Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 14

14 Til söngstjórans. Davíðssálmur. Heimskinginn segir í hjarta sínu: "Guð er ekki til." Ill og andstyggileg er breytni þeirra, enginn gjörir það sem gott er.

Drottinn lítur af himni niður á mennina til þess að sjá, hvort nokkur sé hygginn, nokkur sem leiti Guðs.

Allir eru viknir af leið, allir spilltir, enginn gjörir það sem gott er _ ekki einn.

Skyldu þeir ekki fá að kenna á því, allir illgjörðamennirnir, þeir er eta lýð minn sem brauð væri og ákalla eigi Drottin?

Þá skulu þeir verða mjög óttaslegnir, því að Guð er hjá kynslóð réttlátra.

Þér megið láta ráð hinna hrjáðu til skammar verða, því að Drottinn er samt athvarf þeirra.

Ó að hjálpræði Ísraels komi frá Síon! Þegar Drottinn snýr við hag lýðs síns, skal Jakob fagna og Ísrael gleðjast.

Síðari Samúelsbók 10:13-19

13 Síðan lagði Jóab og liðið, sem með honum var, til orustu við Sýrlendinga, og þeir flýðu fyrir honum.

14 En er Ammónítar sáu, að Sýrlendingar flýðu, lögðu þeir og á flótta fyrir Abísaí og leituðu inn í borgina. En Jóab sneri heim frá Ammónítum og fór til Jerúsalem.

15 Þegar Sýrlendingar sáu, að þeir höfðu beðið ósigur fyrir Ísrael, söfnuðust þeir saman.

16 Og Hadadeser sendi boð og bauð út Sýrlendingum, sem voru hinumegin við Efrat, og þeir komu til Helam, og Sóbak, hershöfðingi Hadadesers, var fyrir þeim.

17 Og er Davíð var sagt frá því, þá safnaði hann saman öllum Ísrael, fór yfir Jórdan og kom til Helam. Sýrlendingar fylktu liði sínu í móti Davíð og börðust við hann.

18 En Sýrlendingar flýðu fyrir Ísrael, og Davíð felldi sjö hundruð vagnkappa og fjörutíu þúsund manns af Sýrlendingum. Hann særði og hershöfðingja þeirra, Sóbak, svo að hann dó þar.

19 En er konungarnir, sem voru lýðskyldir Hadadeser, sáu, að þeir höfðu beðið ósigur fyrir Ísrael, sömdu þeir allir frið við Ísrael og gjörðust lýðskyldir honum. Upp frá því þorðu Sýrlendingar ekki að veita Ammónítum lið.

Jóhannesarguðspjall 4:31-38

31 Meðan þessu fór fram, báðu lærisveinarnir hann: "Rabbí, fá þér að eta."

32 Hann svaraði þeim: "Ég hef mat að eta, sem þér vitið ekki um."

33 Þá sögðu lærisveinarnir sín á milli: "Skyldi nokkur hafa fært honum að eta?"

34 Jesús sagði við þá: "Minn matur er að gjöra vilja þess, sem sendi mig, og fullna verk hans.

35 Segið þér ekki: Enn eru fjórir mánuðir, þá kemur uppskeran? En ég segi yður: Lítið upp og horfið á akrana, þeir eru hvítir til uppskeru.

36 Sá sem upp sker, tekur þegar laun og safnar ávexti til eilífs lífs, svo að sá gleðjist, er sáir, og með honum hinn, sem upp sker.

37 Hér sannast orðtakið: Einn sáir, og annar sker upp.

38 Ég sendi yður að skera upp það sem þér hafið ekki unnið við. Aðrir hafa erfiðað, en þér eruð gengnir inn í erfiði þeirra."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society