Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
48 Ljóð. Kóraítasálmur.
2 Mikill er Drottinn og mjög vegsamlegur í borg vors Guðs, á sínu helga fjalli.
3 Yndisleg rís hún, gleði alls landsins, Síonarhæð, yst í norðri, borg hins mikla konungs.
4 Guð hefir í höllum hennar kunngjört sig sem vígi.
5 Því sjá, konungarnir áttu með sér stefnu, héldu fram saman.
6 Óðara en þeir sáu, urðu þeir agndofa, skelfdust, flýðu.
7 Felmtur greip þá samstundis, angist sem jóðsjúka konu.
8 Með austanvindinum brýtur þú Tarsis-knörru.
9 Eins og vér höfum heyrt, svo höfum vér séð í borg Drottins hersveitanna, í borg vors Guðs. Guð lætur hana standa að eilífu. [Sela]
10 Guð, vér ígrundum elsku þína inni í musteri þínu.
11 Eins og nafn þitt, Guð, svo hljómi lofgjörð þín til endimarka jarðar. Hægri hönd þín er full réttlætis.
12 Síonfjall gleðst, Júdadætur fagna vegna dóma þinna.
13 Kringið um Síon, gangið umhverfis hana, teljið turna hennar.
14 Hyggið að múrgirðing hennar, skoðið hallir hennar, til þess að þér getið sagt komandi kynslóð,
15 að slíkur sé Drottinn, Guð vor. Um aldur og ævi mun hann leiða oss.
2 Eftir þetta spurði Davíð Drottin á þessa leið: "Á ég að fara til einhverrar af borgunum í Júda?" Drottinn svaraði honum: "Já." Þá sagði Davíð: "Hvert á ég að fara?" Hann svaraði: "Til Hebron."
2 Þá fór Davíð þangað, og með honum báðar konur hans, þær Akínóam frá Jesreel og Abígail, er átt hafði Nabal í Karmel.
3 Davíð lét og mennina, sem hjá honum voru, fara, hvern með sína fjölskyldu, og þeir settust að í borgunum kringum Hebron.
4 Þá komu Júdamenn til Hebron og smurðu Davíð til konungs yfir Júda hús. Nú var Davíð sagt svo frá: "Íbúarnir í Jabes Gíleað hafa jarðað Sál."
5 Þá gjörði Davíð menn á fund íbúanna í Jabes í Gíleað og lét segja við þá: "Verið blessaðir af Drottni fyrir það, að þér hafið sýnt þetta kærleiksverk á herra yðar Sál, að jarða hann.
6 Drottinn sýni yður nú kærleika og trúfesti. En ég vil og yður góðu launa, sakir þess að þér gjörðuð þetta.
7 Og verið nú hughraustir og látið á sjá, að þér séuð vaskir menn. Því að Sál, herra yðar, er dauður, enda hefir Júda hús smurt mig til konungs yfir sig."
8 Abner Nersson, hershöfðingi Sáls, tók Ísbóset, son Sáls, og fór með hann yfir til Mahanaím
9 og gjörði hann að konungi yfir Gíleað, Asserítum, Jesreel, Efraím, Benjamín og yfir öllum Ísrael.
10 Ísbóset, sonur Sáls, var fertugur, þá er hann varð konungur yfir Ísrael, og hann ríkti í tvö ár. Júda hús eitt fylgdi Davíð.
11 Og tíminn, sem Davíð var konungur í Hebron, yfir Júda húsi, var sjö ár og sex mánuðir.
8 Þér eruð þegar orðnir mettir, þér eruð þegar orðnir auðugir, án vor eruð þér orðnir konungar. Og ég vildi óska, að þér væruð orðnir konungar, til þess að einnig vér mættum vera konungar með yður!
9 Mér virðist Guð hafa sett oss postulana sísta allra, eins og dauðadæmda á leiksviði, frammi fyrir öllum heiminum, bæði englum og mönnum.
10 Vér erum heimskir sökum Krists, en þér vitrir fyrir samfélag yðar við Krist! Vér erum veikir, en þér sterkir, þér eruð í hávegum hafðir, en vér óvirtir.
11 Allt til þessarar stundar þolum vér hungur, þorsta og klæðleysi, oss er misþyrmt, vér höfum engan samastað,
12 og vér stöndum í erfiði og verðum að vinna með eigin höndum.
13 Hrakyrtir blessum vér, ofsóttir umberum vér, lastaðir áminnum vér. Vér erum orðnir eins og sorp heimsins, afhrak allra allt til þessa.
by Icelandic Bible Society