Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
16 En við hinn óguðlega segir Guð: "Hvernig dirfist þú að telja upp boðorð mín og taka sáttmála minn þér í munn,
17 þar sem þú þó hatar aga og varpar orðum mínum að baki þér?
18 Sjáir þú þjóf, leggur þú lag þitt við hann, og við hórkarla hefir þú samfélag.
19 Þú hleypir munni þínum út í illsku, og tunga þín bruggar svik.
20 Þú situr og bakmælir bróður þínum og ófrægir son móður þinnar.
21 Slíkt hefir þú gjört, og ég ætti að þegja? Þú heldur, að ég sé líkur þér! Ég mun hegna þér og endurgjalda þér augljóslega.
22 Hyggið að þessu, þér sem gleymið Guði, til þess að ég sundurrífi ekki og enginn fái bjargað.
23 Sá sem færir þakkargjörð að fórn, heiðrar mig, og þann sem breytir grandvarlega, vil ég láta sjá hjálpræði Guðs."
20 Og Absalon bróðir hennar sagði við hana: "Hefir Amnon bróðir þinn verið með þér? Þegi þú nú, systir mín, hann er bróðir þinn. Láttu þetta ekki á þig fá." Og Tamar dvaldi ein og yfirgefin í húsi Absalons bróður síns.
21 Þegar Davíð konungur frétti allt þetta, varð hann reiður mjög, en hann vildi eigi hryggja Amnon son sinn, því að hann elskaði hann, af því að hann var frumgetningur hans.
22 En Absalon mælti eigi orð við Amnon, hvorki illt né gott, því að Absalon hataði Amnon fyrir það, að hann hafði svívirt Tamar systur hans.
23 Tveimur árum síðar bar svo við, að Absalon lét klippa sauði sína í Baal Hasór, sem er hjá Efraím, og bauð hann til öllum sonum konungs.
24 Absalon gekk og fyrir konung og mælti: "Sjá, þjónn þinn lætur nú klippa sauði sína, og bið ég að konungurinn og þjónar hans komi með þjóni þínum."
25 En konungur sagði við Absalon: "Nei, sonur minn, eigi skulum vér allir fara, svo að vér gjörum þér eigi átroðning." Og þótt Absalon legði að honum, vildi hann ekki fara, en bað hann vel fara.
26 Þá sagði Absalon: "Fyrst þú vilt ekki fara, þá leyf þú að Amnon bróðir minn fari með oss." Konungur svaraði honum: "Hví skal hann með þér fara?"
27 En Absalon lagði fast að honum. Lét hann þá Amnon fara með honum og alla konungssonu. Absalon gjörði veislu, svo sem konungsveisla væri.
28 Og hann lagði svo fyrir sveina sína: "Gefið gætur, þegar Amnon gjörist hreifur af víninu og ég segi við yður: ,Drepið Amnon!` _ þá skuluð þér vega hann. Óttist ekki, það er ég, sem lagt hefi þetta fyrir yður. Verið hugrakkir og sýnið karlmennsku."
29 Og sveinar Absalons gjörðu svo við Amnon sem Absalon hafði fyrir þá lagt. Þá spruttu allir synir konungs upp, stigu á bak múlum sínum og flýðu.
30 Meðan þeir voru á leiðinni, kom sú fregn til konungs, að Absalon hefði drepið alla sonu konungs og að enginn þeirra væri eftir skilinn.
31 Þá stóð konungur upp og reif sundur klæði sín og lagðist á jörðu, og allir þjónar hans, þeir er stóðu umhverfis hann, rifu sundur klæði sín.
32 Þá tók Jónadab, sonur Símea, bróður Davíðs, til máls og sagði: "Herra minn, hugsa þú ekki, að þeir hafi drepið alla hina ungu menn, sonu konungsins, því að Amnon einn er dauður, enda vissi á illt svipurinn, sem legið hefir um munn Absalons, síðan er Amnon nauðgaði Tamar systur hans.
33 Minn herra konungurinn láti þetta því eigi á sig fá og hugsi ekki, að allir synir konungsins séu dauðir. Nei, Amnon einn er dauður."
34 Absalon flýði. En er varðsveininum varð litið upp, sá hann margt manna koma ofan fjallið á veginum til Hórónaím. Varðmaðurinn kom og sagði konungi frá og mælti: "Ég sá menn koma af veginum til Hórónaím niður undan fjallinu."
35 Þá sagði Jónadab við konung: "Sjá, þar koma synir konungsins. Svo hefir allt til gengið, sem þjónn þinn sagði."
36 Og er hann hafði lokið máli sínu, sjá, þá komu synir konungs og grétu hástöfum. Konungur og þjónar hans tóku þá að gráta ákaflega.
8 Um þessar mundir bar enn svo við, að mikill mannfjöldi var saman kominn og hafði ekkert til matar. Jesús kallar þá til sín lærisveinana og segir við þá:
2 "Ég kenni í brjósti um mannfjöldann. Þeir hafa nú hjá mér verið þrjá daga og hafa ekkert til matar.
3 Láti ég þá fara fastandi heim til sín, örmagnast þeir á leiðinni, en sumir þeirra eru langt að."
4 Þá svöruðu lærisveinarnir: "Hvar er hægt að fá brauð til að metta þetta fólk hér í óbyggðum?"
5 Hann spurði þá: "Hve mörg brauð hafið þér?" Þeir sögðu: "Sjö."
6 Þá bauð hann fólkinu að setjast á jörðina, tók brauðin sjö, gjörði þakkir og braut þau og gaf lærisveinum sínum, að þeir bæru þau fram. En þeir báru þau fram fyrir fólkið.
7 Þeir höfðu og fáeina smáfiska. Hann þakkaði Guði og bauð, að einnig þeir skyldu fram bornir.
8 Menn neyttu og urðu mettir. Síðan tóku þeir saman leifarnar, sjö körfur.
9 En þeir voru um fjórar þúsundir. Síðan lét hann þá fara.
10 Og hann sté þegar í bátinn með lærisveinum sínum og kom í Dalmanútabyggðir.
by Icelandic Bible Society