Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
111 Halelúja. Ég vil lofa Drottin af öllu hjarta, í félagi og söfnuði réttvísra.
2 Mikil eru verk Drottins, verð íhugunar öllum þeim, er hafa unun af þeim.
3 Tign og vegsemd eru verk hans og réttlæti hans stendur stöðugt að eilífu.
4 Hann hefir látið dásemdarverka sinna minnst verða, náðugur og miskunnsamur er Drottinn.
5 Hann hefir gefið fæðu þeim, er óttast hann, hann minnist að eilífu sáttmála síns.
6 Hann hefir kunngjört þjóð sinni kraft verka sinna, með því að gefa þeim eignir heiðingjanna.
7 Verk handa hans eru trúfesti og réttvísi, öll fyrirmæli hans eru áreiðanleg,
8 örugg um aldur og ævi, framkvæmd í trúfesti og réttvísi.
9 Hann hefir sent lausn lýð sínum, skipað sáttmála sinn að eilífu, heilagt og óttalegt er nafn hans.
10 Upphaf speki er ótti Drottins, hann er fögur hyggindi öllum þeim, er iðka hann. Lofstír hans stendur um eilífð.
2 Þegar dauðadagur Davíðs nálgaðist, lagði hann svo fyrir Salómon son sinn:
2 "Ég geng nú veg allrar veraldar, en ver þú hugrakkur og lát sjá, að þú sért maður.
3 Gæt þú þess, sem Drottinn, Guð þinn, af þér heimtar, að þú gangir á vegum hans og haldir lög hans, boðorð, ákvæði og fyrirmæli, eins og skrifað er í lögmáli Móse, svo að þú verðir lánsamur í öllu, sem þú gjörir og hvert sem þú snýr þér,
4 svo að Drottinn efni orð sín, þau er hann hefir við mig talað, er hann sagði: ,Ef synir þínir varðveita vegu sína, með því að ganga dyggilega fyrir augliti mínu af öllu hjarta sínu og allri sálu sinni, þá skal þig,` _ mælti hann _ ,ekki vanta eftirmann í hásæti Ísraels.`
5 Þú veist og sjálfur, hvað Jóab Serújuson hefir gjört mér, hversu hann hefir farið með báða hershöfðingja Ísraels, þá Abner Nersson og Amasa Jetersson, þar sem hann myrti þá og vann þannig víg í griðum og ataði blóði beltið um lendar sér og skóna á fótum sér, eins og í ófriði væri.
6 Neyt þú hygginda þinna og lát eigi hærur hans fara til Heljar í friði.
7 En sýn þú mildi sonum Barsillaí Gíleaðíta og lát þá vera meðal þeirra, sem eta við borð þitt, því að svo gjörðu þeir til mín, þá er ég flýði fyrir Absalon, bróður þínum.
8 Símeí Gerasson Benjamíníti frá Bahúrím er og með þér. Hann formælti mér gífurlega, þá er ég fór til Mahanaím. En hann kom til móts við mig niður að Jórdan, og vann ég honum svolátandi eið við Drottin: ,Ég skal eigi láta drepa þig.`
9 En þú skalt eigi láta honum óhegnt, því að þú ert maður vitur og munt vita, hvað þú átt að gjöra við hann, til þess að þú getir sent hærur hans blóðugar til Heljar."
10 Síðan lagðist Davíð til hvíldar hjá feðrum sínum og var jarðaður í Davíðsborg.
11 En sá tími, sem Davíð hafði ríkt yfir Ísrael, var fjörutíu ár. Í Hebron ríkti hann sjö ár og í Jerúsalem ríkti hann þrjátíu og þrjú ár.
7 Samversk kona kemur að sækja vatn. Jesús segir við hana: "Gef mér að drekka."
8 En lærisveinar hans höfðu farið inn í borgina að kaupa vistir.
9 Þá segir samverska konan við hann: "Hverju sætir, að þú, sem ert Gyðingur, biður mig um að drekka, samverska konu?" [En Gyðingar hafa ekki samneyti við Samverja.]
10 Jesús svaraði henni: "Ef þú þekktir gjöf Guðs og vissir, hver sá er, sem segir við þig: ,Gef mér að drekka,` þá mundir þú biðja hann, og hann gæfi þér lifandi vatn."
11 Hún segir við hann: "Herra, þú hefur enga skjólu að ausa með, og brunnurinn er djúpur. Hvaðan hefur þú þetta lifandi vatn?
12 Ertu meiri en Jakob forfaðir vor, sem gaf oss brunninn og drakk sjálfur úr honum og synir hans og fénaður?"
13 Jesús svaraði: "Hvern sem drekkur af þessu vatni mun aftur þyrsta,
14 en hvern sem drekkur af vatninu, er ég gef honum, mun aldrei þyrsta að eilífu. Því vatnið, sem ég gef honum, verður í honum að lind, sem streymir fram til eilífs lífs."
15 Þá segir konan við hann: "Herra, gef mér þetta vatn, svo að mig þyrsti ekki og ég þurfi ekki að fara hingað að ausa."
16 Hann segir við hana: "Farðu, kallaðu á manninn þinn, og komdu hingað."
17 Konan svaraði: "Ég á engan mann." Jesús segir við hana: "Rétt er það, að þú eigir engan mann,
18 því þú hefur átt fimm menn, og sá sem þú átt nú, er ekki þinn maður. Þetta sagðir þú satt."
19 Konan segir við hann: "Herra, nú sé ég, að þú ert spámaður.
20 Feður vorir hafa tilbeðið Guð á þessu fjalli, en þér segið, að í Jerúsalem sé sá staður, þar sem tilbiðja skuli."
21 Jesús segir við hana: "Trú þú mér, kona. Sú stund kemur, að þér munuð hvorki tilbiðja föðurinn á þessu fjalli né í Jerúsalem.
22 Þér tilbiðjið það, sem þér þekkið ekki. Vér tilbiðjum það, sem vér þekkjum, því hjálpræðið kemur frá Gyðingum.
23 En sú stund kemur, já, hún er nú komin, er hinir sönnu tilbiðjendur munu tilbiðja föðurinn í anda og sannleika. Faðirinn leitar slíkra, er þannig tilbiðja hann.
24 Guð er andi, og þeir, sem tilbiðja hann, eiga að tilbiðja í anda og sannleika."
25 Konan segir við hann: "Ég veit, að Messías kemur _ það er Kristur. Þegar hann kemur, mun hann kunngjöra oss allt."
26 Jesús segir við hana: "Ég er hann, ég sem við þig tala."
by Icelandic Bible Society