Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 130

130 Úr djúpinu ákalla ég þig, Drottinn,

Drottinn, heyr þú raust mína, lát eyru þín hlusta á grátbeiðni mína!

Ef þú, Drottinn, gæfir gætur að misgjörðum, Drottinn, hver fengi þá staðist?

En hjá þér er fyrirgefning, svo að menn óttist þig.

Ég vona á Drottin, sál mín vonar, og hans orðs bíð ég.

Meir en vökumenn morgun, vökumenn morgun, þreyr sál mín Drottin.

Ó Ísrael, bíð þú Drottins, því að hjá Drottni er miskunn, og hjá honum er gnægð lausnar.

Hann mun leysa Ísrael frá öllum misgjörðum hans.

Fyrri Samúelsbók 20:27-42

27 En daginn eftir tunglkomuna var sæti Davíðs enn autt. Þá sagði Sál við Jónatan son sinn: "Hvers vegna hefir sonur Ísaí ekki komið til máltíðar, hvorki í gær né í dag?"

28 Jónatan svaraði Sál: "Davíð beiddist þess af mér að mega fara til Betlehem.

29 Hann sagði: ,Leyf mér að fara, því að vér ætlum að halda ættarfórn í borginni, og bræður mínir hafa beðið mig að koma, og hafi ég fundið náð í augum þínum, þá lofaðu mér að komast burt, svo að ég geti heimsótt bræður mína.` Fyrir því hefir hann ekki komið að konungsborði."

30 Þá reiddist Sál Jónatan og sagði við hann: "Þú sonur þrjóskrar móður! Ætli ég viti ekki að þú ert vinur Ísaísonar, þér til skammar, og blygðun móður þinnar til skammar!

31 Því að alla þá stund, sem Ísaísonur er lifandi á jörðinni, munt þú og konungdómur þinn eigi fastur standa. Send því nú og lát koma með hann til mín, því að hann er dauðamaður."

32 Þá svaraði Jónatan Sál föður sínum og sagði við hann: "Hví skal deyða hann? Hvað hefir hann gjört?"

33 Þá snaraði Sál að honum spjótinu og ætlaði að leggja hann í gegn. Sá Jónatan þá, að faðir hans hafði fastráðið að drepa Davíð.

34 Og Jónatan stóð upp frá borðinu ævareiður og neytti ekki matar annan tunglkomudaginn, því að hann tók sárt til Davíðs, af því að faðir hans hafði smánað hann.

35 Morguninn eftir gekk Jónatan út á víðavang á þeim tíma, er þeir Davíð höfðu til tekið, og var ungur sveinn með honum.

36 Og hann sagði við svein sinn: "Hlauptu og sæktu örina, sem ég ætla að skjóta." Sveinninn hljóp af stað, en hann skaut örinni yfir hann fram.

37 En er sveinninn kom þar að, er örin lá, sem Jónatan hafði skotið, þá kallaði Jónatan á eftir sveininum og sagði: "Örin liggur hinumegin við þig!"

38 Og Jónatan kallaði enn á eftir sveininum: "Áfram, flýttu þér, stattu ekki kyrr!" Og sveinn Jónatans tók upp örina og færði húsbónda sínum.

39 En sveinninn vissi ekki neitt. Þeir Jónatan og Davíð vissu einir, hvað þetta átti að þýða.

40 Og Jónatan fékk sveini sínum vopn sín og sagði við hann: "Farðu með þau inn í borgina."

41 Sveinninn fór nú heim, en Davíð reis upp undan hólnum, féll fram á ásjónu sína til jarðar og laut þrisvar sinnum, og þeir kysstu hvor annan og grétu hvor með öðrum, þó Davíð miklu meir.

42 Og Jónatan sagði við Davíð: "Far þú í friði. En viðvíkjandi því, sem við báðir höfum unnið eið að í nafni Drottins, þá sé Drottinn vitni milli mín og þín, og milli minna niðja og þinna niðja að eilífu." Síðan hélt Davíð af stað og fór burt, en Jónatan gekk inn í borgina.

Lúkasarguðspjall 4:31-37

31 Hann kom nú ofan til Kapernaum, borgar í Galíleu, og kenndi þeim á hvíldardegi.

32 Undruðust menn mjög kenningu hans, því að vald fylgdi orðum hans.

33 Í samkunduhúsinu var maður nokkur, er haldinn var óhreinum, illum anda. Hann æpti hárri röddu:

34 "Æ, hvað vilt þú oss, Jesús frá Nasaret? Ert þú kominn að tortíma oss? Ég veit, hver þú ert, hinn heilagi Guðs."

35 Jesús hastaði þá á hann og mælti: "Þegi þú, og far út af honum." En illi andinn slengdi honum fram fyrir þá og fór út af honum, en varð honum ekki að meini.

36 Felmtri sló á alla, og sögðu þeir hver við annan: "Hvaða orð er þetta? Með valdi og krafti skipar hann óhreinum öndum, og þeir fara."

37 Og orðstír hans barst út til allra staða þar í grennd.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society