Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 111

111 Halelúja. Ég vil lofa Drottin af öllu hjarta, í félagi og söfnuði réttvísra.

Mikil eru verk Drottins, verð íhugunar öllum þeim, er hafa unun af þeim.

Tign og vegsemd eru verk hans og réttlæti hans stendur stöðugt að eilífu.

Hann hefir látið dásemdarverka sinna minnst verða, náðugur og miskunnsamur er Drottinn.

Hann hefir gefið fæðu þeim, er óttast hann, hann minnist að eilífu sáttmála síns.

Hann hefir kunngjört þjóð sinni kraft verka sinna, með því að gefa þeim eignir heiðingjanna.

Verk handa hans eru trúfesti og réttvísi, öll fyrirmæli hans eru áreiðanleg,

örugg um aldur og ævi, framkvæmd í trúfesti og réttvísi.

Hann hefir sent lausn lýð sínum, skipað sáttmála sinn að eilífu, heilagt og óttalegt er nafn hans.

10 Upphaf speki er ótti Drottins, hann er fögur hyggindi öllum þeim, er iðka hann. Lofstír hans stendur um eilífð.

Fyrri bók konunganna 1:28-48

28 Þá svaraði Davíð konungur og mælti: "Kallið á Batsebu!" Gekk hún þá inn fyrir konung. Og er hún stóð frammi fyrir konungi,

29 sór konungur og sagði: "Svo sannarlega sem Drottinn lifir, sá er frelsað hefir líf mitt úr öllum nauðum:

30 Eins og ég sór þér við Drottin, Ísraels Guð, og sagði: Salómon sonur þinn skal verða konungur eftir mig, og hann skal sitja í hásæti mínu í minn stað _ svo vil ég staðfesta það í dag."

31 Þá hneigði Batseba ásjónu sína til jarðar, laut konungi og mælti: "Minn herra Davíð konungur lifi eilíflega!"

32 Þá sagði Davíð konungur: "Kallið á Sadók prest, Natan spámann og Benaja Jójadason." Þeir gengu síðan fyrir konung.

33 Og konungur sagði við þá: "Takið með yður þjóna herra yðar, setjið Salómon son minn á múl minn og farið með hann til Gíhonlindar.

34 Skal Sadók prestur og Natan spámaður smyrja hann þar til konungs yfir Ísrael. Þeytið síðan lúðurinn og hrópið: ,Salómon konungur lifi!`

35 Komið síðan með honum hingað, og skal hann þá koma og setjast í hásæti mitt og vera konungur í minn stað, því að hann hefi ég skipað til að vera höfðingja yfir Ísrael og Júda."

36 Þá svaraði Benaja Jójadason konungi og mælti: "Veri það svo; Drottinn, Guð míns herra konungsins, gefi það.

37 Eins og Drottinn hefir verið með mínum herra konunginum, svo sé hann og með Salómon og hefji hásæti hans enn hærra en hásæti míns herra, Davíðs konungs."

38 Þá fóru þeir Sadók prestur, Natan spámaður, Benaja Jójadason og Kretar og Pletar og settu Salómon á múl Davíðs konungs og fóru með hann til Gíhonlindar.

39 Þá tók Sadók prestur olíuhornið úr tjaldinu og smurði Salómon. Þá þeyttu þeir lúðurinn, og allur lýðurinn hrópaði: "Lifi Salómon konungur!"

40 Síðan fór allur lýðurinn heim aftur með honum, og menn blésu á hljóðpípur og létu feginslátum, svo að við sjálft lá, að jörðin rifnaði af ópi þeirra.

41 Adónía og allir þeir, sem hann hafði í boði sínu, heyrðu þetta, er þeir höfðu lokið máltíðinni. Þegar Jóab heyrði lúðurhljóminn, mælti hann: "Hví er öll borgin í uppnámi?"

42 En er hann var þetta að mæla, kom Jónatan, sonur Abjatars prests. Þá sagði Adónía: "Kom þú hingað, því að þú ert sæmdarmaður og munt flytja góð tíðindi."

43 Þá svaraði Jónatan og sagði við Adónía: "Það er nú svo! Herra vor, Davíð konungur, hefir gjört Salómon að konungi.

44 Konungur hefir sent með honum Sadók prest, Natan spámann, Benaja Jójadason og Kreta og Pleta, og þeir hafa sett hann á múl konungs.

45 Og þeir Sadók prestur og Natan spámaður hafa smurt hann til konungs við Gíhonlind. Þaðan fóru þeir heim fagnandi, svo að öll borgin er komin í uppnám. Þetta er hávaðinn, sem þér hafið heyrt.

46 Salómon hefir meira að segja setst í konungshásætið.

47 Sömuleiðis komu þjónar konungs til þess að árna herra vorum, Davíð konungi, heilla, og sögðu: ,Guð þinn gjöri nafn Salómons enn víðfrægara en nafn þitt, og hefji hásæti hans enn hærra en hásæti þitt!` og hneigði konungur sig í hvílu sinni.

48 Konungur hefir og mælt svo: ,Lofaður sé Drottinn, Ísraels Guð, sem í dag hefir skipað eftirmann í hásæti mitt og látið mér auðnast að líta það."`

Bréf Páls til Rómverja 16:17-20

17 Ég áminni yður um, bræður, að hafa gát á þeim, er vekja sundurþykkju og tæla frá þeirri kenningu, sem þér hafið numið. Sneiðið hjá þeim.

18 Því að slíkir menn þjóna ekki Drottni vorum Kristi, heldur eigin maga, og með blíðmælum og fagurgala blekkja þeir hjörtu hrekklausra manna.

19 Hlýðni yðar er alkunn orðin. Því gleðst ég yfir yður og ég vil, að þér séuð vitrir í því, sem gott er, en einfaldir í því, sem illt er.

20 Guð friðarins mun bráðlega sundurmola Satan undir fótum yðar. Náðin Drottins vors Jesú Krist sé með yður.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society