Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 37:12-22

12 Óguðlegur maður býr yfir illu gegn réttlátum, nístir tönnum gegn honum.

13 Drottinn hlær að honum, því að hann sér að dagur hans kemur.

14 Óguðlegir bregða sverðinu og benda boga sína til þess að fella hinn hrjáða og snauða, til þess að brytja niður hina ráðvöndu.

15 En sverð þeirra lendir í þeirra eigin hjörtum, og bogar þeirra munu brotnir verða.

16 Betri er lítil eign réttláts manns en auðlegð margra illgjarnra,

17 því að armleggur illgjarnra verður brotinn, en réttláta styður Drottinn.

18 Drottinn þekkir daga ráðvandra, og arfleifð þeirra varir að eilífu.

19 Á vondum tímum verða þeir eigi til skammar, á hallæristímum hljóta þeir saðning.

20 En óguðlegir farast, og óvinir Drottins eru sem skraut vallarins: þeir hverfa _ sem reykur hverfa þeir.

21 Guðlaus maður tekur lán og borgar eigi, en hinn réttláti er mildur og örlátur.

22 Því að þeir sem Drottinn blessar, fá landið til eignar, en hinum bannfærðu verður útrýmt.

Síðari Samúelsbók 11:22-27

22 Síðan fór sendimaðurinn og kom og flutti Davíð allt, sem Jóab hafði fyrir hann lagt, hvernig farið hefði í orustunni. Varð þá Davíð reiður Jóab og sagði við sendimanninn: "Hví fóruð þér svo nærri borginni í orustu? Vissuð þér ekki að það mundi verða kastað á yður ofan af borgarveggnum? Hver felldi Abímelek Jerúbbesetsson? Kastaði ekki kona kvarnarsteini á hann ofan af borgarveggnum, svo að hann dó í Tebes? Hví fóruð þér svo nærri borgarveggnum?"

23 Þá sagði sendimaðurinn við Davíð: "Mennirnir voru oss yfirsterkari og voru komnir í móti oss út á bersvæði. Fyrir því urðum vér að sækja að þeim allt að borgarhliðinu.

24 En þá skutu skotmennirnir á þjóna þína niður af borgarveggnum, og féllu þá nokkrir af mönnum konungs, og þjónn þinn, Úría Hetíti, lét og lífið."

25 Þá sagði Davíð við sendimanninn: "Svo skalt þú segja Jóab: ,Láttu þetta ekki á þig fá, því að sverðið verður ýmist þessum eða hinum að bana. Sæk þú vasklega að borginni og brjót hana` _ og teldu þannig hug í hann."

26 En er kona Úría frétti, að maður hennar Úría var fallinn, harmaði hún bónda sinn.

27 En þegar sorgardagarnir voru liðnir, sendi Davíð og tók hana heim til sín, og hún varð kona hans og fæddi honum son. En Drottni mislíkaði það, sem Davíð hafði gjört.

Bréf Páls til Rómverja 15:22-33

22 Því er það, að mér hefur hvað eftir annað verið meinað að koma til yðar.

23 En nú á ég ekki lengur neitt ógjört á þessum slóðum, og mig hefur auk þess í mörg ár langað til að koma til yðar,

24 þegar ég færi til Spánar. Ég vona, að ég fái að sjá yður, er ég fer um hjá yður, og að þér búið ferð mína þangað, er ég fyrst hef nokkurn veginn fengið nægju mína hjá yður.

25 En nú fer ég á leið til Jerúsalem til að flytja hinum heilögu hjálp.

26 Því að Makedónía og Akkea hafa ákveðið að gangast fyrir samskotum handa fátæklingum meðal hinna heilögu í Jerúsalem.

27 Sjálfir ákváðu þeir það, enda eru þeir í skuld við þá. Fyrst heiðingjarnir hafa fengið hlutdeild í andlegum gæðum þeirra, þá er þeim og skylt að fulltingja þeim í líkamlegum efnum.

28 En þegar ég hef lokið þessu og tryggilega afhent þeim þennan ávöxt, mun ég fara um hjá yður til Spánar.

29 En ég veit, að þegar ég kem til yðar, mun ég koma með blessun Krists í fullum mæli.

30 En mikillega bið ég yður, bræður, fyrir sakir Drottins vors Jesú Krists og fyrir sakir kærleika andans, að þér stríðið með mér með því að biðja til Guðs fyrir mér,

31 til þess að ég frelsist frá hinum vantrúuðu í Júdeu, og hjálpin, sem ég fer með til Jerúsalem, verði vel þegin af hinum heilögu.

32 Þá get ég, ef Guð lofar, komið til yðar með fögnuði og endurhresstst ásamt yður.

33 Guð friðarins sé með yður öllum. Amen.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society