Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
61 Til söngstjórans. Með strengjaleik. Eftir Davíð.
2 Heyr, ó Guð, hróp mitt, gef gaum bæn minni.
3 Frá endimörkum jarðar hrópa ég til þín, meðan hjarta mitt örmagnast. Hef mig upp á bjarg það, sem mér er of hátt.
4 Leið mig, því að þú ert orðinn mér hæli, öruggt vígi gegn óvinum.
5 Lát mig gista í tjaldi þínu um eilífð, leita hælis í skjóli vængja þinna. [Sela]
6 Því að þú, ó Guð, hefir heyrt heit mín, þú hefir uppfyllt óskir þeirra er óttast nafn þitt.
7 Þú munt lengja lífdaga konungs, láta ár hans vara frá kyni til kyns.
8 Hann skal sitja um eilífð frammi fyrir Guði, lát miskunn og trúfesti varðveita hann.
9 Þá vil ég lofsyngja nafni þínu um aldur, og efna heit mín dag frá degi.
9 Davíð sagði: "Er nú nokkur maður eftir orðinn af húsi Sáls? Honum vil ég miskunn auðsýna fyrir sakir Jónatans."
2 Af húsi Sáls var til maður, er Síba hét. Hann var kallaður á fund Davíðs. Og konungur sagði við hann: "Ert þú Síba?" Hann svaraði: "Þinn þjónn!"
3 Þá mælti konungur: "Er nokkur eftir af húsi Sáls, að ég megi auðsýna honum miskunn Guðs?" Síba sagði við konung: "Enn er á lífi sonur Jónatans og er lami á báðum fótum."
4 Þá sagði konungur við hann: "Hvar er hann?" Síba sagði við konung: "Hann er í húsi Makírs Ammíelssonar í Lódebar."
5 Þá sendi Davíð konungur og lét sækja hann í hús Makírs Ammíelssonar í Lódebar.
6 Og Mefíbóset Jónatansson, Sálssonar, gekk fyrir Davíð, féll fram á ásjónu sína og laut honum. Og Davíð sagði: "Mefíbóset!" Hann svaraði: "Hér er þjónn þinn."
7 Þá mælti Davíð til hans: "Ver þú óhræddur, því að ég vil auðsýna þér miskunn fyrir sakir Jónatans, föður þíns, og fá þér aftur allar jarðeignir Sáls forföður þíns, og þú skalt jafnan eta við mitt borð."
8 Þá laut hann og mælti: "Hvað er þjónn þinn þess, að þú skiptir þér af dauðum hundi, eins og mér?"
9 Síðan kallaði konungur á Síba, þjón Sáls, og mælti til hans: "Allt sem Sál átti, og allt sem hús hans átti gef ég syni herra þíns.
10 Skalt þú nú yrkja landið fyrir hann ásamt sonum þínum og þrælum og hirða af því, svo að sonur herra þíns hafi fæðu og megi eta. En Mefíbóset, sonur herra þíns, skal jafnan eta við mitt borð." Og Síba átti fimmtán sonu og tuttugu þræla.
11 Síba sagði við konung: "Þjónn þinn mun gjöra að öllu svo sem minn herra konungurinn hefir boðið þjóni sínum." Og Mefíbóset át við borð Davíðs, svo sem væri hann einn konungssona.
12 Mefíbóset átti ungan son, sem Míka hét. Allir sem bjuggu í húsi Síba, voru þjónar Mefíbósets.
13 En Mefíbóset bjó í Jerúsalem, því að hann át jafnan við borð konungs. Hann var haltur á báðum fótum.
15 Allir tollheimtumenn og bersyndugir komu til Jesú að hlýða á hann,
2 en farísear og fræðimenn ömuðust við því og sögðu: "Þessi maður tekur að sér syndara og samneytir þeim."
3 En hann sagði þeim þessa dæmisögu:
4 "Nú á einhver yðar hundrað sauði og týnir einum þeirra. Skilur hann ekki þá níutíu og níu eftir í óbyggðinni og fer eftir þeim, sem týndur er, þar til hann finnur hann?
5 Og glaður leggur hann sauðinn á herðar sér, er hann finnur hann.
6 Þegar hann kemur heim, kallar hann saman vini sína og nágranna og segir við þá: ,Samgleðjist mér, því að ég hef fundið sauðinn minn, sem týndur var.`
7 Ég segi yður, þannig verður meiri fögnuður á himni yfir einum syndara, sem gjörir iðrun, en yfir níutíu og níu réttlátum, sem ekki hafa iðrunar þörf.
by Icelandic Bible Society