Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 130

130 Úr djúpinu ákalla ég þig, Drottinn,

Drottinn, heyr þú raust mína, lát eyru þín hlusta á grátbeiðni mína!

Ef þú, Drottinn, gæfir gætur að misgjörðum, Drottinn, hver fengi þá staðist?

En hjá þér er fyrirgefning, svo að menn óttist þig.

Ég vona á Drottin, sál mín vonar, og hans orðs bíð ég.

Meir en vökumenn morgun, vökumenn morgun, þreyr sál mín Drottin.

Ó Ísrael, bíð þú Drottins, því að hjá Drottni er miskunn, og hjá honum er gnægð lausnar.

Hann mun leysa Ísrael frá öllum misgjörðum hans.

Síðari Samúelsbók 15:1-13

15 Eftir þetta bar það til, að Absalon fékk sér vagna og hesta og fimmtíu menn, sem fyrir honum hlupu.

Og hann lagði það í vana sinn að nema staðar snemma morguns við veginn, sem lá inn að borgarhliðinu. Og hann kallaði á hvern þann mann, er í máli átti og fyrir því leitaði á konungs fund til þess að fá úrskurð hans, og mælti: "Frá hvaða borg ert þú?" Og segði hann: "Þjónn þinn er af einni ættkvísl Ísraels,"

þá sagði Absalon við hann: "Sjá, málefni þitt er gott og rétt, en konungur hefir engan sett, er veiti þér áheyrn."

Og Absalon sagði: "Ég vildi óska að ég væri skipaður dómari í landinu, svo að hver maður, sem ætti í þrætu eða hefði mál að sækja, gæti komið til mín. Þá skyldi ég láta hann ná rétti sínum."

Og þegar einhver kom til hans til þess að lúta honum, rétti hann fram höndina, dró hann að sér og kyssti hann.

Svo gjörði Absalon við alla Ísraelsmenn, þá er leituðu á konungs fund til þess að fá úrskurð hans. Og þann veg stal Absalon hjörtum Ísraelsmanna.

Og það bar til fjórum árum síðar, að Absalon sagði við konung: "Leyf mér að fara og efna heit mitt í Hebron, það er ég hefi gjört Drottni.

Því að þjónn þinn gjörði svolátandi heit, þá er hann dvaldist í Gesúr á Sýrlandi: ,Ef Drottinn flytur mig aftur til Jerúsalem, þá skal ég þjóna Drottni."`

Konungur svaraði honum: "Far þú í friði!" Lagði hann þá af stað og fór til Hebron.

10 En Absalon gjörði menn á laun til allra ættkvísla Ísraels með svolátandi orðsending: "Þegar þér heyrið lúðurhljóm, þá segið: ,Absalon er konungur orðinn í Hebron!"`

11 Með Absalon fóru tvö hundruð manns úr Jerúsalem, er hann kvaddi til farar með sér. Fóru þeir í grandleysi og vissu ekki, hvað undir bjó.

12 Og er Absalon var að fórnum, sendi hann eftir Akítófel Gílóníta, ráðgjafa Davíðs, til Gíló, ættborgar hans. Og samsærið magnaðist og æ fleiri og fleiri menn gengu í lið með Absalon.

13 Nú komu menn til Davíðs og sögðu honum: "Hugur Ísraelsmanna hefir snúist til Absalons."

Matteusarguðspjall 7:7-11

Biðjið, og yður mun gefast, leitið, og þér munuð finna, knýið á, og fyrir yður mun upp lokið verða.

Því að hver sá öðlast, sem biður, sá finnur, sem leitar, og fyrir þeim, sem á knýr, mun upp lokið verða.

Eða hver er sá maður meðal yðar, sem gefur syni sínum stein, er hann biður um brauð?

10 Eða höggorm, þegar hann biður um fisk?

11 Fyrst þér, sem eruð vondir, hafið vit á að gefa börnum yðar góðar gjafir, hve miklu fremur mun þá faðir yðar á himnum gefa þeim góðar gjafir, sem biðja hann?

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society