Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
113 Ég hata þá, er haltra til beggja hliða, en lögmál þitt elska ég.
114 Þú ert skjól mitt og skjöldur, ég vona á orð þitt.
115 Burt frá mér, þér illgjörðamenn, að ég megi halda boð Guðs míns.
116 Styð mig samkvæmt fyrirheiti þínu, að ég megi lifa, og lát mig eigi til skammar verða í von minni.
117 Styð þú mig, að ég megi frelsast og ætíð líta til laga þinna.
118 Þú hafnar öllum þeim, er villast frá lögum þínum, því að svik þeirra eru til einskis.
119 Sem sora metur þú alla óguðlega á jörðu, þess vegna elska ég reglur þínar.
120 Hold mitt nötrar af hræðslu fyrir þér, og dóma þína óttast ég.
121 Ég hefi iðkað rétt og réttlæti, sel mig eigi í hendur kúgurum mínum.
122 Gakk í ábyrgð fyrir þjón þinn, honum til heilla, lát eigi ofstopamennina kúga mig.
123 Augu mín tærast af þrá eftir hjálpræði þínu og eftir þínu réttláta fyrirheiti.
124 Far með þjón þinn eftir miskunn þinni og kenn mér lög þín.
125 Ég er þjónn þinn, veit mér skyn, að ég megi þekkja reglur þínar.
126 Tími er kominn fyrir Drottin að taka í taumana, þeir hafa rofið lögmál þitt.
127 Þess vegna elska ég boð þín framar en gull og skíragull.
128 Þess vegna held ég beina leið eftir öllum fyrirmælum þínum, ég hata sérhvern lygaveg.
6 Þegar þeir komu heim, þá er Davíð hafði lagt Filistann að velli, þá gengu konur úr öllum borgum Ísraels syngjandi og dansandi út í móti Sál konungi, með bumbum, strengleik og mikilli gleði.
7 Og konurnar stigu dansinn, hófu upp söng og mæltu: Sál felldi sín þúsund, en Davíð sín tíu þúsund.
8 Þá varð Sál reiður mjög, og honum mislíkuðu þessi orð og hann sagði: "Davíð hafa þær gefið tíu þúsundin, en mér hafa þær gefið þúsundin. Nú vantar hann ekki nema konungdóminn!"
9 Og Sál leit Davíð öfundarauga ávallt upp frá því.
10 Daginn eftir kom illur andi frá Guði yfir Sál, og æði greip hann inni í húsinu, en Davíð var að leika hörpuna hendi sinni, eins og hann var vanur að gjöra á degi hverjum, og Sál hafði spjót í hendi.
11 Þá reiddi Sál spjótið og hugsaði með sér: "Ég skal reka það gegnum Davíð og inn í vegginn." En Davíð skaut sér tvívegis undan.
12 Sál var hræddur við Davíð, því að Drottinn var með honum, en var vikinn frá Sál.
13 Fyrir því lét Sál hann frá sér og gjörði hann að hersveitarforingja. Var hann nú fyrir liðinu bæði þegar það fór og kom.
14 En Davíð var giftudrjúgur í öllu, sem hann tók sér fyrir hendur, af því að Drottinn var með honum.
15 Og er Sál sá, að hann var giftusamur mjög, tók honum að standa uggur af honum.
16 En allur Ísrael og Júda elskaði Davíð, því að hann gekk jafnan þeirra fremstur.
17 Sál sagði við Davíð: "Sjá, ég vil gefa þér Merab, eldri dóttur mína, fyrir konu. En þú verður að reynast mér hraustur maður og þú verður að heyja bardaga Drottins!" En Sál hugsaði með sér: "Ég skal ekki leggja hönd á hann, en Filistar skulu leggja hönd á hann."
18 Davíð sagði við Sál: "Hver er ég og hvert er kyn mitt, ætt föður míns í Ísrael, að ég skuli verða tengdasonur konungsins?"
19 En er sá tími kom, að gifta skyldi Davíð Merab, dóttur Sáls, þá var hún gefin Adríel frá Mehóla fyrir konu.
20 En Míkal, dóttir Sáls, elskaði Davíð. Og Sál var sagt frá því, og honum líkaði það vel.
21 Þá hugsaði Sál með sér: "Ég vil gefa honum hana, svo að hún verði honum að tálsnöru og Filistar leggi hönd á hann." Og Sál sagði í annað sinn við Davíð: "Þú skalt verða tengdasonur minn í dag."
22 Og Sál bauð þjónum sínum: "Talið leynilega við Davíð og segið: ,Sjá, konungur hefir mætur á þér, og allir þjónar hans elska þig, og því skalt þú mægjast við konung."`
23 Þjónar Sáls töluðu þessi orð í eyru Davíðs. En Davíð sagði: "Sýnist yður það lítils um vert að mægjast við konung, þar sem ég er maður fátækur og lítilsháttar?"
24 Þjónar Sáls báru honum þetta og sögðu: "Slíkum orðum hefir Davíð mælt."
