Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 50:16-23

16 En við hinn óguðlega segir Guð: "Hvernig dirfist þú að telja upp boðorð mín og taka sáttmála minn þér í munn,

17 þar sem þú þó hatar aga og varpar orðum mínum að baki þér?

18 Sjáir þú þjóf, leggur þú lag þitt við hann, og við hórkarla hefir þú samfélag.

19 Þú hleypir munni þínum út í illsku, og tunga þín bruggar svik.

20 Þú situr og bakmælir bróður þínum og ófrægir son móður þinnar.

21 Slíkt hefir þú gjört, og ég ætti að þegja? Þú heldur, að ég sé líkur þér! Ég mun hegna þér og endurgjalda þér augljóslega.

22 Hyggið að þessu, þér sem gleymið Guði, til þess að ég sundurrífi ekki og enginn fái bjargað.

23 Sá sem færir þakkargjörð að fórn, heiðrar mig, og þann sem breytir grandvarlega, vil ég láta sjá hjálpræði Guðs."

Síðari Samúelsbók 13:1-19

13 Nú segir frá því, að Absalon sonur Davíðs átti fríða systur, sem hét Tamar, og Amnon sonur Davíðs felldi hug til hennar.

Og Amnon píndist svo, að hann varð sjúkur út af Tamar, systur sinni, því að hún var mey, og Amnon virtist eigi unnt að gjöra henni neitt.

En Amnon átti vin, sem Jónadab hét, sonur Símea, bróður Davíðs. Jónadab þessi var mjög kænn maður.

Og hann sagði við Amnon: "Hví megrast þú svo, konungsson, dag frá degi? Viltu ekki segja mér það?" Amnon sagði við hann: "Ég felli hug til Tamar, systur Absalons bróður míns."

Þá sagði Jónadab við hann: "Leggst þú í rekkju og lát sem þú sért sjúkur, og þegar faðir þinn kemur til þess að vitja um þig, þá skaltu segja við hann: ,Lát Tamar systur mína koma og gefa mér að eta. Ef hún byggi til matinn fyrir augum mér, svo að ég gæti horft á, þá mundi ég eta úr hendi hennar."`

Síðan lagðist Amnon og lést vera sjúkur. En er konungur kom að vitja um hann, sagði Amnon við konung: "Lát Tamar systur mína koma og gjöra tvær kökur að mér áhorfandi, svo að ég megi eta þær úr hendi hennar."

Þá sendi Davíð boð heim til Tamar og lét segja henni: "Far þú í hús Amnons bróður þíns og matreið handa honum."

Þá gekk Tamar í hús Amnons bróður síns, en hann lá í rúminu. Og hún tók deig og hnoðaði og gjörði úr því kökur að honum áhorfandi og bakaði kökurnar.

Og hún tók pönnuna og steypti úr henni frammi fyrir honum, en hann vildi ekki eta. Og Amnon mælti: "Látið alla ganga út frá mér." Og allir gengu út frá honum.

10 Þá sagði Amnon við Tamar: "Kom þú með matinn inn í svefnhúsið, svo að ég megi eta úr hendi þinni." Og Tamar tók kökurnar, sem hún hafði gjört, og færði Amnon bróður sínum inn í svefnhúsið.

11 En er hún rétti honum þær að eta, þreif hann til hennar og sagði við hana: "Kom þú og leggst með mér, systir mín!"

12 En hún sagði við hann: "Nei, bróðir minn, svívirð mig eigi, því að slíkt viðgengst ekki í Ísrael. Frem þú eigi slíka óhæfu.

13 Og hvað ætti ég af mér að gjöra með vansæmd mína? Og þú mundir talinn eitt hið versta varmenni í Ísrael. Tala þú heldur við konung, því að hann mun ekki synja þér um mig."

14 En hann vildi ekki hlýða orðum hennar, heldur lét hana kenna aflsmunar og nauðgaði henni og lagðist með henni.

15 En síðan fékk Amnon mjög mikla óbeit á henni, svo að hin mikla óbeit, er hann hafði á henni, var meiri en ástin, sem hann hafði haft á henni. Og Amnon sagði við hana: "Statt upp og haf þig á burt."

16 Þá sagði hún við hann: "Nei, bróðir minn, því að þetta væri enn meira vonskuverk en það, er þú hefir á mér framið, að senda mig nú burt." En hann vildi ekki hlýða orðum hennar.

17 Og hann kallaði á svein sinn, er þjónaði honum, og mælti: "Kom þessari konu burt frá mér út á götuna, og lokaðu dyrunum á eftir henni."

18 En hún var í dragkyrtli, því að svo voru fyrrum konungsdætur klæddar, meðan þær voru meyjar. Og þjónn hans fór með hana út á götuna og lokaði dyrunum á eftir henni.

19 Þá jós Tamar mold yfir höfuð sér og reif sundur dragkyrtilinn sem hún var í, lagði síðan hönd á höfuð sér og gekk hljóðandi burt.

Fyrra bréf Páls til Korin 12:27-31

27 Þér eruð líkami Krists og limir hans hver um sig.

28 Guð hefur sett nokkra í kirkjunni, fyrst postula, í öðru lagi spámenn, í þriðja lagi fræðara, sumum hefur hann veitt gáfu að gjöra kraftaverk, lækna, vinna líknarstörf, stjórna og tala tungum.

29 Hvort eru allir postular? Hvort eru allir spámenn? Hvort eru allir fræðarar? Hvort eru allir kraftaverkamenn?

30 Hvort hafa allir hlotið lækningagáfu? Hvort tala allir tungum? Hvort útlista allir tungutal?

31 Nei, sækist heldur eftir náðargáfunum, þeim hinum meiri. Og nú bendi ég yður á enn þá miklu ágætari leið.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society