk. Ég hata þá sem illa breyta, þeir fá engin mök við mig að eiga.
4 Rangsnúið hjarta skal frá mér víkja, ég kannast eigi við hinn vonda.
5 Rægi einhver náunga sinn í leyni, þagga ég niður í honum. Hver sem er hrokafullur og drembilátur í hjarta, hann fæ ég ekki þolað.
6 Augu mín horfa á hina trúföstu í landinu, að þeir megi búa hjá mér. Sá sem gengur grandvarleikans vegu, hann skal þjóna mér.
7 Enginn má dvelja í húsi mínu, er svik fremur. Sá er lygar mælir stenst eigi fyrir augum mínum.
8 Á hverjum morgni þagga ég niður í öllum óguðlegum í landinu. Ég útrými úr borg Drottins öllum illgjörðamönnum.
8 Þá safnaði Salómon saman öldungum Ísraels og öllum foringjum kynþáttanna, ætthöfðingjum Ísraelsmanna, til sín í Jerúsalem til þess að flytja sáttmálsörk Drottins upp eftir frá Davíðsborg, það er Síon.
2 Þá söfnuðust allir Ísraelsmenn til Salómons konungs í etaním-mánuði á hátíðinni (er sá mánuður hinn sjöundi).
3 Þá komu allir öldungar Ísraels, og prestarnir tóku örkina.
4 Og þeir fluttu örk Drottins og samfundatjaldið og öll hin helgu áhöld, er í tjaldinu voru. Fluttu prestarnir og levítarnir þau upp eftir.
5 En Salómon konungur og allur Ísraelssöfnuður, er safnast hafði til hans, stóð ásamt honum frammi fyrir örkinni. Fórnuðu þeir sauðum og nautum, er eigi varð tölu né ætlan á komið fyrir fjölda sakir.
6 Og prestarnir fluttu sáttmálsörk Drottins á sinn stað, í innhús musterisins, inn í Hið allrahelgasta, inn undir vængi kerúbanna.
7 Kerúbarnir breiddu út vængina þar yfir, er örkin stóð, og þannig huldu þeir örkina og stengur hennar ofan frá.
8 Stengurnar voru svo langar, að stangarendarnir sáust frá helgidóminum fyrir framan innhúsið, en utan að sáust þeir ekki. Og þær hafa verið þar fram á þennan dag.
9 Í örkinni var ekkert nema steintöflurnar tvær, er Móse hafði lagt þar við Hóreb, töflur sáttmálans, er Drottinn gjörði við Ísraelsmenn, þá er þeir fóru af Egyptalandi.
10 En er prestarnir gengu út úr helgidóminum, fyllti ský hús Drottins,
11 og máttu prestarnir eigi inn ganga fyrir skýinu til þess að gegna þjónustu, því að dýrð Drottins fyllti hús Drottins.
12 Þá mælti Salómon: Sólina setti hann á himininn, en Drottinn hefir sjálfur sagt, að hann vilji búa í dimmu.
13 Nú hefi ég byggt þér hús til bústaðar, aðseturstað handa þér um eilífð. Svo er ritað í ljóðabókinni.
14 Þá sneri konungur sér við og blessaði allan Ísraelssöfnuð, en allur Ísraelssöfnuður stóð.
15 Og hann mælti: "Lofaður sé Drottinn, Ísraels Guð, er talaði með munni sínum við Davíð föður minn og efndi með hendi sinni það, er hann lofaði, þá er hann sagði:
16 ,Frá því er ég leiddi lýð minn Ísrael út af Egyptalandi, hefi ég ekki útvalið neina borg af öllum ættkvíslum Ísraels til þess að byggja þar hús, þar sem nafn mitt skyldi búa. En nú hefi ég útvalið Jerúsalem, til þess að nafn mitt búi þar, og ég útvaldi Davíð, til þess að hann skyldi ríkja yfir lýð mínum Ísrael.`
17 Davíð faðir minn hafði í hyggju að reisa hús nafni Drottins, Ísraels Guðs,
18 en Drottinn sagði við Davíð föður minn: ,Vel gjörðir þú, er þú ásettir þér að reisa hús nafni mínu.
19 En eigi skalt þú reisa húsið, heldur skal sonur þinn, sá er út gengur af lendum þínum, reisa hús nafni mínu.`
20 Og Drottinn hefir efnt orð sín, þau er hann talaði, því að ég kom í stað Davíðs föður míns og settist í hásæti Ísraels, svo sem Drottinn hafði heitið, og hefi nú reist hús nafni Drottins, Ísraels Guðs.
21 Og þar bjó ég örkinni stað, sem í er sáttmál Drottins, það er hann gjörði við feður vora, þá er hann leiddi þá út af Egyptalandi."
14 Þeir höfðu gleymt að taka brauð, höfðu ekki nema eitt brauð með sér í bátnum.
15 Jesús áminnti þá og sagði: "Gætið yðar, varist súrdeig farísea og súrdeig Heródesar."
16 En þeir ræddu sín á milli, að þeir hefðu ekki brauð.
17 Hann varð þess vís og segir við þá: "Hvað eruð þér að tala um, að þér hafið ekki brauð? Skynjið þér ekki enn né skiljið? Eru hjörtu yðar forhert?
18 Þér hafið augu, sjáið þér ekki? Þér hafið eyru, heyrið þér ekki? Eða munið þér ekki?
19 Þegar ég braut brauðin fimm handa fimm þúsundum, hve margar körfur fullar af brauðbitum tókuð þér saman?" Þeir svara honum: "Tólf."
20 "Eða brauðin sjö handa fjórum þúsundunum, hve margar körfur fullar af brauðbitum tókuð þér þá saman?" Þeir svara: "Sjö."
21 Og hann sagði við þá: "Skiljið þér ekki enn?"
by Icelandic Bible Society