25 Þá sagði Sál: "Mælið svo við Davíð: ,Eigi girnist konungur annan mund en hundrað yfirhúðir Filista til þess að hefna sín á óvinum konungs."` En Sál hugsaði sér að láta Davíð falla fyrir hendi Filista.
26 Og þjónar hans báru Davíð þessi orð, og Davíð líkaði það vel að eiga að mægjast við konung. En tíminn var enn ekki liðinn,
27 er Davíð tók sig upp og lagði af stað með menn sína og drap hundrað manns meðal Filista. Og Davíð fór með yfirhúðir þeirra og lagði þær allar með tölu fyrir konung, til þess að hann næði mægðum við konung. Þá gaf Sál honum Míkal dóttur sína fyrir konu.
28 Sál sá það æ betur og betur, að Drottinn var með Davíð og að allur Ísrael elskaði hann.
29 Þá varð Sál enn miklu hræddari við Davíð. Varð Sál nú óvinur Davíðs alla ævi.
30 Og höfðingjar Filistanna fóru í leiðangur. En í hvert skipti, sem þeir fóru í leiðangur, varð Davíð giftudrýgri en allir þjónar Sáls, svo að nafn hans varð víðfrægt.
13 Nú rann á hægur sunnanvindur. Hugðust þeir þá hafa ráð þetta í hendi sér, léttu akkerum og sigldu fram með Krít nærri landi.
14 En áður en langt leið, skall á af landi ofan fárviðri, hinn illræmdi landnyrðingur.
15 Skipið hrakti, og varð ekki beitt upp í vindinn. Slógum vér undan og létum reka.
16 Vér hleyptum undir litla ey, sem nefnist Káda. Þar gátum vér með naumindum bjargað skipsbátnum.
17 Þeir náðu honum upp og gripu til þeirra ráða, sem helst máttu til bjargar verða, og reyrðu skipið köðlum. Þeir óttuðust, að þá mundi bera inn í Syrtuflóa; því felldu þeir segl og létu reka.
18 Daginn eftir hrakti oss mjög undan ofviðrinu. Þá tóku þeir að ryðja skipið.
19 Og á þriðja degi vörpuðu þeir út með eigin höndum búnaði skipsins.
20 Dögum saman sá hvorki til sólar né stjarna, og ekkert lát varð á ofviðrinu. Tók þá að þrjóta öll von um það, að vér kæmumst af.
21 Nú höfðu menn lengi einskis matar neytt. Þá stóð Páll upp meðal þeirra og mælti: "Góðir menn, þér hefðuð átt að hlíta mínu ráði og leggja ekki út frá Krít. Þá hefðuð þér komist hjá hrakningum þessum og tjóni.
22 En nú hvet ég yður að vera vonglaðir, því enginn yðar mun lífi týna, en skipið mun farast.
23 Því að á þessari nóttu stóð hjá mér engill þess Guðs, sem ég heyri til og þjóna, og mælti:
24 ,Óttast þú eigi, Páll, fyrir keisarann átt þú að koma. Og sjá, Guð hefur gefið þér alla þá, sem þér eru samskipa.`
25 Verið því vonglaðir, góðir menn. Ég treysti Guði, að svo muni fara sem við mig hefur verið mælt.
26 Oss mun bera upp á einhverja eyju."
27 Á miðnætti, þegar vér höfðum hrakist um Adríahaf í hálfan mánuð, þóttust skipverjar verða þess varir, að land væri í nánd.
28 Þeir vörpuðu grunnsökku, og reyndist dýpið tuttugu faðmar. Aftur vörpuðu þeir grunnsökku litlu síðar, og reyndist dýpið þá fimmtán faðmar.
29 Þeir óttuðust, að oss kynni að bera upp í kletta, og köstuðu því fjórum akkerum úr skutnum og þráðu nú mest, að dagur rynni.
30 En hásetarnir reyndu að strjúka úr skipinu. Þeir settu bátinn útbyrðis og þóttust vera að færa út akkeri úr framstafni.
31 Þá sagði Páll við hundraðshöfðingjann og hermennina: "Ef þessir menn eru ekki kyrrir í skipinu, getið þér ekki bjargast."
32 Hermennirnir hjuggu þá festar bátsins og létu hann fara.
33 Undir dögun hvatti Páll alla að neyta matar og sagði: "Þér hafið nú þraukað hálfan mánuð fastandi og engu nærst.
34 Það er nú mitt ráð, að þér fáið yður mat. Þess þurfið þér, ef þér ætlið að bjargast. En enginn yðar mun einu hári týna af höfði sér."
35 Að svo mæltu tók hann brauð, gjörði Guði þakkir í allra augsýn, braut það og tók að eta.
36 Urðu nú allir hressari og fóru líka að matast.
37 Alls vorum vér á skipinu tvö hundruð sjötíu og sex manns.
38 Þá er þeir höfðu etið sig metta, léttu þeir á skipinu með því að kasta kornfarminum í sjóinn.
by Icelandic Bible Society