Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
113 Ég hata þá, er haltra til beggja hliða, en lögmál þitt elska ég.
114 Þú ert skjól mitt og skjöldur, ég vona á orð þitt.
115 Burt frá mér, þér illgjörðamenn, að ég megi halda boð Guðs míns.
116 Styð mig samkvæmt fyrirheiti þínu, að ég megi lifa, og lát mig eigi til skammar verða í von minni.
117 Styð þú mig, að ég megi frelsast og ætíð líta til laga þinna.
118 Þú hafnar öllum þeim, er villast frá lögum þínum, því að svik þeirra eru til einskis.
119 Sem sora metur þú alla óguðlega á jörðu, þess vegna elska ég reglur þínar.
120 Hold mitt nötrar af hræðslu fyrir þér, og dóma þína óttast ég.
121 Ég hefi iðkað rétt og réttlæti, sel mig eigi í hendur kúgurum mínum.
122 Gakk í ábyrgð fyrir þjón þinn, honum til heilla, lát eigi ofstopamennina kúga mig.
123 Augu mín tærast af þrá eftir hjálpræði þínu og eftir þínu réttláta fyrirheiti.
124 Far með þjón þinn eftir miskunn þinni og kenn mér lög þín.
125 Ég er þjónn þinn, veit mér skyn, að ég megi þekkja reglur þínar.
126 Tími er kominn fyrir Drottin að taka í taumana, þeir hafa rofið lögmál þitt.
127 Þess vegna elska ég boð þín framar en gull og skíragull.
128 Þess vegna held ég beina leið eftir öllum fyrirmælum þínum, ég hata sérhvern lygaveg.
8 Er ófriður hófst að nýju, fór Davíð og barðist við Filista og felldi mikinn fjölda af þeim, svo að þeir flýðu fyrir honum.
9 Þá kom illur andi frá Drottni yfir Sál; en hann sat í húsi sínu og hafði spjót í hendi sér, og Davíð lék hörpuna hendi sinni.
10 Þá reyndi Sál að reka Davíð í gegn með spjótinu upp við vegginn, en hann skaut sér undan Sál, svo að hann rak spjótið inn í vegginn. Og Davíð flýði og komst undan.
11 Hina sömu nótt sendi Sál sendimenn í hús Davíðs til þess að hafa gætur á honum, svo að hann fengi drepið hann um morguninn. En Míkal, kona hans, sagði Davíð frá og mælti: "Ef þú forðar ekki lífi þínu í nótt, þá verður þú drepinn á morgun."
12 Þá lét Míkal Davíð síga niður út um gluggann, og hann fór og flýði og komst undan.
13 Síðan tók Míkal húsgoðið og lagði í rúmið, og hún lagði blæju úr geitarhári yfir höfðalagið og breiddi ábreiðu yfir.
14 Og þegar Sál sendi menn til þess að sækja Davíð, þá sagði hún: "Hann er sjúkur."
15 Þá sendi Sál mennina aftur til að vitja um Davíð og sagði: "Færið mér hann í rúminu, til þess að ég geti drepið hann."
16 En er sendimennirnir komu, sjá, þá lá húsgoðið í rúminu og geitarhársblæjan yfir höfðalaginu.
17 Þá sagði Sál við Míkal: "Hví hefir þú svikið mig svo og látið óvin minn í burt fara, svo að hann hefir komist undan?" Míkal sagði við Sál: "Hann sagði við mig: ,Lát mig komast burt, ella mun ég drepa þig!"`
45 Tafarlaust knúði hann lærisveina sína að fara í bátinn og halda á undan yfir til Betsaídu, meðan hann sendi fólkið brott.
46 Og þá er hann hafði kvatt það, fór hann til fjalls að biðjast fyrir.
47 Þegar kvöld var komið, var báturinn á miðju vatni, en hann einn á landi.
48 Hann sá, að þeim var þungur róðurinn, því að vindur var á móti þeim, og er langt var liðið nætur kemur hann til þeirra, gangandi á vatninu, og ætlar fram hjá þeim.
49 Þegar þeir sáu hann ganga á vatninu, hugðu þeir, að þar færi vofa, og æptu upp yfir sig.
50 Því að allir sáu þeir hann og varð þeim bilt við. En Jesús mælti jafnskjótt til þeirra: "Verið hughraustir, það er ég, verið óhræddir."
51 Og hann sté í bátinn til þeirra og lægði þá vindinn. Og þeir urðu öldungis agndofa,
52 enda höfðu þeir ekki skilið það, sem gjörst hafði með brauðin, hjörtu þeirra voru blind.
by Icelandic Bible Society