Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 20

20 Til söngstjórans. Davíðssálmur.

Drottinn bænheyri þig á degi neyðarinnar, nafn Jakobs Guðs bjargi þér.

Hann sendi þér hjálp frá helgidóminum, styðji þig frá Síon.

Hann minnist allra fórnargjafa þinna og taki brennifórn þína gilda. [Sela]

Hann veiti þér það er hjarta þitt þráir, og veiti framgang öllum áformum þínum.

Ó að vér mættum fagna yfir sigri þínum og veifa fánanum í nafni Guðs vors. Drottinn uppfylli allar óskir þínar.

Nú veit ég, að Drottinn veitir hjálp sínum smurða, svarar honum frá sínum helga himni, í máttarverkum kemur fulltingi hægri handar hans fram.

Hinir stæra sig af vögnum sínum og stríðshestum, en vér af nafni Drottins, Guðs vors.

Þeir fá knésig og falla, en vér rísum og stöndum uppréttir.

10 Drottinn! Hjálpa konunginum og bænheyr oss, er vér hrópum.

Fyrri Samúelsbók 10:1-8

10 Þá tók Samúel buðk með olífuolíu og hellti yfir höfuð honum og minntist við hann og mælti: "Nú hefir Drottinn smurt þig til höfðingja yfir lýð sinn Ísrael, og þú skalt drottna yfir lýð Drottins og þú skalt frelsa hann af hendi óvina hans. Og þetta skalt þú til marks hafa um, að Drottinn hefir smurt þig til höfðingja yfir arfleifð sína:

Þegar þú ert farinn frá mér í dag, munt þú hitta tvo menn við gröf Rakelar á Benjamíns landamærum hjá Selsa, og þeir munu segja við þig: ,Ösnurnar, sem þú fórst að leita að, eru fundnar. En faðir þinn er hættur að hugsa um ösnurnar og farinn að undrast um ykkur og segir: Hvað á ég að gjöra viðvíkjandi syni mínum?`

Og þegar þú nú heldur áfram þaðan og kemur að Taboreik, þá munu þrír menn mæta þér þar, sem eru á leið upp til Guðs í Betel. Einn þeirra ber þrjú kið, annar ber þrjá brauðhleifa og hinn þriðji ber vínlegil.

Þeir munu heilsa þér og gefa þér tvö brauð; skalt þú þiggja þau af þeim.

Eftir það munt þú koma til Gíbeu Guðs, þar sem súla Filista stendur. Og þegar þú kemur inn í borgina, þá munt þú mæta hóp spámanna, sem eru á leið ofan af fórnarhæðinni með hörpur, bumbur, hljóðpípur og gígjur á undan sér og sjálfir eru í spámannlegum guðmóði.

Þá mun andi Drottins koma yfir þig, svo að þú munt komast í spámannlegan guðmóð með þeim og verða annar maður.

Og þegar þú sér þessi tákn koma fram, þá neyt þess færis, sem þér býðst, því að Guð er með þér.

Og þú skalt fara á undan mér ofan til Gilgal. Og sjá, ég mun koma heim til þín og bera fram brennifórnir og fórna heillafórnum. Þú skalt bíða í sjö daga, þar til er ég kem til þín, og þá skal ég láta þig vita, hvað þú átt að gjöra."

Bréfið til Hebrea 11:4-7

Fyrir trú bar Abel fram fyrir Guð betri fórn en Kain, og fyrir trú fékk hann þann vitnisburð, að hann væri réttlátur, er Guð bar vitni um fórn hans. Með trú sinni talar hann enn, þótt dauður sé.

Fyrir trú var Enok burt numinn, að eigi skyldi hann dauðann líta. "Ekki var hann framar að finna, af því að Guð hafði numið hann burt." Áður en hann var burt numinn, hafði hann fengið þann vitnisburð, "að hann hefði verið Guði þóknanlegur."

En án trúar er ógerlegt að þóknast honum, því að sá, sem gengur fram fyrir Guð, verður að trúa því, að hann sé til og að hann umbuni þeim, er hans leita.

Fyrir trú fékk Nói bendingu um það, sem enn þá var ekki auðið að sjá. Hann óttaðist Guð og smíðaði örk til björgunar heimilisfólki sínu. Með trú sinni dæmdi hann heiminn og varð erfingi réttlætisins af trúnni.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society