Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Síðari Samúelsbók 7:1-14

Svo bar til, þá er konungur sat í höll sinni _ en Drottinn hafði þá veitt honum frið fyrir öllum óvinum hans allt í kring _,

að konungur sagði við Natan spámann: "Sjá, ég bý í höll af sedrusviði, en örk Guðs býr undir tjalddúk."

Natan svaraði konungi: "Far þú og gjör allt, sem þér er í hug, því að Drottinn er með þér."

En hina sömu nótt kom orð Drottins til Natans, svohljóðandi:

"Far og seg þjóni mínum Davíð: Svo segir Drottinn: Ætlar þú að reisa mér hús til að búa í?

Ég hefi ekki búið í húsi, síðan ég leiddi Ísraelsmenn út af Egyptalandi, allt fram á þennan dag, heldur ferðaðist ég í tjaldi og búð.

Alla þá stund, er ég hefi um farið meðal Ísraelsmanna, hefi ég þá sagt nokkurt orð í þá átt við nokkurn af dómurum Ísraels, er ég setti til að vera hirða lýðs míns, Ísraels: ,Hví reisið þér mér ekki hús af sedrusviði?`

Nú skalt þú svo segja þjóni mínum Davíð: Svo segir Drottinn allsherjar: Ég tók þig úr haglendinu, frá hjarðmennskunni, og setti þig höfðingja yfir lýð minn, Ísrael.

Ég hefi verið með þér í öllu, sem þú hefir tekið þér fyrir hendur, og upprætt alla óvini þína fyrir þér. Ég mun gjöra nafn þitt sem nafn hinna mestu manna, sem á jörðinni eru,

10 og fá lýð mínum Ísrael stað og gróðursetja hann þar, svo að hann geti búið á sínum stað og geti verið öruggur framvegis. Níðingar skulu ekki þjá hann framar eins og áður,

11 frá því er ég setti dómara yfir lýð minn Ísrael, og ég vil veita þér frið fyrir öllum óvinum þínum. Og Drottinn boðar þér, að hann muni reisa þér hús.

12 Þegar ævi þín er öll og þú leggst hjá feðrum þínum, mun ég hefja son þinn eftir þig, þann er frá þér kemur, og staðfesta konungdóm hans.

13 Hann skal reisa hús mínu nafni, og ég mun staðfesta konungsstól hans að eilífu.

14 Ég vil vera honum faðir, og hann skal vera mér sonur, svo að þótt honum yfirsjáist, þá mun ég hirta hann með manna vendi og manns barna höggum,

Sálmarnir 89:20-37

20 Þá talaðir þú í sýn til dýrkanda þíns og sagðir: "Ég hefi sett kórónu á kappa, ég hefi upphafið útvaldan mann af lýðnum.

21 Ég hefi fundið Davíð þjón minn, smurt hann með minni heilögu olíu.

22 Hönd mín mun gjöra hann stöðugan og armleggur minn styrkja hann.

23 Óvinurinn skal eigi ráðast að honum, og ekkert illmenni skal kúga hann,

24 heldur skal ég gjöra út af við fjendur hans að honum ásjáandi, og hatursmenn hans skal ég ljósta.

25 Trúfesti mín og miskunn skulu vera með honum, og fyrir sakir nafns míns skal horn hans gnæfa hátt.

26 Ég legg hönd hans á hafið og hægri hönd hans á fljótin.

27 Hann mun segja við mig: Þú ert faðir minn, Guð minn og klettur hjálpræðis míns.

28 Og ég vil gjöra hann að frumgetning, að hinum hæsta meðal konunga jarðarinnar.

29 Ég vil varðveita miskunn mína við hann að eilífu, og sáttmáli minn við hann skal stöðugur standa.

30 Ég læt niðja hans haldast við um aldur og hásæti hans meðan himinninn er til.

