Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 51:1-12

51 Til söngstjórans. Sálmur Davíðs,

þá er Natan spámaður kom til hans, eftir að hann hafði gengið inn til Batsebu.

Guð, vertu mér náðugur sakir elsku þinnar, afmá brot mín sakir þinnar miklu miskunnsemi.

Þvo mig hreinan af misgjörð minni, hreinsa mig af synd minni,

því að ég þekki sjálfur afbrot mín, og synd mín stendur mér stöðugt fyrir hugskotssjónum.

Gegn þér einum hefi ég syndgað og gjört það sem illt er í augum þínum. Því ert þú réttlátur, er þú talar, hreinn, er þú dæmir.

Sjá, sekur var ég, er ég varð til, syndugur, er móðir mín fæddi mig.

Sjá, þú hefir þóknun á hreinskilni hið innra, og í fylgsnum hjartans kennir þú mér visku!

Hreinsa mig með ísóp, svo að ég verði hreinn, þvo mig, svo að ég verði hvítari en mjöll.

10 Lát mig heyra fögnuð og gleði, lát kætast beinin sem þú hefir sundurmarið.

11 Byrg auglit þitt fyrir syndum mínum og afmá allar misgjörðir mínar.

12 Skapa í mér hreint hjarta, ó Guð, og veit mér nýjan, stöðugan anda.

Jósúabók 23

23 Löngum tíma eftir þetta, þá er Drottinn hafði veitt Ísrael frið fyrir öllum óvinum þeirra hringinn í kring, og Jósúa var orðinn gamall og hniginn að aldri,

þá kallaði Jósúa saman allan Ísrael, öldunga hans og höfðingja, dómendur hans og tilsjónarmenn og sagði við þá: "Ég gjörist nú gamall og aldurhniginn.

Þér hafið sjálfir séð allt það, sem Drottinn Guð yðar, hefir gjört öllum þessum þjóðum yðar vegna, því að Drottinn Guð yðar hefir sjálfur barist fyrir yður.

Sjáið, með hlutkesti hefi ég úthlutað yður til handa löndum þessara þjóða, sem enn eru eftir, ættkvíslum yðar til eignar, og löndum þjóðanna, sem ég hefi eytt, allt frá Jórdan til hafsins mikla gegnt sólar setri.

Og Drottinn Guð yðar mun sjálfur reka þá burt frá yður og stökkva þeim undan yður, og þér munuð fá land þeirra til eignar, eins og Drottinn Guð yðar hefir heitið yður.

Reynist nú mjög staðfastir í því að halda og gjöra allt það, sem ritað er í lögmálsbók Móse, án þess að víkja frá því til hægri né vinstri,

svo að þér blandist eigi við þessar þjóðir, sem enn eru eftir hjá yður. Nefnið eigi guði þeirra á nafn, sverjið eigi við þá, þjónið þeim eigi og fallið eigi fram fyrir þeim,

heldur haldið yður fast við Drottin Guð yðar, eins og þér hafið gjört fram á þennan dag.

Fyrir því stökkti Drottinn undan yður miklum og voldugum þjóðum, og enginn hefir getað staðist fyrir yður fram á þennan dag.

10 Einn yðar elti þúsund, því að Drottinn Guð yðar barðist sjálfur fyrir yður, eins og hann hefir heitið yður.

11 Gætið þess því vandlega _ líf yðar liggur við _ að elska Drottin Guð yðar.

12 Því ef þér gjörist fráhverfir og samlagið yður leifum þjóða þessara, sem enn eru eftir hjá yður, mægist við þær og blandist við þær, og þær við yður,

13 þá vitið fyrir víst, að Drottinn Guð yðar mun eigi halda áfram að stökkva þessum þjóðum burt undan yður, heldur munu þær verða yður snara og fótakefli, svipa á síður yðar og þyrnar í augum yðar, uns þér eruð afmáðir úr þessu góða landi, sem Drottinn Guð yðar hefir gefið yður.

14 Sjá, ég geng nú veg allrar veraldar, en þér skuluð vita af öllu hjarta yðar og af allri sálu yðar, að ekkert hefir brugðist af öllum þeim fyrirheitum, er Drottinn Guð yðar hefir gefið yður. Öll hafa þau rætst, ekkert af þeim hefir brugðist.

15 En eins og öll þau fyrirheit, sem Drottinn Guð yðar hefir gefið yður, hafa rætst á yður, eins mun Drottinn láta allar hótanir sínar rætast á yður, uns hann hefir gjöreytt yður úr þessu góða landi, sem Drottinn Guð yðar hefir gefið yður.

16 Ef þér rjúfið sáttmála Drottins Guðs yðar, þann er hann fyrir yður lagði, og farið og þjónið öðrum guðum og fallið fram fyrir þeim, þá mun reiði Drottins upptendrast í gegn yður, og þér munuð fljótt hverfa úr landinu góða, sem hann hefir gefið yður."

Fyrra bréf Páls til Korin 11:27-34

27 Hver sem etur brauðið eða drekkur bikar Drottins óverðuglega, verður þess vegna sekur við líkama og blóð Drottins.

28 Hver maður prófi sjálfan sig og eti síðan af brauðinu og drekki af bikarnum.

29 Því að sá sem etur og drekkur án þess að dæma rétt um líkamann, hann etur og drekkur sjálfum sér til dóms.

30 Fyrir því eru svo margir sjúkir og krankir á meðal yðar, og allmargir deyja.

31 Ef vér dæmdum um sjálfa oss, yrðum vér ekki dæmdir.

32 En fyrst Drottinn dæmir oss, þá er hann að aga oss til þess að vér verðum ekki dæmdir sekir ásamt heiminum.

33 Fyrir því skuluð þér bíða hver eftir öðrum, bræður mínir, þegar þér komið saman til að matast.

34 Ef nokkur er hungraður, þá eti hann heima, til þess að samkomur yðar verði yður ekki til dóms. Annað mun ég segja til um, þegar ég kem.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society