Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
48 Ljóð. Kóraítasálmur.
2 Mikill er Drottinn og mjög vegsamlegur í borg vors Guðs, á sínu helga fjalli.
3 Yndisleg rís hún, gleði alls landsins, Síonarhæð, yst í norðri, borg hins mikla konungs.
4 Guð hefir í höllum hennar kunngjört sig sem vígi.
5 Því sjá, konungarnir áttu með sér stefnu, héldu fram saman.
6 Óðara en þeir sáu, urðu þeir agndofa, skelfdust, flýðu.
7 Felmtur greip þá samstundis, angist sem jóðsjúka konu.
8 Með austanvindinum brýtur þú Tarsis-knörru.
9 Eins og vér höfum heyrt, svo höfum vér séð í borg Drottins hersveitanna, í borg vors Guðs. Guð lætur hana standa að eilífu. [Sela]
10 Guð, vér ígrundum elsku þína inni í musteri þínu.
11 Eins og nafn þitt, Guð, svo hljómi lofgjörð þín til endimarka jarðar. Hægri hönd þín er full réttlætis.
12 Síonfjall gleðst, Júdadætur fagna vegna dóma þinna.
13 Kringið um Síon, gangið umhverfis hana, teljið turna hennar.
14 Hyggið að múrgirðing hennar, skoðið hallir hennar, til þess að þér getið sagt komandi kynslóð,
15 að slíkur sé Drottinn, Guð vor. Um aldur og ævi mun hann leiða oss.
3 Þegar ófriðurinn milli Sáls húss og Davíðs húss tók að gjörast langvinnur, þá efldist Davíðs hús meir og meir, en Sáls húsi hnignaði meir og meir.
2 Davíð fæddust synir í Hebron: Frumgetinn sonur hans var Amnon, með Akínóam frá Jesreel.
3 Annar sonur hans var Kíleab, með Abígail, er átt hafði Nabal í Karmel, hinn þriðji Absalon, sonur Maöku, dóttur Talmaí, konungs í Gesúr,
4 hinn fjórði Adónía, sonur Haggítar, hinn fimmti Sefatja, sonur Abítalar,
5 og hinn sjötti Jitream, með Eglu, konu Davíðs. Þessir fæddust Davíð í Hebron.
6 Meðan ófriðurinn stóð milli Sáls húss og Davíðs húss, var Abner öflugur fylgismaður Sáls húss.
7 Sál hafði átt hjákonu, er Rispa hét og var Ajasdóttir. Og Ísbóset, sonur Sáls, sagði við Abner: "Hví hefir þú gengið í eina sæng með hjákonu föður míns?"
8 Abner reiddist mjög orðum Ísbósets og mælti: "Er ég sá hundshaus, að ég haldi með Júda? Enn í dag auðsýni ég elsku húsi Sáls, föður þíns, vandamönnum hans og vinum, og ég hefi ekki framselt þig í hendur Davíðs, og þó ásakar þú mig í dag um konumál.
9 Guð gjöri mér það, er hann vill, nú og síðar: Eins og Drottinn hefir svarið Davíð, svo skal ég við hann gjöra:
10 flytja konungdóminn frá húsi Sáls og reisa hásæti Davíðs yfir Ísrael og Júda, frá Dan til Beerseba."
11 Hinn gat ekki svarað Abner einu orði af hræðslu við hann.
12 Þá gjörði Abner sendimenn á fund Davíðs í Hebron með þessa orðsending: "Hvers er landið?" Og: "Gjör þú sáttmála við mig, þá mun ég veita þér fulltingi til að snúa öllum Ísrael til fylgis við þig."
7 Þér horfið á hið ytra. Ef einhver treystir því, að hann sé Krists, þá hyggi hann betur að og sjái, að eins og hann er Krists, þannig erum vér það einnig.
8 Jafnvel þótt ég vildi hrósa mér í frekara lagi af valdi voru, sem Drottinn hefur gefið til að uppbyggja, en ekki til að niðurbrjóta yður, þá yrði ég mér ekki til skammar.
9 Ekki má líta svo út sem ég vilji hræða yður með bréfunum.
10 "Bréfin," segja menn, "eru þung og ströng, en sjálfur er hann lítill fyrir mann að sjá og enginn tekur mark á ræðu hans."
11 Sá, sem slíkt segir, festi það í huga sér, að eins og vér fjarstaddir tölum til yðar í bréfunum, þannig munum vér koma fram, þegar vér erum hjá yður.
by Icelandic Bible Society