Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 53

53 Til söngstjórans. Með makalatlagi. Davíðs-maskíl.

Heimskinginn segir í hjarta sínu: "Enginn Guð er til!" Ill og andstyggileg er breytni þeirra, enginn gjörir það sem gott er.

Guð lítur af himni niður á mennina til þess að sjá, hvort nokkur sé hygginn, nokkur sem leiti Guðs.

Allir eru viknir af leið, allir spilltir, enginn gjörir það sem gott er, ekki einn.

Skyldu þeir ekki fá að kenna á því, illgjörðamennirnir, þeir er eta lýð minn sem brauð væri og ákalla eigi Guð?

Þá skulu þeir verða mjög óttaslegnir, þar sem ekkert er að óttast, því að Guð tvístrar beinum þeirra, er setja herbúðir móti þér. Þú lætur þá verða til skammar, því að Guð hefir hafnað þeim.

Ó að hjálpræði Ísraels komi frá Síon! Þegar Guð snýr við hag lýðs síns, skal Jakob fagna, Ísrael gleðjast.

Fyrri Samúelsbók 13:23-14

23 Varðflokkur Filista fór nú og settist í skarðið hjá Mikmas.

14 Svo bar við einn dag, að Jónatan sonur Sáls sagði við skjaldsvein sinn: "Kom þú, við skulum fara yfir til varðflokks Filista, sem er þarna hinumegin." En hann sagði ekki föður sínum frá því.

En Sál sat utanvert við Gíbeu undir granateplatrénu, sem er hjá Mígron, og liðið, sem hann hafði með sér, var hér um bil sex hundruð manns.

Og Ahía, sonur Ahítúbs, bróður Íkabóðs, Pínehassonar, Elísonar, prests Drottins í Síló, bar hökulinn. En liðið vissi ekki, að Jónatan hafði farið.

Á milli klifanna, sem Jónatan vildi um fara yfir til varðflokks Filistanna, var hvor hamarinn sínum megin. Hét annar Bóses, en hinn Sene.

Annar hamarinn var að norðanverðu og var brattur, gegnt Mikmas, en hinn að sunnanverðu, gegnt Geba.

Jónatan sagði við skjaldsvein sinn: "Kom þú, við skulum fara yfir til varðflokks þessara óumskornu manna. Vera má, að Drottinn framkvæmi eitthvað oss í hag, því að ekkert getur tálmað Drottni að veita sigur, hvort heldur er með mörgum eða fáum."

Skjaldsveinninn svaraði honum: "Gjör þú öldungis eins og þér leikur hugur á, sjá, ég mun fylgja þér. Vil ég það eitt, er þú vilt."

Jónatan mælti: "Sjá, við förum nú yfir til mannanna og látum þá sjá okkur.

Ef þeir þá kalla til okkar: ,Nemið staðar, þangað til vér komum til ykkar!` þá skulum við standa kyrrir, þar sem við erum staddir, og eigi fara upp til þeirra.

10 En ef þeir kalla: ,Komið hingað upp til vor!` þá skulum við fara upp þangað, því að þá hefir Drottinn gefið þá í okkar hendur. Skulum við hafa það að marki."

11 Síðan létu þeir báðir varðflokk Filistanna sjá sig, og Filistar sögðu: "Sjá, Hebrear koma fram úr holunum, sem þeir hafa falið sig í."

12 Þá kölluðu varðmennirnir til Jónatans og skjaldsveins hans: "Komið hingað upp til vor, og skulum vér segja ykkur tíðindi." Þá sagði Jónatan við skjaldsvein sinn: "Kom nú upp á eftir mér, því að Drottinn hefir gefið þá í hendur Ísraels."

13 Og Jónatan klifraði upp á höndum og fótum og skjaldsveinn hans á eftir honum. Þá lögðu þeir á flótta fyrir Jónatan. En hann felldi þá, og skjaldsveinn hans vann á þeim á eftir honum.

14 Og þeir sem Jónatan og skjaldsveinn hans lögðu að velli í þessu fyrsta áhlaupi, voru um tuttugu manns, eins og þegar plógur flettir sundur sverðinum á dagplægi lands.

15 Þá sló ótta yfir herbúðirnar á völlunum og yfir allt liðið. Varðsveitin og ránsflokkurinn urðu einnig skelkaðir, og landið nötraði, og varð það að mikilli skelfingu.

16 Sjónarverðir Sáls í Gíbeu í Benjamín lituðust um, og sjá, þá var allt á tjá og tundri í herbúðum Filista.

17 Og Sál sagði við mennina, sem með honum voru: "Kannið nú liðið og hyggið að, hver frá oss hefir farið." Könnuðu þeir þá liðið, og vantaði þá Jónatan og skjaldsvein hans.

18 Þá mælti Sál við Ahía: "Kom þú með hökulinn!" _ því að hann bar þá hökulinn frammi fyrir Ísraelsmönnum.

19 En meðan Sál var að tala við prestinn, varð ysinn í herbúðum Filista æ meiri og meiri, svo að Sál sagði við prestinn: "Hættu við það!"

20 Og Sál og allt liðið, sem með honum var, safnaðist saman. En er þeir komu í orustuna, sjá, þá reiddi þar hver sverð að öðrum, og allt var í uppnámi.

21 En Hebrear þeir, er að undanförnu höfðu lotið Filistum og farið höfðu með þeim í stríðið, snerust nú og í móti þeim og gengu í lið með Ísraelsmönnum, þeim er voru með Sál og Jónatan.

22 Og er allir Ísraelsmenn, þeir er falið höfðu sig á Efraímfjöllum, fréttu, að Filistar væru lagðir á flótta, þá veittu þeir þeim og eftirför til þess að berjast við þá.

23 Þannig veitti Drottinn Ísrael sigur á þeim degi. Orustan þokaðist fram hjá Betaven,

Bréf Páls til Galatamanna 6:11-17

11 Sjáið, með hversu stórum stöfum ég skrifa yður með eigin hendi.

12 Allir þeir, sem vilja líta vel út að holdinu til, það eru þeir, sem eru að þröngva yður til að láta umskerast, einungis til þess að þeir verði eigi ofsóttir vegna kross Krists.

13 Því að ekki halda einu sinni sjálfir umskurnarmennirnir lögmálið, heldur vilja þeir að þér látið umskerast, til þess að þeir geti stært sig af holdi yðar.

14 En það sé fjarri mér að hrósa mér af öðru en krossi Drottins vors Jesú Krists. Sakir hans er ég krossfestur heiminum og heimurinn mér.

15 Umskurn eða yfirhúð skipta engu, heldur að vera ný sköpun.

16 Og yfir öllum þeim, sem þessari reglu fylgja, sé friður og miskunn, og yfir Ísrael Guðs.

17 Enginn mæði mig héðan í frá, því að ég ber merki Jesú á líkama mínum.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society