Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
138 Eftir Davíð. Ég vil lofa þig af öllu hjarta, lofsyngja þér frammi fyrir guðunum.
2 Ég vil falla fram fyrir þínu heilaga musteri og lofa nafn þitt sakir miskunnar þinnar og trúfesti, því að þú hefir gjört nafn þitt og orð þitt meira öllu öðru.
3 Þegar ég hrópaði, bænheyrðir þú mig, þú veittir mér hugmóð, er ég fann kraft hjá mér.
4 Allir konungar á jörðu skulu lofa þig, Drottinn, er þeir heyra orðin af munni þínum.
5 Þeir skulu syngja um vegu Drottins, því að mikil er dýrð Drottins.
6 Því að Drottinn er hár og sér þó hina lítilmótlegu og þekkir hinn drambláta í fjarska.
7 Þótt ég sé staddur í þrengingu, lætur þú mig lífi halda, þú réttir út hönd þína gegn reiði óvina minna, og hægri hönd þín hjálpar mér.
8 Drottinn mun koma öllu vel til vegar fyrir mig, Drottinn, miskunn þín varir að eilífu. Yfirgef eigi verk handa þinna.
6 Örk Drottins var sjö mánuði í Filistalandi.
2 Og Filistar kölluðu prestana og spásagnarmennina og sögðu: "Hvað eigum vér að gjöra við örk Drottins? Segið oss til, hvernig vér eigum að senda hana heim á sinn stað."
3 Þeir svöruðu: "Ef þér sendið burt örk Ísraels Guðs, þá sendið hana ekki gjafalaust, heldur greiðið henni sektarfórn. Þá munuð þér heilir verða, og yður mun verða kunnugt, hvers vegna hönd hans hefir ekki frá yður vikið."
4 Þá sögðu Filistar: "Hvaða sektarfórn eigum vér að greiða henni?" Þeir svöruðu: "Fimm kýli af gulli og fimm mýs af gulli, eins og höfðingjar Filista eru margir til, því að sama plágan hefir gengið yfir yður og höfðingja yðar.
5 Búið nú til myndir af kýlum yðar og myndir af músum yðar, þeim er eyða landið, og gefið Ísraels Guði dýrðina: Má vera að hann létti þá af yður hendi sinni og af guði yðar og af landi yðar.
6 Hvers vegna viljið þér herða hjörtu yðar, eins og Egyptar og Faraó hertu hjarta sitt? Var ekki svo, að þegar hann hafði leikið þá hart, þá slepptu þeir þeim, svo að þeir fóru burt?
7 Og takið nú og gjörið nýjan vagn og tvær kýr, sem kálfar ganga undir og ok hefir ekki komið á, og beitið kúnum fyrir vagninn, en takið kálfana undan þeim og farið heim með þá.
8 Takið síðan örk Drottins og setjið hana á vagninn, en gullgripi þá, er þér greiðið henni í sektarfórn, skuluð þér láta í kistil við hlið hennar. Látið hana síðan fara leiðar sinnar.
9 Og hyggið að: Ef hún fer veginn til síns lands upp til Bet Semes, þá er það hann, sem hefir látið oss þessa miklu ógæfu að höndum bera. En fari hún ekki veginn, þá vitum vér, að ekki er það hönd hans, sem hefir lostið oss; þá er það tilviljun, er oss hefir að höndum borið."
10 Og menn gjörðu svo. Þeir tóku tvær kýr, er kálfar gengu undir, og beittu þeim fyrir vagninn, en kálfana byrgðu þeir inni heima.
11 Síðan settu þeir örk Drottins á vagninn, svo og kistilinn með gullmúsunum og kýlamyndunum.
12 Og kýrnar fóru beina leið til Bet Semes. Þræddu þær brautina og bauluðu án afláts og viku hvorki til hægri né vinstri, og höfðingjar Filista fóru á eftir þeim allt að landamærum Bet Semes.
13 Bet Semes-búar voru að hveitiuppskeru í dalnum. Varð þeim nú litið upp og sáu þeir örkina, og urðu þeir fegnir að sjá hana.
14 Og vagninn kom inn á akur Jósúa í Bet Semes og nam þar staðar. En þar var stór steinn. Og þeir klufu viðinn úr vagninum og fórnuðu kúnum í brennifórn Drottni til handa.
15 En levítarnir tóku örk Drottins niður og kistilinn, sem hjá henni var og gullgripirnir voru í, og settu á stóra steininn. Og Bet Semes-búar fórnuðu brennifórnum og slátruðu sláturfórnum á þeim degi Drottni til handa.
16 Og höfðingjar Filistanna fimm sáu það og fóru þann sama dag aftur til Ekron.
17 En þessi voru gullkýlin, sem Filistar greiddu Drottni í sektarfórn: eitt fyrir Asdód, eitt fyrir Gasa, eitt fyrir Askalon, eitt fyrir Gat, eitt fyrir Ekron,
18 auk þess gullmýsnar, jafnmargar og allar borgir Filistahöfðingjanna fimm, bæði víggirtu borgirnar og bændaþorpin. Og stóri steinninn, er þeir settu örk Drottins niður á, er vottur þessa fram á þennan dag á akri Jósúa í Bet Semes.
4 Nú var mikill fjöldi saman kominn, og menn komu til hans úr hverri borg af annarri. Þá sagði hann þessa dæmisögu:
5 "Sáðmaður gekk út að sá sæði sínu. Og þá er hann sáði, féll sumt hjá götunni og varð fótum troðið, og fuglar himins átu það upp.
6 Sumt féll á klöpp. Það spratt, en skrælnaði, af því að það hafði ekki raka.
7 Og sumt féll meðal þyrna, og þyrnarnir spruttu einnig og kæfðu það.
8 En sumt féll í góða jörð, óx upp og bar hundraðfaldan ávöxt." Að svo mæltu hrópaði hann: "Hver sem eyru hefur að heyra, hann heyri."
9 En lærisveinar hans spurðu hann, hvað þessi dæmisaga þýddi.
10 Hann sagði: "Yður er gefið að þekkja leynda dóma Guðs ríkis, hinir fá þá í dæmisögum, ,að sjáandi sjái þeir ekki og heyrandi skilji þeir ekki.`
11 En dæmisagan þýðir þetta: Sæðið er Guðs orð.
12 Það er féll hjá götunni, merkir þá, sem heyra orðið, en síðan kemur djöfullinn og tekur það burt úr hjarta þeirra, til þess að þeir trúi ekki og verði hólpnir.
13 Það er féll á klöppina, merkir þá, sem taka orðinu með fögnuði, er þeir heyra það, en hafa enga rótfestu. Þeir trúa um stund, en falla frá á reynslutíma.
14 Það er féll meðal þyrna, merkir þá er heyra, en kafna síðan undir áhyggjum, auðæfum og nautnum lífsins og bera ekki þroskaðan ávöxt.
15 En það er féll í góða jörð, merkir þá sem heyra orðið og geyma það í göfugu, góðu hjarta og bera ávöxt með stöðuglyndi.
by Icelandic Bible Society