Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 101

101 Davíðssálmur. Ég vil syngja um miskunn og rétt, lofsyngja þér, Drottinn.

Ég vil gefa gætur að vegi hins ráðvanda _ hvenær kemur þú til mín? Í grandvarleik hjartans vil ég ganga um í húsi mínu.

Ég læt mér eigi til hugar koma neitt níðingsverk. Ég hata þá sem illa breyta, þeir fá engin mök við mig að eiga.

Rangsnúið hjarta skal frá mér víkja, ég kannast eigi við hinn vonda.

Rægi einhver náunga sinn í leyni, þagga ég niður í honum. Hver sem er hrokafullur og drembilátur í hjarta, hann fæ ég ekki þolað.

Augu mín horfa á hina trúföstu í landinu, að þeir megi búa hjá mér. Sá sem gengur grandvarleikans vegu, hann skal þjóna mér.

Enginn má dvelja í húsi mínu, er svik fremur. Sá er lygar mælir stenst eigi fyrir augum mínum.

Á hverjum morgni þagga ég niður í öllum óguðlegum í landinu. Ég útrými úr borg Drottins öllum illgjörðamönnum.

Fyrri bók konunganna 7:1-12

Höll sína var Salómon að byggja í þrettán ár og fullgjörði þannig allt sitt hús.

Hann byggði Líbanonsskógarhúsið, er var hundrað álnir á lengd, fimmtíu álnir á breidd og þrjátíu álnir á hæð á þrem sedrussúlnaröðum, og á súlunum hvíldu bjálkar af sedrusviði.

Og það var þakið sedrusviði uppi yfir hliðarherbergjunum, er hvíldu á fjörutíu og fimm súlum, fimmtán í hverri röð.

Gluggaraðirnar voru þrjár, og ljóri gegnt ljóra þrem sinnum.

Og allar dyr og allir ljórar voru ferhyrndir, og ljóri var gegnt ljóra þrem sinnum.

Hann gjörði súlnasal, fimmtíu álnir á lengd og þrjátíu álnir á breidd, og forsal þar fyrir framan og súlur og pall þar fyrir framan.

Hann byggði hásætissal, þar sem hann kvað upp dóma _ dómhöllina _, og hún var þiljuð sedrusviði frá gólfi til lofts.

Og hús hans sjálfs, þar er hann bjó, í öðrum garðinum, inn af forsalnum, var gjört á sama hátt. Salómon gjörði og hús, eins og forsalinn, handa dóttur Faraós, er hann hafði gengið að eiga.

Allt þetta var byggt af úthöggnum steinum, er voru höggnir til eftir máli, sagaðir með sög innan og utan, frá undirstöðum og upp á veggbrúnir, og að utan allt að forgarðinum mikla.

10 Og undirstaðan var úr úthöggnum steinum, stórum steinum, tíu álna steinum og átta álna steinum.

11 Og þar á ofan voru úthöggnir steinar, höggnir eftir máli, og sedrusviður.

12 Og forgarðurinn mikli var gjörður allt um kring af þrem lögum af höggnum steini og einu lagi af sedrusbjálkum, svo og innri forgarður musteris Drottins og forgarðurinn að súlnasal hallarinnar.

Postulasagan 7:9-16

Og ættfeðurnir öfunduðu Jósef og seldu hann til Egyptalands. En Guð var með honum,

10 frelsaði hann úr öllum þrengingum hans og veitti honum hylli og visku í augum Faraós, Egyptalandskonungs, svo að hann skipaði hann höfðingja yfir Egyptaland og yfir allt sitt hús.

11 Nú kom hallæri á öllu Egyptalandi og Kanaan og mikil þrenging, og feður vorir höfðu ekki lífsbjörg.

12 En er Jakob heyrði, að korn væri til á Egyptalandi, sendi hann feður vora þangað hið fyrra sinn.

13 Og í síðara skiptið gaf Jósef sig fram við bræður sína, og Faraó varð kunn ætt Jósefs.

14 En Jósef sendi eftir Jakobi föður sínum og öllu ættfólki sínu, sjötíu og fimm manns,

15 og Jakob fór suður til Egyptalands. Þar andaðist hann og feður vorir.

16 Þeir voru fluttir til Síkem og lagðir í grafreitinn, er Abraham hafði keypt fyrir silfur af sonum Hemors í Síkem.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society