Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
20 Þá talaðir þú í sýn til dýrkanda þíns og sagðir: "Ég hefi sett kórónu á kappa, ég hefi upphafið útvaldan mann af lýðnum.
21 Ég hefi fundið Davíð þjón minn, smurt hann með minni heilögu olíu.
22 Hönd mín mun gjöra hann stöðugan og armleggur minn styrkja hann.
23 Óvinurinn skal eigi ráðast að honum, og ekkert illmenni skal kúga hann,
24 heldur skal ég gjöra út af við fjendur hans að honum ásjáandi, og hatursmenn hans skal ég ljósta.
25 Trúfesti mín og miskunn skulu vera með honum, og fyrir sakir nafns míns skal horn hans gnæfa hátt.
26 Ég legg hönd hans á hafið og hægri hönd hans á fljótin.
27 Hann mun segja við mig: Þú ert faðir minn, Guð minn og klettur hjálpræðis míns.
28 Og ég vil gjöra hann að frumgetning, að hinum hæsta meðal konunga jarðarinnar.
29 Ég vil varðveita miskunn mína við hann að eilífu, og sáttmáli minn við hann skal stöðugur standa.
30 Ég læt niðja hans haldast við um aldur og hásæti hans meðan himinninn er til.
31 Ef synir hans hafna lögmáli mínu og ganga eigi eftir boðum mínum,
32 ef þeir vanhelga lög mín og varðveita eigi boðorð mín,
33 þá vil ég vitja afbrota þeirra með vendinum og misgjörða þeirra með plágum,
34 en miskunn mína mun ég ekki frá honum taka og eigi bregða trúfesti minni.
35 Ég vil eigi vanhelga sáttmála minn og eigi breyta því, er mér hefir af vörum liðið.
36 Ég hefi einu sinni svarið við heilagleik minn og mun aldrei svíkja Davíð:
37 Niðjar hans skulu haldast við um aldur og hásæti hans sem sólin fyrir mér.
15 Davíð byggði hús handa sér í Davíðsborg, og hann bjó stað handa örk Guðs og reisti tjald fyrir hana.
2 Þá sagði Davíð: "Enginn má bera örk Guðs nema levítarnir, því að þá hefir Drottinn valið til þess að bera örk Guðs og til þess að þjóna sér að eilífu."
4 Davíð setti menn af levítum til þess að gegna þjónustu frammi fyrir örk Drottins og til þess að tigna, lofa og vegsama Drottin, Guð Ísraels.
5 Var Asaf helstur þeirra og honum næstur gekk Sakaría, þá Jeíel, Semíramót, Jehíel, Mattitja, Elíab, Benaja, Óbeð Edóm og Jeíel með hljóðfærum, hörpum og gígjum, en Asaf lét skálabumburnar kveða við,
6 og Benaja og Jehasíel prestar þeyttu stöðugt lúðrana frammi fyrir sáttmálsörk Guðs.
7 Á þeim degi fól Davíð í fyrsta sinni Asaf og frændum hans að syngja "Lofið Drottin."
8 Lofið Drottin, ákallið nafn hans, gjörið máttarverk hans kunn meðal þjóðanna!
9 Syngið fyrir honum, leikið fyrir honum, talið um öll hans dásemdarverk.
10 Hrósið yður af hans helga nafni, hjarta þeirra, er leita Drottins, gleðjist.
11 Leitið Drottins og máttar hans, stundið sífellt eftir augliti hans.
12 Minnist dásemdarverka hans, þeirra er hann gjörði, tákna hans og refsidóma munns hans,
13 þér niðjar Ísraels, þjónar hans, þér synir Jakobs, hans útvöldu.
35 Svo bar við, er hann nálgaðist Jeríkó, að blindur maður sat þar við veginn og betlaði.
36 Hann heyrði, að mannfjöldi gekk hjá, og spurði, hvað um væri að vera.
37 Var honum sagt, að Jesús frá Nasaret færi hjá.
38 Þá hrópaði hann: "Jesús, sonur Davíðs, miskunna þú mér!"
39 En þeir sem á undan fóru, höstuðu á hann, að hann þegði. En hann hrópaði því meir: "Sonur Davíðs, miskunna þú mér!"
40 Jesús nam staðar og bauð að leiða hann til sín. Er hann kom nær, spurði Jesús hann:
41 "Hvað vilt þú, að ég gjöri fyrir þig?" Hinn svaraði: "Herra, að ég fái aftur sjón."
42 Jesús sagði við hann: "Fá þú aftur sjónina. Trú þín hefur bjargað þér."
43 Jafnskjótt fékk hann sjónina. Og hann fylgdi honum og lofaði Guð. En allt fólkið, er sá þetta, vegsamaði Guð.
by Icelandic Bible Society