Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
5 Allar ættkvíslir Ísraels komu til Davíðs í Hebron og sögðu: "Sjá, vér erum hold þitt og bein!
2 Þegar um langa hríð, á meðan Sál var konungur yfir oss, hefir þú verið fyrir Ísrael, bæði þegar hann lagði af stað í stríð og þegar hann kom heim. Auk þess hefir Drottinn við þig sagt: ,Þú skalt vera hirðir þjóðar minnar Ísraels, og þú skalt vera höfðingi yfir Ísrael!"`
3 Allir öldungar Ísraels komu til konungsins í Hebron, og Davíð konungur gjörði við þá sáttmála í Hebron, frammi fyrir augliti Drottins, og þeir smurðu Davíð til konungs yfir Ísrael.
4 Þrjátíu ára gamall var Davíð, þá er hann varð konungur, og fjörutíu ár ríkti hann.
5 Í Hebron ríkti hann sjö ár og sex mánuði yfir Júda, og í Jerúsalem ríkti hann þrjátíu og þrjú ár yfir öllum Ísrael og Júda.
9 Því næst settist Davíð að í víginu, og nefndi hann það Davíðsborg. Hann reisti og víggirðingar umhverfis, frá Milló og þaðan inn á við.
10 Og Davíð efldist meir og meir, og Drottinn, Guð allsherjar, var með honum.
48 Ljóð. Kóraítasálmur.
2 Mikill er Drottinn og mjög vegsamlegur í borg vors Guðs, á sínu helga fjalli.
3 Yndisleg rís hún, gleði alls landsins, Síonarhæð, yst í norðri, borg hins mikla konungs.
4 Guð hefir í höllum hennar kunngjört sig sem vígi.
5 Því sjá, konungarnir áttu með sér stefnu, héldu fram saman.
6 Óðara en þeir sáu, urðu þeir agndofa, skelfdust, flýðu.
7 Felmtur greip þá samstundis, angist sem jóðsjúka konu.
8 Með austanvindinum brýtur þú Tarsis-knörru.
9 Eins og vér höfum heyrt, svo höfum vér séð í borg Drottins hersveitanna, í borg vors Guðs. Guð lætur hana standa að eilífu. [Sela]
10 Guð, vér ígrundum elsku þína inni í musteri þínu.
11 Eins og nafn þitt, Guð, svo hljómi lofgjörð þín til endimarka jarðar. Hægri hönd þín er full réttlætis.
12 Síonfjall gleðst, Júdadætur fagna vegna dóma þinna.
13 Kringið um Síon, gangið umhverfis hana, teljið turna hennar.
14 Hyggið að múrgirðing hennar, skoðið hallir hennar, til þess að þér getið sagt komandi kynslóð,
15 að slíkur sé Drottinn, Guð vor. Um aldur og ævi mun hann leiða oss.
2 Mér er kunnugt um mann, hann tilheyrir Kristi, sem fyrir fjórtán árum, _ hvort það var í líkamanum eða utan líkamans, veit ég ekki, Guð veit það _, var hrifinn burt allt til þriðja himins.
3 Og mér er kunnugt um þennan mann, _ hvort það var í líkamanum eða án líkamans, veit ég ekki, Guð veit það _,
4 að hann var hrifinn upp í Paradís og heyrði ósegjanleg orð, sem engum manni er leyft að mæla.
5 Af slíku vil ég hrósa mér, en af sjálfum mér vil ég ekki hrósa mér, nema þá af veikleika mínum.
6 Þótt ég vildi hrósa mér, væri ég ekki frávita, því að ég mundi segja sannleika. En ég veigra mér við því, til þess að enginn skuli ætla mig meiri en hann sér mig eða heyrir.
7 Og til þess að ég skuli ekki hrokast upp af hinum miklu opinberunum, er mér gefinn fleinn í holdið, Satans engill, sem slær mig, til þess að ég skuli ekki hrokast upp.
8 Þrisvar hef ég beðið Drottin þess að láta hann fara frá mér.
9 Og hann hefur svarað mér: "Náð mín nægir þér; því að mátturinn fullkomnast í veikleika." Því vil ég helst hrósa mér af veikleika mínum, til þess að kraftur Krists megi taka sér bústað í mér.
10 Þess vegna uni ég mér vel í veikleika, í misþyrmingum, í nauðum, í ofsóknum, í þrengingum vegna Krists. Þegar ég er veikur, þá er ég máttugur.
6 Þaðan fór Jesús og kom í ættborg sína, og lærisveinar hans fylgdu honum.
2 Þegar hvíldardagur var kominn, tók hann að kenna í samkundunni, og þeir mörgu, sem á hlýddu, undruðust stórum. Þeir sögðu: "Hvaðan kemur honum þetta? Hver er sú speki, sem honum er gefin, og þau kraftaverk, sem gjörast fyrir hendur hans?
3 Er þetta ekki smiðurinn, sonur Maríu, bróðir þeirra Jakobs, Jóse, Júdasar og Símonar? Og eru ekki systur hans hér hjá oss?" Og þeir hneyksluðust á honum.
4 Þá sagði Jesús: "Hvergi er spámaður minna metinn en í landi sínu, með frændum og heimamönnum."
5 Og hann gat ekki gjört þar neitt kraftaverk, nema hann lagði hendur yfir nokkra sjúka og læknaði þá.
6 Og hann undraðist vantrú þeirra. Hann fór nú um þorpin þar í kring og kenndi.
7 Og hann kallaði þá tólf til sín, tók að senda þá út, tvo og tvo, og gaf þeim vald yfir óhreinum öndum.
8 Hann bauð þeim að taka ekkert til ferðarinnar annað en staf, ekki brauð, mal né peninga í belti.
9 Þeir skyldu hafa skó á fótum, en ekki tvo kyrtla.
10 Og hann sagði við þá: "Hvar sem þér fáið inni, þar sé aðsetur yðar, uns þér leggið upp að nýju.
11 En hvar sem ekki er tekið við yður né á yður hlýtt, þaðan skuluð þér fara og hrista dustið af fótum yðar þeim til vitnisburðar."
12 Þeir lögðu af stað og prédikuðu, að menn skyldu gjöra iðrun,
13 ráku út marga illa anda og smurðu marga sjúka með olíu og læknuðu þá.
by Icelandic Bible Society