Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 57

57 Til söngstjórans. Lag: Spill eigi. Miktam eftir Davíð, þá er hann flýði inn í hellinn fyrir Sál.

Ver mér náðugur, ó Guð, ver mér náðugur! Því að hjá þér leitar sál mín hælis, og í skugga vængja þinna vil ég hælis leita, uns voðinn er liðinn hjá.

Ég hrópa til Guðs, hins hæsta, þess Guðs, er kemur öllu vel til vegar fyrir mig.

Hann sendir af himni og hjálpar mér, þegar sá er kremur mig spottar. [Sela] Guð sendir náð sína og trúfesti.

Ég verð að liggja meðal ljóna, er eldi fnæsa. Tennur þeirra eru spjót og örvar, og tungur þeirra eru bitur sverð.

Sýn þig himnum hærri, ó Guð, dýrð þín breiðist yfir gjörvalla jörðina!

Þeir hafa lagt net fyrir fætur mína, sál mín er beygð. Þeir hafa grafið gryfju fyrir framan mig, sjálfir falla þeir í hana. [Sela]

Hjarta mitt er stöðugt, ó Guð, hjarta mitt er stöðugt, ég vil syngja og leika.

Vakna þú, sál mín, vakna þú, harpa og gígja, ég vil vekja morgunroðann.

10 Ég vil lofa þig meðal lýðanna, Drottinn, vegsama þig meðal þjóðanna,

11 því að miskunn þín nær til himna og trúfesti þín til skýjanna.

12 Sýn þig himnum hærri, ó Guð, dýrð þín breiðist yfir gjörvalla jörðina.

Síðari Samúelsbók 19:1-18

19 Jóab var sagt: "Sjá, konungur grætur og harmar Absalon."

Snerist þá sigurinn í hryggð fyrir öllu liðinu á þeim degi, því að liðið fékk þann dag þá fregn: "Konungur tregar son sinn."

Þann dag læddist liðið inn í borgina, eins og sá her læðist, er sú skömm hefir hent að flýja úr orustu.

En konungur huldi andlit sitt, og konungur kveinaði hástöfum: "Sonur minn Absalon, Absalon sonur minn, sonur minn!"

Þá gekk Jóab inn í höllina fyrir konung og mælti: "Þú hefir í dag gjört opinbera hneisu öllum þjónum þínum, sem í dag hafa frelsað líf þitt, líf sona þinna og dætra, líf kvenna þinna og líf hjákvenna þinna

með því að sýna þeim elsku, er hata þig, og hatur þeim, er elska þig. Í dag hefir þú sýnt, að þú átt enga hershöfðingja eða þjóna, því að nú veit ég, að væri Absalon á lífi, en vér nú allir dauðir, þá mundi þér það vel líka.

Rís því nú upp, gakk út og tala vinsamlega við þjóna þína, því að það sver ég við Drottin, að gangir þú ekki út, mun ekki einn maður eftir verða í nótt með þér, og er þér það verra en öll ógæfa, er yfir þig hefir komið frá barnæsku þinni fram á þennan dag."

Þá stóð konungur upp og settist í borgarhliðið. Og er öllu liðinu var sagt: "Sjá, konungur situr í borgarhliðinu," þá gekk allt liðið fyrir konung. Nú var Ísrael flúinn, hver heim til sín.

Þá þráttaði lýðurinn í öllum ættkvíslum Ísraels sín í millum og sagði: "Konungur hefir frelsað oss af hendi óvina vorra, og hann hefir bjargað oss undan valdi Filista, en nú er hann flúinn úr landi undan Absalon,

10 en Absalon, sem vér smurðum til konungs yfir oss, er fallinn í orustu. Hvað dvelur yður þá að færa konunginn heim aftur?"

11 Þessi ummæli alls Ísraels bárust konungi til eyrna. En Davíð konungur sendi til prestanna Sadóks og Abjatars og lét segja þeim: "Mælið svo til öldunga Júda: ,Hvers vegna viljið þér vera manna síðastir til þess að færa konung aftur til hallar sinnar?

12 Þér eruð ættbræður mínir, þér eruð bein mitt og hold. Hvers vegna viljið þér vera síðastir til að færa konung heim aftur?`

13 Og segið Amasa: ,Sannlega ert þú bein mitt og hold _ Guð láti mig gjalda þess nú og síðar, ef þú verður ekki hershöfðingi hjá mér alla ævi í stað Jóabs."`

14 Hann sneri þannig hjörtum allra Júdamanna sem eins manns væri, svo að þeir gjörðu konungi þessi orð: "Snú þú aftur með alla menn þína."

15 Konungur sneri nú heimleiðis og kom að Jórdan, en Júdamenn komu til Gilgal til þess að fara í móti konungi og flytja konung yfir Jórdan.

16 Símeí Gerason Benjamíníti frá Bahúrím hafði hraðan á og fór ofan með Júdamönnum til móts við Davíð konung

17 og þúsund manns af Benjamín með honum. En Síba, ármaður Sáls, var ásamt fimmtán sonum sínum og tuttugu þjónum sínum kominn til Jórdanar á undan konungi.

18 Höfðu þeir farið yfir á vaðinu til þess að flytja konungsfólkið yfir og gjöra það, er honum þóknaðist. Og er konungur ætlaði að fara yfir Jórdan, féll Símeí Gerason honum til fóta

Jóhannesarguðspjall 6:35-40

35 Jesús sagði þeim: "Ég er brauð lífsins. Þann mun ekki hungra, sem til mín kemur, og þann aldrei þyrsta, sem á mig trúir.

36 En ég hef sagt við yður: Þér hafið séð mig og trúið þó ekki.

37 Allt sem faðirinn gefur mér, mun koma til mín, og þann sem kemur til mín, mun ég alls eigi brott reka.

38 Ég er stiginn niður af himni, ekki til að gjöra vilja minn, heldur vilja þess, er sendi mig.

39 En sá er vilji þess, sem sendi mig, að ég glati engu af öllu því, sem hann hefur gefið mér, heldur reisi það upp á efsta degi.

40 Því sá er vilji föður míns, að hver sem sér soninn og trúir á hann, hafi eilíft líf, og ég mun reisa hann upp á efsta degi."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society