Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
11 Svo bar til árið eftir, um það leyti sem konungar eru vanir að fara í hernað, að Davíð sendi Jóab af stað með menn sína og allan Ísrael. Þeir herjuðu á Ammóníta og settust um Rabba, en Davíð sat heima í Jerúsalem.
2 Nú vildi svo til eitt kvöld, að Davíð reis upp úr hvílu sinni og fór að ganga um gólf uppi á þaki konungshallarinnar. Sá hann þá ofan af þakinu konu vera að lauga sig. En konan var forkunnar fögur.
3 Þá sendi Davíð og spurðist fyrir um konuna, og var honum sagt: "Það er Batseba Elíamsdóttir, kona Úría Hetíta."
4 Og Davíð sendi menn og lét sækja hana. Og hún kom til hans, og hann lagðist með henni, því að hún hafði hreinsað sig af óhreinleika sínum. Síðan fór hún aftur heim til sín.
5 En konan var þunguð orðin, og hún sendi og lét Davíð vita það og mælti: "Ég er með barni."
6 Davíð gjörði þá Jóab boð: "Sendu Úría Hetíta til mín." Og Jóab sendi Úría til Davíðs.
7 En er Úría kom á hans fund, spurði Davíð, hvernig Jóab liði og hvernig honum liði og hvernig hernaðurinn gengi.
8 Því næst sagði Davíð við Úría: "Gakk þú nú heim til þín og lauga fætur þína." Gekk Úría þá burt úr konungshöllinni, og var gjöf frá konungi borin á eftir honum.
9 En Úría lagðist til hvíldar fyrir dyrum konungshallarinnar hjá öðrum þjónum herra síns, en fór ekki heim til sín.
10 Menn sögðu Davíð frá því og mæltu: "Úría er ekki farinn heim til sín." Þá sagði Davíð við Úría: "Þú ert kominn úr ferð, _ hvers vegna ferð þú ekki heim til þín?"
11 Þá sagði Úría við Davíð: "Örkin og Ísrael og Júda búa í laufskálum, og herra minn Jóab og menn herra míns hafast við úti á bersvæði, _ og þá ætti ég að fara heim til mín til þess að eta og drekka og hvíla hjá konu minni? Svo sannarlega sem Drottinn lifir og þú lifir, það gjöri ég ekki."
12 Þá sagði Davíð við Úría: "Vertu þá hér líka í dag, en á morgun gef ég þér fararleyfi." Var Úría þann dag í Jerúsalem.
13 Daginn eftir hafði Davíð hann í boði sínu, og hann át og drakk með honum, og hann gjörði hann drukkinn. En um kvöldið gekk hann burt og lagðist til hvíldar hjá þjónum herra síns, en fór ekki heim til sín.
14 Morguninn eftir skrifaði Davíð Jóab bréf og sendi það með Úría.
15 Í bréfinu skrifaði hann svo: "Setjið Úría fremstan í bardagann, þar sem hann er harðastur, og hörfið aftur undan frá honum, svo að hann verði ofurliði borinn og falli."
14 Til söngstjórans. Davíðssálmur. Heimskinginn segir í hjarta sínu: "Guð er ekki til." Ill og andstyggileg er breytni þeirra, enginn gjörir það sem gott er.
2 Drottinn lítur af himni niður á mennina til þess að sjá, hvort nokkur sé hygginn, nokkur sem leiti Guðs.
3 Allir eru viknir af leið, allir spilltir, enginn gjörir það sem gott er _ ekki einn.
4 Skyldu þeir ekki fá að kenna á því, allir illgjörðamennirnir, þeir er eta lýð minn sem brauð væri og ákalla eigi Drottin?
5 Þá skulu þeir verða mjög óttaslegnir, því að Guð er hjá kynslóð réttlátra.
6 Þér megið láta ráð hinna hrjáðu til skammar verða, því að Drottinn er samt athvarf þeirra.
