Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 61

61 Til söngstjórans. Með strengjaleik. Eftir Davíð.

Heyr, ó Guð, hróp mitt, gef gaum bæn minni.

Frá endimörkum jarðar hrópa ég til þín, meðan hjarta mitt örmagnast. Hef mig upp á bjarg það, sem mér er of hátt.

Leið mig, því að þú ert orðinn mér hæli, öruggt vígi gegn óvinum.

Lát mig gista í tjaldi þínu um eilífð, leita hælis í skjóli vængja þinna. [Sela]

Því að þú, ó Guð, hefir heyrt heit mín, þú hefir uppfyllt óskir þeirra er óttast nafn þitt.

Þú munt lengja lífdaga konungs, láta ár hans vara frá kyni til kyns.

Hann skal sitja um eilífð frammi fyrir Guði, lát miskunn og trúfesti varðveita hann.

Þá vil ég lofsyngja nafni þínu um aldur, og efna heit mín dag frá degi.

Síðari Samúelsbók 7:18-29

18 Þá gekk Davíð konungur inn og settist niður frammi fyrir Drottni og mælti: "Hver er ég, Drottinn Guð, og hvað er hús mitt, að þú skulir hafa leitt mig til þessa?

19 Og þér nægði það eigi, Drottinn Guð, heldur hefir þú og fyrirheit gefið um hús þjóns þíns langt fram í aldir, og það meira að segja á mannlegan hátt, Drottinn Guð.

20 En hvað má Davíð enn við þig mæla? Þú þekkir sjálfur þjón þinn, Drottinn Guð!

21 Sakir þjóns þíns og að þínum vilja hefir þú gjört þetta, að boða þjóni þínum alla þessa miklu hluti.

22 Fyrir því ert þú mikill, Drottinn Guð, því að enginn er sem þú, og enginn er Guð nema þú samkvæmt öllu því, er vér höfum heyrt með eyrum vorum.

23 Og hvaða þjóð önnur á jörðinni jafnast við þína þjóð, Ísrael, að Guð hafi framgengið og endurleyst hana sér að eignarlýð og aflað sér frægðar? Þú gjörðir fyrir þá þessa miklu hluti og hræðilegu, að stökkva burt þjóðum og guðum þeirra undan þínu fólki, sem þú hafðir endurleyst af Egyptalandi.

24 Þú hefir gjört lýð þinn Ísrael að þínum lýð um aldur og ævi, og þú, Drottinn, gjörðist Guð þeirra.

25 Og lát þú, Drottinn Guð, fyrirheit það, er þú hefir gefið um þjón þinn og um hús hans, stöðugt standa um aldur og ævi, og gjör þú svo sem þú hefir heitið.

26 Þá mun nafn þitt mikið verða að eilífu og hljóða svo: Drottinn allsherjar, Guð yfir Ísrael _ og hús þjóns þíns Davíðs mun stöðugt standa fyrir þér.

27 Því að þú, Drottinn allsherjar, Guð Ísraels, hefir birt þjóni þínum þetta: ,Ég mun reisa þér hús.` Fyrir því hafði þjónn þinn djörfung til að bera þessa bæn fram fyrir þig.

28 Og nú, Drottinn Guð, þú ert Guð og þín orð eru sannleikur, og þú hefir gefið þjóni þínum þetta dýrlega fyrirheit.

29 Virst þú nú að blessa hús þjóns þíns, svo að það sé til að eilífu fyrir þínu augliti. Því að þú, Drottinn Guð, hefir fyrirheit gefið, og fyrir blessun þína mun hús þjóns þíns blessað verða að eilífu."

Bréfið til Hebrea 13:17-24

17 Hlýðið leiðtogum yðar og verið þeim eftirlátir. Þeir vaka yfir sálum yðar og eiga að lúka reikning fyrir þær. Verið þeim eftirlátir til þess að þeir geti gjört það með gleði, ekki andvarpandi. Það væri yður til ógagns.

18 Biðjið fyrir oss, því að vér erum þess fullvissir, að vér höfum góða samvisku og viljum í öllum greinum breyta vel.

19 Ég bið yður enn rækilegar um að gjöra þetta, til þess að þér fáið mig brátt aftur heimtan.

20 En Guð friðarins, er leiddi hinn mikla hirði sauðanna, Drottin vorn Jesú, upp frá dauðum með blóði eilífs sáttmála,

21 hann fullkomni yður í öllu góðu til að gjöra vilja hans og komi því til leiðar í oss, sem þóknanlegt er í hans augum, fyrir Jesú Krist. Honum sé dýrð um aldir alda. Amen.

22 Ég bið yður, bræður, að þér takið vel þessum áminningarorðum. Fáort hef ég ritað yður.

23 Vita skuluð þér, að bróðir vor Tímóteus hefur verið látinn laus og ásamt honum mun ég heimsækja yður, komi hann bráðum.

24 Berið kveðju öllum leiðtogum yðar og öllum heilögum. Mennirnir frá Ítalíu senda yður kveðju.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society