31 Ef synir hans hafna lögmáli mínu og ganga eigi eftir boðum mínum,

32 ef þeir vanhelga lög mín og varðveita eigi boðorð mín,

33 þá vil ég vitja afbrota þeirra með vendinum og misgjörða þeirra með plágum,

34 en miskunn mína mun ég ekki frá honum taka og eigi bregða trúfesti minni.

35 Ég vil eigi vanhelga sáttmála minn og eigi breyta því, er mér hefir af vörum liðið.

36 Ég hefi einu sinni svarið við heilagleik minn og mun aldrei svíkja Davíð:

37 Niðjar hans skulu haldast við um aldur og hásæti hans sem sólin fyrir mér.

Bréf Páls til Efesusmanna 2:11-22

11 Þér skuluð því minnast þessa: Þér voruð forðum fæddir heiðingjar og kallaðir óumskornir af mönnum, sem kalla sig umskorna og eru umskornir á holdi með höndum manna.

12 Sú var tíðin, er þér voruð án Krists, lokaðir úti frá þegnrétti Ísraelsmanna. Þér stóðuð fyrir utan sáttmálana og fyrirheit Guðs, vonlausir og guðvana í heiminum.

13 Nú þar á móti eruð þér, sem eitt sinn voruð fjarlægir, orðnir nálægir í Kristi, fyrir blóð hans.

14 Því að hann er vor friður. Hann gjörði báða að einum og reif niður vegginn, sem skildi þá að, fjandskapinn milli þeirra. Með líkama sínum

15 afmáði hann lögmálið með boðorðum þess og skipunum til þess að setja frið og skapa í sér einn nýjan mann úr báðum.

16 Í einum líkama sætti hann þá báða við Guð á krossinum, þar sem hann deyddi fjandskapinn.

17 Og hann kom og boðaði frið yður, sem fjarlægir voruð, og frið hinum, sem nálægir voru.

18 Því að fyrir hann eigum vér hvorir tveggja aðgang til föðurins í einum anda.

19 Þess vegna eruð þér ekki framar gestir og útlendingar, heldur eruð þér samþegnar hinna heilögu og heimamenn Guðs.

20 Þér eruð bygging, sem hefur að grundvelli postulana og spámennina, en Krist Jesú sjálfan að hyrningarsteini.

21 Í honum er öll byggingin samantengd og vex svo, að hún verður heilagt musteri í Drottni.

22 Í honum verðið þér líka bústaður handa Guði fyrir anda hans.

Markúsarguðspjall 6:30-34

30 Postularnir komu nú aftur til Jesú og sögðu honum frá öllu því, er þeir höfðu gjört og kennt.

31 Hann sagði við þá: "Komið þér nú á óbyggðan stað, svo að vér séum einir saman, og hvílist um stund." En fjöldi fólks var stöðugt að koma og fara, svo að þeir höfðu ekki einu sinni næði til að matast.

32 Og þeir fóru á bátnum einir saman á óbyggðan stað.

33 Menn sáu þá fara, og margir þekktu þá, og nú streymdi fólk þangað gangandi úr öllum borgunum og varð á undan þeim.

34 Þegar Jesús steig á land, sá hann þar mikinn mannfjölda, og hann kenndi í brjósti um þá, því að þeir voru sem sauðir, er engan hirði hafa. Og hann kenndi þeim margt.

Markúsarguðspjall 6:53-56

53 Þegar þeir höfðu náð yfir um, komu þeir að landi við Genesaret og lögðu þar að.

54 Um leið og þeir stigu úr bátnum, þekktu menn hann.

55 Og fólk tók að streyma fram og aftur um allt það hérað og bera sjúklinga í burðarrekkjum hvert þangað, sem þeir heyrðu, að hann væri.

56 Og hvar sem hann kom í þorp, borgir eða á bæi, lögðu menn sjúka á torgin og báðu hann, að þeir fengju rétt að snerta fald klæða hans, og allir þeir, sem snertu hann, urðu heilir.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society