Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
18 Til söngstjórans. Eftir Davíð, þjón Drottins, er flutti Drottni orð þessara ljóða, þá er Drottinn frelsaði hann af hendi allra óvina hans og af hendi Sáls.
2 Hann mælti: Ég elska þig, Drottinn, þú styrkur minn.
3 Drottinn, bjarg mitt og vígi og frelsari minn, Guð minn, hellubjarg mitt, þar sem ég leita hælis, skjöldur minn og horn hjálpræðis míns, háborg mín!
4 Lofaður sé Drottinn, hrópa ég, og ég frelsast frá óvinum mínum.
5 Brimöldur dauðans umkringdu mig, elfur glötunarinnar skelfdu mig,
6 snörur Heljar luktu um mig, möskvar dauðans féllu yfir mig.
43 Og ég muldi þá sem mold á jörð, tróð þá fótum sem saur á strætum.
44 Þú frelsaðir mig úr fólkorustum, gjörðir mig að höfðingja þjóðanna, lýður sem ég þekkti ekki þjónar mér.
45 Óðara en þeir heyra mín getið, hlýða þeir mér, útlendingar smjaðra fyrir mér.
46 Útlendingar dragast upp og koma skjálfandi fram úr fylgsnum sínum.
47 Lifi Drottinn, lofað sé mitt bjarg, og hátt upp hafinn sé Guð hjálpræðis míns,
48 sá Guð sem veitti mér hefndir og braut þjóðir undir mig,
49 sem hreif mig úr höndum óvina minna. Og yfir mótstöðumenn mína hófst þú mig, frá ójafnaðarmönnum frelsaðir þú mig.
50 Fyrir því vil ég vegsama þig, Drottinn, meðal þjóðanna og lofsyngja þínu nafni.
10 Filistar höfðu lagt til orustu við Ísrael. Höfðu Ísraelsmenn flúið fyrir Filistum, og lágu margir fallnir á Gilbóafjalli.
2 Og Filistar eltu Sál og sonu hans og felldu Jónatan, Abínadab og Malkísúa, sonu Sáls.
3 Var nú gjörð hörð atlaga að Sál, og höfðu bogmenn komið auga á hann. Varð hann þá hræddur við bogmennina.
4 Þá sagði Sál við skjaldsvein sinn: "Bregð þú sverði þínu og legg mig í gegn með því, svo að óumskornir menn þessir komi ekki og fari háðulega með mig." En skjaldsveinninn vildi ekki gjöra það, því að hann var mjög hræddur. Þá tók Sál sverðið og lét fallast á það.
5 Og er skjaldsveinninn sá, að Sál var dauður, þá lét hann og fallast á sverð sitt og dó.
6 Þannig létu þeir líf sitt, Sál, synir hans þrír og allir ættmenn hans. Létu þeir lífið saman.
7 Þegar allir Ísraelsmenn þeir er á sléttlendinu bjuggu, sáu, að Ísraelsmenn voru flúnir, og Sál og synir hans fallnir, þá yfirgáfu þeir borgir sínar og lögðu á flótta. Og Filistar komu og settust að í þeim.
8 Daginn eftir komu Filistar að ræna valinn. Fundu þeir þá Sál og sonu hans þrjá fallna á Gilbóafjalli.
9 Flettu þeir hann klæðum og tóku höfuð hans og herklæði og gjörðu sendimenn um allt Filistaland til þess að flytja skurðgoðum sínum og lýðnum gleðitíðindin.
10 Og þeir lögðu vopn hans í hof guðs síns, en hauskúpu hans festu þeir upp í hofi Dagóns.
11 Þegar allir þeir, er bjuggu í Jabes í Gíleað, fréttu allt það, er Filistar höfðu gjört við Sál,
12 þá tóku sig til allir vopnfærir menn, tóku lík Sáls og lík sona hans og fluttu þau til Jabes. Síðan jörðuðu þeir bein þeirra undir eikinni í Jabes og föstuðu í sjö daga.
13 Þannig lét Sál líf sitt sakir ótrúmennsku sinnar við Drottin, sakir þess að hann eigi varðveitti boð Drottins, og einnig sakir þess, að hann hafði gengið til frétta við vofu,
14 en við Drottin hafði hann eigi gengið til frétta. Hann lét hann þess vegna deyja, en konungdóminn hverfa undir Davíð Ísaíson.
14 Þegar þeir komu til lærisveinanna, sáu þeir mannfjölda mikinn kringum þá og fræðimenn að þrátta við þá.
15 En um leið og fólkið sá hann, sló þegar felmtri á alla, og þeir hlupu til og heilsuðu honum.
16 Hann spurði þá: "Um hvað eruð þér að þrátta við þá?"
17 En einn úr mannfjöldanum svaraði honum: "Meistari, ég færði til þín son minn, sem málleysis andi er í.
18 Hvar sem andinn grípur hann, slengir hann honum flötum, og hann froðufellir, gnístir tönnum og stirðnar upp. Ég bað lærisveina þína að reka hann út, en þeir gátu það ekki."
19 Jesús svarar þeim: "Ó, þú vantrúa kynslóð, hversu lengi á ég að vera hjá yður? Hversu lengi á ég að umbera yður? Færið hann til mín."
20 Þeir færðu hann þá til Jesú, en um leið og andinn sá hann, teygði hann drenginn ákaflega, hann féll til jarðar, veltist um og froðufelldi.
21 Jesús spurði þá föður hans: "Hve lengi hefur honum liðið svo?" Hann sagði: "Frá bernsku.
22 Og oft hefur hann kastað honum bæði í eld og vatn til að fyrirfara honum. En ef þú getur nokkuð, þá sjá aumur á okkur og hjálpa okkur."
23 Jesús sagði við hann: "Ef þú getur! Sá getur allt sem trúir."
24 Jafnskjótt hrópaði faðir sveinsins: "Ég trúi, hjálpa þú vantrú minni."
25 Nú sér Jesús, að mannfjöldi þyrpist að. Þá hastar hann á óhreina andann og segir: "Þú dumbi, daufi andi, ég býð þér, far út af honum, og kom aldrei framar í hann."
26 Þá æpti andinn, teygði hann mjög og fór, en sveinninn varð sem nár, svo að flestir sögðu: "Hann er dáinn."
27 En Jesús tók í hönd honum og reisti hann upp, og hann stóð á fætur.
28 Þegar Jesús var kominn inn og orðinn einn með lærisveinum sínum, spurðu þeir hann: "Hví gátum vér ekki rekið hann út?"
29 Hann mælti: "Þetta kyn verður eigi út rekið nema með bæn."
by Icelandic Bible Society