Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
20 Til söngstjórans. Davíðssálmur.
2 Drottinn bænheyri þig á degi neyðarinnar, nafn Jakobs Guðs bjargi þér.
3 Hann sendi þér hjálp frá helgidóminum, styðji þig frá Síon.
4 Hann minnist allra fórnargjafa þinna og taki brennifórn þína gilda. [Sela]
5 Hann veiti þér það er hjarta þitt þráir, og veiti framgang öllum áformum þínum.
6 Ó að vér mættum fagna yfir sigri þínum og veifa fánanum í nafni Guðs vors. Drottinn uppfylli allar óskir þínar.
7 Nú veit ég, að Drottinn veitir hjálp sínum smurða, svarar honum frá sínum helga himni, í máttarverkum kemur fulltingi hægri handar hans fram.
8 Hinir stæra sig af vögnum sínum og stríðshestum, en vér af nafni Drottins, Guðs vors.
9 Þeir fá knésig og falla, en vér rísum og stöndum uppréttir.
10 Drottinn! Hjálpa konunginum og bænheyr oss, er vér hrópum.
13 Sál var þrítugur að aldri, þá er hann varð konungur, og ríkti í tvö ár yfir Ísrael.
2 Sál valdi sér þrjú þúsund manns af Ísrael. Af þeim voru tvö þúsund hjá Sál í Mikmas og á Betelfjöllum, en eitt þúsund hjá Jónatan í Gíbeu í Benjamín. Hitt liðið lét hann brott fara, hvern heim til sín.
3 Jónatan drap landstjóra Filista, sem sat í Geba, og Filistar fréttu það. Og Sál lét þeyta lúður um allt landið og sagði: "Hebrear skulu heyra það."
4 Og allur Ísrael heyrði sagt: "Sál hefir drepið landstjóra Filista, og Filistar hafa andstyggð á Ísrael." Og liðinu var stefnt saman til þess að fara með Sál til Gilgal.
5 Filistar söfnuðust saman til að berjast við Ísrael, þrjú þúsund vagnar og sex þúsund riddarar og fótgöngulið, svo margt sem sandur á sjávarströndu, og þeir lögðu af stað og settu herbúðir sínar í Mikmas fyrir austan Betaven.
6 Og er Ísraelsmenn sáu, að þeir voru komnir í kreppu, því að að þeim þrengdi, þá faldi liðið sig í hellum, jarðholum, klettaskorum, gjótum og gryfjum.
7 Nokkrir Hebreanna fóru yfir vöðin á Jórdan yfir í Gaðs land og Gíleaðs. Sál var enn í Gilgal, en allt liðið hafði flúið burt frá honum fyrir hræðslu sakir.
8 Og hann beið í sjö daga, til þess tíma, er Samúel hafði til tekið, en Samúel kom ekki til Gilgal, og fólkið dreifðist burt frá honum.
9 Þá sagði Sál: "Færið mér hingað brennifórnina og heillafórnirnar." Og hann fórnaði brennifórninni.
10 En er hann hafði fórnað brennifórninni, sjá, þá kom Samúel. Og Sál gekk út á móti honum til þess að heilsa honum.
11 Og Samúel mælti: "Hvað hefir þú gjört?" Sál svaraði: "Þegar ég sá, að liðið dreifðist burt frá mér og að þú komst ekki á tilteknum tíma, en Filistar söfnuðust saman í Mikmas,
12 þá hugsaði ég: ,Nú munu Filistar fara ofan á móti mér til Gilgal, áður en ég hefi blíðkað Drottin.` Fyrir því herti ég upp hugann og fórnaði brennifórninni."
13 Þá sagði Samúel við Sál: "Heimskulega hefir þér farið. Þú hefir ekki gætt skipunar Drottins, Guðs þíns, sem hann fyrir þig lagði, því að nú hefði Drottinn staðfest konungdóm þinn yfir Ísrael að eilífu.
14 En nú mun konungdómur þinn ekki standa. Drottinn hefir leitað sér að manni eftir sínu hjarta, og hann hefir Drottinn skipað höfðingja yfir lýð sinn, því að þú hefir ekki gætt þess, er Drottinn fyrir þig lagði."
15 Þá tók Samúel sig upp og fór frá Gilgal og hélt leiðar sinnar. En leifarnar af liðinu fóru á eftir Sál í móti herliðinu. Og er þeir voru komnir frá Gilgal til Gíbeu í Benjamín, þá kannaði Sál liðið, sem hjá honum var, um sex hundruð manns.
4 Aftur tók hann að kenna við vatnið. Svo mikill mannfjöldi safnaðist að honum, að hann varð að stíga í bát og sitja þar, úti á vatninu. En allt fólkið var á landi við vatnið.
2 Hann kenndi þeim margt í dæmisögum og sagði við þá:
3 "Hlýðið á! Sáðmaður gekk út að sá,
4 og þá er hann sáði, féll sumt hjá götunni, og fuglar komu og átu það upp.
5 Sumt féll í grýtta jörð, þar sem var lítill jarðvegur, og það rann skjótt upp, því það hafði ekki djúpa jörð.
6 En er sól hækkaði, visnaði það, og sökum þess að það hafði ekki rætur, skrælnaði það.
7 Og sumt féll meðal þyrna, og þyrnarnir uxu og kæfðu það, og það bar ekki ávöxt.
8 En sumt féll í góða jörð, kom upp, óx og bar ávöxt, það gaf þrítugfaldan, sextugfaldan og hundraðfaldan ávöxt."
9 Og hann sagði: "Hver sem eyru hefur að heyra, hann heyri!"
10 Þegar hann var orðinn einn, spurðu þeir tólf og hinir, sem með honum voru, um dæmisögurnar.
11 Hann svaraði þeim: "Yður er gefinn leyndardómur Guðs ríkis. Hinir, sem fyrir utan eru, fá allt í dæmisögum,
12 að sjáandi sjái þeir og skynji ekki, heyrandi heyri þeir og skilji ekki, svo þeir snúi sér eigi og verði fyrirgefið."
13 Og hann segir við þá: "Þér skiljið eigi þessa dæmisögu. Hvernig fáið þér þá skilið nokkra dæmisögu?
14 Sáðmaðurinn sáir orðinu.
15 Það hjá götunni, þar sem orðinu er sáð, merkir þá sem heyra, en Satan kemur jafnskjótt og tekur burt orðið, sem í þá var sáð.
16 Eins það sem sáð var í grýtta jörð, það merkir þá sem taka orðinu með fögnuði, um leið og þeir heyra það,
17 en hafa enga rótfestu. Þeir eru hvikulir og er þrenging verður síðan eða ofsókn vegna orðsins, bregðast þeir þegar.
18 Öðru var sáð meðal þyrna. Það merkir þá sem heyra orðið,
19 en áhyggjur heimsins, tál auðæfanna og aðrar girndir koma til og kefja orðið, svo það ber engan ávöxt.
20 Hitt, sem sáð var í góða jörð, merkir þá sem heyra orðið, taka við því og bera þrítugfaldan, sextugfaldan og hundraðfaldan ávöxt."
by Icelandic Bible Society