Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Síðari Samúelsbók 11:26-12:13

26 En er kona Úría frétti, að maður hennar Úría var fallinn, harmaði hún bónda sinn.

27 En þegar sorgardagarnir voru liðnir, sendi Davíð og tók hana heim til sín, og hún varð kona hans og fæddi honum son. En Drottni mislíkaði það, sem Davíð hafði gjört.

12 Drottinn sendi Natan til Davíðs, og Natan kom til hans og sagði við hann: "Tveir menn voru í sömu borg. Annar var ríkur, hinn fátækur.

Hinn ríki átti fjölda sauða og nauta,

en hinn fátæki átti ekki nema eitt gimbrarlamb, sem hann hafði keypt og alið. Það óx upp hjá honum og með börnum hans, það át af mat hans og drakk af bikar hans og svaf við brjóst hans og var eins og dóttir hans.

Þá kom gestur til ríka mannsins, og hann tímdi ekki að taka neinn af sauðum sínum eða nautum til þess að matreiða fyrir ferðamanninn, sem til hans var kominn, heldur tók gimbrarlamb fátæka mannsins og matbjó það fyrir manninn, sem kominn var til hans."

Þá reiddist Davíð manninum ákaflega og sagði við Natan: "Svo sannarlega sem Drottinn lifir: Sá maður, sem slíkt hefir aðhafst, er dauðasekur,

og lambið skal hann borga sjöfaldlega, fyrst hann gjörði slíkt og hafði enga meðaumkun."

En Natan sagði við Davíð: "Þú ert maðurinn! Svo segir Drottinn, Ísraels Guð: Ég hefi smurt þig til konungs yfir Ísrael, og ég hefi frelsað þig af hendi Sáls,

og ég gaf þér hús herra þíns og lagði konur herra þíns upp að brjósti þér, og ég hefi fengið þér Ísraels hús og Júda _ og hefði það verið of lítið, mundi ég hafa bætt einhverju við þig.

Hví hefir þú fyrirlitið orð Drottins með því að aðhafast það, sem honum mislíkar? Úría Hetíta hefir þú fellt með sverði. Konu hans hefir þú tekið þér fyrir konu, en sjálfan hann hefir þú myrt með sverði Ammóníta.

10 Fyrir því skal sverðið aldrei víkja burt frá húsi þínu, sakir þess að þú fyrirleist mig og tókst konu Úría Hetíta þér fyrir konu.

11 Svo segir Drottinn: Sjá, ég læt ólán koma yfir þig frá húsi þínu og tek konur þínar fyrir augunum á þér og gef þær öðrum manni, svo að hann hvíli hjá konum þínum að sólinni ásjáandi.

12 Þú hefir gjört þetta með launung, en ég mun framkvæma þetta í augsýn alls Ísraels og í augsýn sólarinnar."

13 Þá sagði Davíð við Natan: "Ég hefi syndgað móti Drottni." Natan sagði við Davíð: "Drottinn hefir og fyrirgefið þér synd þína. Þú munt ekki deyja.

Sálmarnir 51:1-12

51 Til söngstjórans. Sálmur Davíðs,

þá er Natan spámaður kom til hans, eftir að hann hafði gengið inn til Batsebu.

Guð, vertu mér náðugur sakir elsku þinnar, afmá brot mín sakir þinnar miklu miskunnsemi.

Þvo mig hreinan af misgjörð minni, hreinsa mig af synd minni,

því að ég þekki sjálfur afbrot mín, og synd mín stendur mér stöðugt fyrir hugskotssjónum.

Gegn þér einum hefi ég syndgað og gjört það sem illt er í augum þínum. Því ert þú réttlátur, er þú talar, hreinn, er þú dæmir.

Sjá, sekur var ég, er ég varð til, syndugur, er móðir mín fæddi mig.

Sjá, þú hefir þóknun á hreinskilni hið innra, og í fylgsnum hjartans kennir þú mér visku!

Hreinsa mig með ísóp, svo að ég verði hreinn, þvo mig, svo að ég verði hvítari en mjöll.

