Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
9 Hann dæmir heiminn með réttvísi, heldur réttlátan dóm yfir þjóðunum.
10 Og Drottinn er vígi orðinn hinum kúguðu, vígi á neyðartímum.
11 Þeir er þekkja nafn þitt, treysta þér, því að þú, Drottinn, yfirgefur eigi þá, er þín leita.
12 Lofsyngið Drottni, þeim er býr á Síon, gjörið stórvirki hans kunn meðal þjóðanna.
13 Því að hann sem blóðs hefnir hefir minnst þeirra, hann hefir eigi gleymt hrópi hinna hrjáðu:
14 "Líkna mér, Drottinn, sjá þú eymd mína, er hatursmenn mínir baka mér, þú sem lyftir mér upp frá hliðum dauðans,
15 að ég megi segja frá öllum lofstír þínum, fagna yfir hjálp þinni í hliðum Síonardóttur."
16 Lýðirnir eru fallnir í gryfju þá, er þeir gjörðu, fætur þeirra festust í neti því, er þeir lögðu leynt.
17 Drottinn er kunnur orðinn: Hann hefir háð dóm, hinn óguðlegi festist í því, er hendur hans höfðu gjört. [Strengjaleikur. Sela]
18 Hinir óguðlegu hrapa til Heljar, allar þjóðir er gleyma Guði.
19 Hinum snauða verður eigi ávallt gleymt, von hinna hrjáðu bregst eigi sífellt.
20 Rís þú upp, Drottinn! Lát eigi dauðlega menn verða yfirsterkari, lát þjóðirnar hljóta dóm fyrir augliti þínu.
55 Þegar Sál sá Davíð fara móti Filistanum, mælti hann við Abner hershöfðingja: "Abner, hvers son er sveinn þessi?" Abner svaraði: "Svo sannarlega sem þú lifir, konungur, veit ég það ekki."
56 Konungurinn mælti: "Spyr þú að, hvers sonur þetta ungmenni sé."
57 Og er Davíð sneri aftur og hafði lagt Filistann að velli, þá tók Abner hann og leiddi hann fyrir Sál, en hann hélt á höfði Filistans í hendi sér.
58 Og Sál sagði við hann: "Hvers son ert þú, sveinn?" Davíð svaraði: "Sonur þjóns þíns Ísaí Betlehemíta."
18 Þegar Davíð hafði endað tal sitt við Sál, þá lagði Jónatan ást mikla við Davíð og unni honum sem lífi sínu.
2 Og Sál tók Davíð að sér upp frá þeim degi og leyfði honum ekki að fara heim aftur til föður síns.
3 Og Jónatan gjörði fóstbræðralag við Davíð, af því að hann unni honum sem lífi sínu.
4 Og Jónatan fór úr skikkju sinni, sem hann var í, og gaf Davíð hana, svo og brynjukufl sinn og jafnvel sverð sitt, boga sinn og belti.
5 Og Davíð fór í leiðangra. Var hann giftudrjúgur, hvert sem Sál sendi hann. Setti Sál hann því yfir hermennina. Og hann var vel þokkaður af öllum lýð og einnig þjónum Sáls.
21 Þegar vér höfðum slitið oss frá þeim, létum vér í haf og héldum beina leið til Kós, næsta dag til Ródus og þaðan til Patara.
2 Þar hittum vér á skip, er fara átti til Fönikíu. Stigum vér á það og létum í haf.
3 Vér höfðum landsýn af Kýpur, létum hana á bakborða og sigldum til Sýrlands og tókum höfn í Týrus. Þar átti skipið að leggja upp farminn.
4 Vér fundum lærisveinana og dvöldumst þar sjö daga. Þeir sögðu Páli af gift andans, að hann skyldi ekki halda áfram til Jerúsalem.
5 Að þessum dögum liðnum lögðum vér af stað. Fylgdu þeir oss allir á veg með konum og börnum út fyrir borgina. Vér féllum á kné í fjörunni og báðumst fyrir.
6 Þar kvöddumst vér. Vér stigum á skip, en hinir sneru aftur heim til sín.
7 Vér komum til Ptólemais frá Týrus og lukum þar sjóferðinni. Vér heilsuðum bræðrunum og dvöldumst hjá þeim einn dag.
8 Daginn eftir fórum vér þaðan og komum til Sesareu, gengum inn í hús Filippusar trúboða, sem var einn af þeim sjö, og dvöldumst hjá honum.
9 Hann átti fjórar ógiftar dætur, gæddar spádómsgáfu.
10 Þegar vér höfðum dvalist þar nokkra daga, kom spámaður einn ofan frá Júdeu, Agabus að nafni.
11 Hann kom til vor, tók belti Páls, batt fætur sína og hendur og mælti: "Svo segir heilagur andi: ,Þannig munu Gyðingar í Jerúsalem binda þann mann, sem þetta belti á, og selja hann í hendur heiðingjum."`
12 Þegar vér heyrðum þetta, lögðum vér og heimamenn að Páli að fara ekki upp til Jerúsalem.
13 En hann sagði: "Hví grátið þér og hrellið hjarta mitt? Ég er eigi aðeins reiðubúinn að láta binda mig, heldur og að deyja í Jerúsalem fyrir nafn Drottins Jesú."
14 Honum varð eigi talið hughvarf. Þá létum vér kyrrt og sögðum: "Verði Drottins vilji."
15 Að þessum dögum liðnum bjuggumst vér til ferðar og héldum upp til Jerúsalem.
16 Nokkrir lærisveinar frá Sesareu urðu oss samferða. Þeir fóru með oss til Mnasons nokkurs frá Kýpur, lærisveins frá elstu tíð, og skyldum vér gista hjá honum.
by Icelandic Bible Society