Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
12 Óguðlegur maður býr yfir illu gegn réttlátum, nístir tönnum gegn honum.
13 Drottinn hlær að honum, því að hann sér að dagur hans kemur.
14 Óguðlegir bregða sverðinu og benda boga sína til þess að fella hinn hrjáða og snauða, til þess að brytja niður hina ráðvöndu.
15 En sverð þeirra lendir í þeirra eigin hjörtum, og bogar þeirra munu brotnir verða.
16 Betri er lítil eign réttláts manns en auðlegð margra illgjarnra,
17 því að armleggur illgjarnra verður brotinn, en réttláta styður Drottinn.
18 Drottinn þekkir daga ráðvandra, og arfleifð þeirra varir að eilífu.
19 Á vondum tímum verða þeir eigi til skammar, á hallæristímum hljóta þeir saðning.
20 En óguðlegir farast, og óvinir Drottins eru sem skraut vallarins: þeir hverfa _ sem reykur hverfa þeir.
21 Guðlaus maður tekur lán og borgar eigi, en hinn réttláti er mildur og örlátur.
22 Því að þeir sem Drottinn blessar, fá landið til eignar, en hinum bannfærðu verður útrýmt.
29 Annað af sögu Salómons er frá upphafi til enda skráð í Sögu Natans spámanns og í Spádómi Ahía frá Síló og í Vitrun Íddós sjáanda um Jeróbóam Nebatsson.
30 Salómon ríkti í Jerúsalem yfir öllum Ísrael í fjörutíu ár.
31 Og hann lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum og var jarðaður í borg Davíðs föður síns. Og Rehabeam sonur hans tók ríki eftir hann.
35 Þá er mjög var áliðið dags, komu lærisveinar hans að máli við hann og sögðu: "Hér er engin mannabyggð og langt á daginn liðið.
36 Lát þá fara, að þeir geti náð til býla og þorpa hér í kring og keypt sér eitthvað til matar."
37 En hann svaraði þeim: "Gefið þeim sjálfir að eta." Þeir svara honum: "Eigum vér að fara og kaupa brauð fyrir tvö hundruð denara og gefa þeim að eta?"
38 Jesús spyr þá: "Hve mörg brauð hafið þér? Farið og gætið að." Þeir hugðu að og svöruðu: "Fimm brauð og tvo fiska."
39 Þá bauð hann þeim að láta alla setjast í grængresið og skipta sér í hópa.
40 Þeir settust niður í flokkum, hundrað í sumum, en fimmtíu í öðrum.
41 Og hann tók brauðin fimm og fiskana tvo, leit upp til himins, þakkaði Guði, braut brauðin og gaf lærisveinunum til að bera fram fyrir mannfjöldann. Fiskunum tveim skipti hann og meðal allra.
42 Og þeir neyttu allir og urðu mettir.
43 Þeir tóku saman brauðbitana, er fylltu tólf körfur, svo og fiskleifarnar.
44 En þeir, sem brauðanna neyttu, voru fimm þúsund karlmenn.
by Icelandic Bible Society