10 Lát mig heyra fögnuð og gleði, lát kætast beinin sem þú hefir sundurmarið.

11 Byrg auglit þitt fyrir syndum mínum og afmá allar misgjörðir mínar.

12 Skapa í mér hreint hjarta, ó Guð, og veit mér nýjan, stöðugan anda.

Bréf Páls til Efesusmanna 4:1-16

Ég, bandinginn vegna Drottins, áminni yður þess vegna um að hegða yður svo sem samboðið er þeirri köllun, sem þér hafið hlotið.

Verið í hvívetna lítillátir og hógværir. Verið þolinmóðir, langlyndir og umberið hver annan í kærleika.

Kappkostið að varðveita einingu andans í bandi friðarins.

Einn er líkaminn og einn andinn, eins og þér líka voruð kallaðir til einnar vonar.

Einn er Drottinn, ein trú, ein skírn,

einn Guð og faðir allra, sem er yfir öllum, með öllum og í öllum.

Sérhverjum af oss var náðin veitt eftir því, sem Kristur úthlutaði honum.

Því segir ritningin: "Hann steig upp til hæða, hertók fanga og gaf mönnunum gjafir." (

En "steig upp", hvað merkir það annað en að hann hefur einnig stigið niður í djúp jarðarinnar?

10 Sá, sem steig niður, er og sá, sem upp sté, upp yfir alla himna til þess að fylla allt.)

11 Og frá honum er sú gjöf komin, að sumir eru postular, sumir spámenn, sumir trúboðar, sumir hirðar og kennarar.

12 Þeir eiga að fullkomna hina heilögu og láta þeim þjónustu í té, líkama Krists til uppbyggingar,

13 þangað til vér verðum allir einhuga í trúnni og þekkingunni á syni Guðs, verðum fullþroska og náum vaxtartakmarki Krists fyllingar.

14 Vér eigum ekki að halda áfram að vera börn, sem hrekjast og berast fram og aftur af hverjum kenningarvindi, tæld af slægum mönnum með vélabrögðum villunnar.

15 Vér eigum heldur að ástunda sannleikann í kærleika og vaxa í öllu upp til hans, sem er höfuðið, _ Kristur.

16 Hann tengir líkamann saman og heldur honum saman með því að láta sérhverja taug inna sína þjónustu af hendi, allt eftir þeim krafti, sem hann úthlutar hverri þeirra. Þannig lætur hann líkamann vaxa og byggjast upp í kærleika.

Jóhannesarguðspjall 6:24-35

24 Nú sáu menn, að Jesús var ekki þarna fremur en lærisveinar hans. Þeir stigu því í bátana og komu til Kapernaum í leit að Jesú.

25 Þeir fundu hann hinum megin við vatnið og spurðu hann: "Rabbí, nær komstu hingað?"

26 Jesús svaraði þeim: "Sannlega, sannlega segi ég yður: Þér leitið mín ekki af því, að þér sáuð tákn, heldur af því, að þér átuð af brauðunum og urðuð mettir.

27 Aflið yður eigi þeirrar fæðu, sem eyðist, heldur þeirrar fæðu, sem varir til eilífs lífs og Mannssonurinn mun gefa yður. Því á hann hefur faðirinn, Guð sjálfur, sett innsigli sitt."

28 Þá sögðu þeir við hann: "Hvað eigum vér að gjöra, svo að vér vinnum verk Guðs?"

29 Jesús svaraði þeim: "Þetta er verk Guðs, að þér trúið á þann, sem hann sendi."

30 Þeir spurðu hann þá: "Hvaða tákn gjörir þú, svo að vér sjáum og trúum þér? Hvað afrekar þú?

31 Feður vorir átu manna í eyðimörkinni, eins og ritað er: ,Brauð af himni gaf hann þeim að eta."`

32 Jesús sagði við þá: "Sannlega, sannlega segi ég yður: Móse gaf yður ekki brauðið af himni, heldur gefur faðir minn yður hið sanna brauð af himni.

33 Brauð Guðs er sá, sem stígur niður af himni og gefur heiminum líf."

34 Þá sögðu þeir við hann: "Herra, gef oss ætíð þetta brauð."

35 Jesús sagði þeim: "Ég er brauð lífsins. Þann mun ekki hungra, sem til mín kemur, og þann aldrei þyrsta, sem á mig trúir.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society