Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
24 að þú megir troða þá til bana, að tungur hunda þinna megi fá sinn hlut af óvinunum."
25 Menn horfa á inngöngu þína, ó Guð, inngöngu Guðs míns og konungs í musterið.
26 Söngvarar eru í fararbroddi, þá strengleikarar, ásamt yngismeyjum, er berja bumbur.
27 Lofið Guð á hátíðarsamkundum, lofið Drottin, þér sem eruð af uppsprettu Ísraels.
28 Þar er Benjamín litli, er ríkir yfir þeim, höfðingjar Júda í þyrpingu, höfðingjar Sebúlons, höfðingjar Naftalí.
29 Bjóð út, ó Guð, styrkleik þínum, þeim styrkleik sem þú hefir auðsýnt oss
30 frá musteri þínu í Jerúsalem. Konungar skulu færa þér gjafir.
31 Ógna þú dýrinu í sefinu, uxaflokkunum ásamt bolakálfum þjóðanna, sem troða menn fótum sökum ágirndar sinnar á silfri. Tvístra þú þjóðum, er unna ófriði!
32 Það koma sendiherrar frá Egyptalandi, Bláland færir Guði gjafir hröðum höndum.
33 Þér konungsríki jarðar, syngið Guði, syngið Drottni lof, [Sela]
34 honum sem ekur um himnanna himna frá eilífð, hann lætur raust sína gjalla, hina voldugu raust.
35 Tjáið Guði dýrð, yfir Ísrael er hátign hans og máttur hans í skýjunum.
12 Þá gjörði Abner sendimenn á fund Davíðs í Hebron með þessa orðsending: "Hvers er landið?" Og: "Gjör þú sáttmála við mig, þá mun ég veita þér fulltingi til að snúa öllum Ísrael til fylgis við þig."
13 Davíð svaraði: "Gott og vel, ég vil gjöra sáttmála við þig. En eins krefst ég af þér: Þú skalt ekki líta ásjónu mína fyrr en þú færir mér Míkal, dóttur Sáls, þá er þú kemur til þess að líta ásjónu mína."
14 Og Davíð gjörði sendimenn á fund Ísbósets, sonar Sáls, með þá orðsending: "Fá mér konu mína Míkal, er ég festi mér fyrir hundrað filistayfirhúðir."
15 Þá sendi Ísbóset og lét taka hana frá manni hennar, Paltíel Laíssyni.
16 Og maður hennar fylgdi henni með miklum gráti til Bahúrím. Þá sagði Abner við hann: "Farðu nú heim aftur!" Fór hann þá aftur heim.
12 Þegar dagur rann, bundust Gyðingar samtökum og sóru þess eið að eta hvorki né drekka, fyrr en þeir hefðu ráðið Pál af dögum.
13 Voru þeir fleiri en fjörutíu, sem þetta samsæri gjörðu.
14 Þeir fóru til æðstu prestanna og öldunganna og sögðu: "Vér höfum svarið þess dýran eið að neyta einskis, fyrr en vér höfum ráðið Pál af dögum.
15 Nú skuluð þér og ráðið leggja til við hersveitarforingjann, að hann láti senda hann niður til yðar, svo sem vilduð þér kynna yður mál hans rækilegar. En vér erum við því búnir að vega hann, áður en hann kemst alla leið."
16 En systursonur Páls heyrði um fyrirsátina. Hann gekk inn í kastalann og sagði Páli frá.
17 Páll kallaði til sín einn hundraðshöfðingjann og mælti: "Far þú með þennan unga mann til hersveitarforingjans, því að hann hefur nokkuð að segja honum."
18 Hundraðshöfðinginn tók hann með sér, fór með hann til hersveitarforingjans og sagði: "Fanginn Páll kallaði mig til sín og bað mig fara til þín með þennan unga mann. Hann hefur eitthvað að segja þér."
19 Hersveitarforinginn tók í hönd honum, leiddi hann afsíðis og spurði: "Hvað er það, sem þú hefur að segja mér?"
20 Hinn svaraði: "Gyðingar hafa komið sér saman um að biðja þig að senda Pál niður í ráðið á morgun, þar eð þeir ætli að rannsaka mál hans rækilegar.
21 En lát þú ekki að vilja þeirra, því að menn þeirra, fleiri en fjörutíu, sitja fyrir honum og hafa svarið þess eið að eta hvorki né drekka fyrr en þeir hafi vegið hann. Nú eru þeir viðbúnir og bíða eftir, að svarið komi frá þér."
22 Hersveitarforinginn lét piltinn fara og bauð honum: "Þú mátt engum segja, að þú hafir gjört mér viðvart um þetta."
23 Hann kallaði fyrir sig tvo hundraðshöfðingja og sagði: "Látið tvö hundruð hermenn vera tilbúna að fara til Sesareu eftir náttmál, auk þess sjötíu riddara og tvö hundruð léttliða.
24 Hafið og til fararskjóta handa Páli, svo að þér komið honum heilum til Felixar landstjóra."
25 Og hann ritaði bréf, svo hljóðandi:
26 "Kládíus Lýsías sendir kveðju hinum göfuga Felix landstjóra.
27 Mann þennan höfðu Gyðingar tekið höndum og voru í þann veginn að taka af lífi, er ég kom að með hermönnum. Ég komst að því, að hann var rómverskur, og bjargaði honum.
28 En ég vildi vita, fyrir hverja sök þeir ákærðu hann, og fór með hann niður í ráð þeirra.
29 Komst ég þá að raun um, að hann var kærður vegna ágreinings um lögmál þeirra, en engin sök var honum gefin, er sætir dauða eða fangelsi.
30 En þar sem ég hef fengið bendingu um, að setið sé um líf mannsins, sendi ég hann tafarlaust til þín. Ég hef jafnframt boðið ákærendum hans að flytja mál sitt gegn honum fyrir þér."
31 Hermennirnir tóku þá Pál, eins og þeim var boðið, og fóru með hann um nótt til Antípatris.
32 Daginn eftir sneru þeir aftur til kastalans, en létu riddarana fara með honum.
33 Þeir fóru inn í Sesareu, skiluðu bréfinu til landstjórans og færðu Pál fyrir hann.
34 Hann las bréfið og spurði, úr hvaða skattlandi hann væri. Var honum tjáð, að hann væri frá Kilikíu.
35 Þá mælti hann: "Ég mun rannsaka mál þitt, þegar kærendur þínir koma." Og hann bauð að geyma hann í höll Heródesar.
by Icelandic Bible Society