7 Ó að hjálpræði Ísraels komi frá Síon! Þegar Drottinn snýr við hag lýðs síns, skal Jakob fagna og Ísrael gleðjast.
14 Þess vegna beygi ég kné mín fyrir föðurnum,
15 sem hvert faðerni fær nafn af á himni og jörðu.
16 Megi hann gefa yður af ríkdómi dýrðar sinnar að styrkjast fyrir anda sinn að krafti hið innra með yður,
17 til þess að Kristur megi fyrir trúna búa í hjörtum yðar og þér verða rótfestir og grundvallaðir í kærleika.
18 Þá fáið þér ásamt öllum heilögum skilið, hve kærleikur Krists er víður og langur, hár og djúpur, og komist að raun um hann,
19 sem gnæfir yfir alla þekkingu, og náið að fyllast allri Guðs fyllingu.
20 En honum, sem í oss verkar með krafti sínum og megnar að gjöra langt fram yfir allt það, sem vér biðjum eða skynjum,
21 honum sé dýrð í kirkjunni og í Kristi Jesú um öll æviskeið, öld eftir öld. Amen.
6 Eftir þetta fór Jesús yfir um Galíleuvatn eða Tíberíasvatn.
2 Mikill fjöldi manna fylgdi honum, því þeir sáu þau tákn, er hann gjörði á sjúku fólki.
3 Þá fór Jesús upp á fjallið og settist þar niður með lærisveinum sínum.
4 Þetta var laust fyrir páska, hátíð Gyðinga.
5 Jesús leit upp og sá, að mikill mannfjöldi kom til hans. Hann segir þá við Filippus: "Hvar eigum vér að kaupa brauð, að þessir menn fái að eta?"
6 En þetta sagði hann til að reyna hann, því hann vissi sjálfur, hvað hann ætlaði að gjöra.
7 Filippus svaraði honum: "Brauð fyrir tvö hundruð denara nægðu þeim ekki, svo að hver fengi lítið eitt."
8 Annar lærisveinn hans, Andrés, bróðir Símonar Péturs, segir þá við hann:
9 "Hér er piltur, sem er með fimm byggbrauð og tvo fiska, en hvað er það handa svo mörgum?"
10 Jesús sagði: "Látið fólkið setjast niður." Þarna var gras mikið. Menn settust nú niður, um fimm þúsund karlmenn að tölu.
11 Nú tók Jesús brauðin, gjörði þakkir og skipti þeim út til þeirra, sem þar sátu, og eins af fiskunum, svo mikið sem þeir vildu.
12 Þegar þeir voru mettir, segir hann við lærisveina sína: "Safnið saman leifunum, svo ekkert spillist."
13 Þeir söfnuðu þeim saman og fylltu tólf körfur með leifum byggbrauðanna fimm, sem af gengu hjá þeim, er neytt höfðu.
14 Þegar menn sáu táknið, sem hann gjörði, sögðu þeir: "Þessi maður er sannarlega spámaðurinn, sem koma skal í heiminn."
15 Jesús vissi nú, að þeir mundu koma og taka hann með valdi til að gjöra hann að konungi, og vék því aftur upp til fjallsins einn síns liðs.
16 Þegar kvöld var komið, fóru lærisveinar hans niður að vatninu,
17 stigu út í bát og lögðu af stað yfir um vatnið til Kapernaum. Myrkur var skollið á, og Jesús var ekki enn kominn til þeirra.
18 Vind gerði hvassan, og tók vatnið að æsast.
19 Þegar þeir höfðu róið hér um bil tuttugu og fimm eða þrjátíu skeiðrúm, sáu þeir Jesú gangandi á vatninu og nálgast bátinn. Þeir urðu hræddir,
20 en hann sagði við þá: "Það er ég, óttist eigi."
21 Þeir vildu þá taka hann í bátinn, en í sömu svifum rann báturinn að landi, þar sem þeir ætluðu að lenda.
by Icelandic Bible Society